Alþjóðlegi votlendisdagurinn

Alþjóðlegi votlendisdagurinn

Alþjóðlegi votlendisdagurinn er 2. febrúar. Hann er hluti alþjóðlega RAMSAR verkefnisins sem Ísland er aðili að, og markar vel upphaf áratugs endurheimtar vistkerfa á vegum Sameinuðu þjóðanna.

Mikilvægi votlendis fyrir umhverfið og velferð mannkynsins hefur orðið augljósara síðustu ár, líka í íslensku samhengi. Ávinningurinn af endurheimt votlendis er margfaldur. Auk þess að stöðva losun gróðurhúsalofttegunda batna lífsskilyrði margra fuglategunda, en yfir 90% íslenskra varpfugla, farfugla og vetrargesta byggja afkomu sína að einhverju leyti á votlendi. Endurheimt votlendis getur einnig aukið útivistargildi svæða, t.d. aukið möguleika til fuglaskoðunar og bætt skilyrði til veiða.

Lóuþræll í votlendi. Mynd: Dúi J. Landmark

Votlendi geymir verulegan hluta kolefnisforða jarðar. Það er mikilvægt búsvæði plantna, fugla, fiska og smádýra. Það bætir jafnframt vatnsbúskap jarðar, getur jafnað vatnsrennsli og þannig minnkað hættu á flóðum, sveiflum í vatnsrennsli og jarðvegsrofi. Því er mikilvægt að vernda votlendi og endurheimta raskað votlendi sem ekki er verið að nýta.

Mýrlendi þekur um 9000 km² eða um 20% af grónu flatarmáli Íslands í misjafnlega góðu ástandi. Ætla má að um 50% þess hafi verið raskað með framræsingu og aðeins hluti framræsts lands sé í þannig nýtingu að landið þurfi að vera þurrt.

Votlendi við vindbelg í mývatnssveit. Mynd: Ágústa Helgadóttir

Á mörgum svæðum hefur dregið úr nýtingu framræsts lands og því kjörið að koma þeim aftur í sitt náttúrulega horf. Með endurheimt votlendis er leitast við að koma vatnsbúskap svæðis sem næst því sem áður var til að lífríkið færist til fyrra horfs og að jöfnuður gróðurhúsalofttegunda batni.

Frá árinu 2016 hefur Landgræðslan komið að endurheimt votlendis í samvinnu við ýmsa aðila á 16 svæðum sem ná yfir um 250 ha. Árið 2019 voru um 150 ha endurheimtir á sex svæðum. Á tveimur svæðum sá Landgræðslan alfarið um framkvæmdina. Árið 2020 voru endirheimtir um 130 ha og þar af um 100 ha samfellt svæði á Snæfellsnesi, stærsta samfellda svæðið sem endurheimt hefur verið á seinni árum.

Til að afla þekkingar á ferlum og virkni votlendisvistkerfa í fjölbreyttu ástandi og meta árangur endurheimtar hóf stofnunin vöktunarverkefni árið 2017 í samstarfi við Náttúrufræðistofnun, Landbúnaðarháskólann og Háskóla Íslands. Þá var lögð áhersla á að meta upphafsástand valdra raskaðra svæða sem voru endurheimt 2019. Settir voru upp fastir vöktunarreitir innan algengustu gróðursamfélaga svæðanna til að mæla breytingar í kjölfar endurheimtar.

Starfsstöðvar

Starfsfólk

Um okkur

Rafrænir reikningar

Skýrslur

Leiðbeiningar

Landupplýsingar

Landbótasjóður

Gæðastýring í sauðsfjárrækt

Bændur græða landið

Varnir gegn landbroti

Endurheimt votlendis

Hagagæði

GróLind

Lagaumhverfi

Auglýsingar

Aðalskrifstofa | Gunnarsholti | 851 Hella | Sími 488-3000 | Netfang land@land.is | Rafrænir reikningar | Kt: 710169-3659

Skip to content