Endurheimt votlendis – úthlutunarreglur
01.06.2016

Tilgangur
Endurheimt votlendis er verkefni á vegum Landgræðslu ríkisins. Markmið þess er að styðja við og hvetja til endurheimtar landrænna votlendisvistkerfa. Hlutverk Landgræðslunnar er að veita leiðbeiningar, ráðgjöf og styrki til framkvæmda með það megin markmið að koma vatnsbúskap svæðis sem næst fyrra horfi. Áhersla er lögð á að framkvæmdir stuðli að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda, lífríki svæðis eflist og að verkefnið hafi jákvæð samfélagsleg áhrif. Upphæð styrks getur numið áætluðum heildarkostaði við framkvæmd verkefna, þ.m.t. vinnu, tækjavinnu og kaup á aðföngum samkvæmt kostnaðarmati Landgræðslunnar. Þeir sem geta sótt um styrk eru m.a. sveitarfélög, landeigendur, félagasamtök og aðrar stofnanir.

Ábyrgð
Þau verkefni sem hljóta styrk verða í forsjá og á ábyrgð styrkþega og þeir teljast framkvæmdaaðilar. Landgræðslan veitir ráðgjöf og fjármagn til framkvæmda, gerir úttekt á aðstæðum fyrir endurheimt og hefur jafnframt eftirlit með framvindu verkefna og metur árangur þeirra.

Vakin er athygli á því að m.v. 5. gr. reglugerðar um framkvæmdarleyfi nr. 772/2012 getur endurheimt votlendis verið háð framkvæmdarleyfi viðkomandi sveitarfélags.

Umsóknir
Árlega verður auglýst eftir umsóknum um styrki til endurheimtar votlendis. Umsækjendur fylla út sérstakt umsóknareyðublað með. eftirfarandi upplýsingum:
◦Nafn og heimili umsækjanda
◦Kennitala og bankareikningur umsækjanda
◦Ábyrgðarmaður verkefnisins
◦Heiti verkefnis og staðsetning
◦Lýsing á verkefni;
• Markmið
• Aðgerðir
• Tímaáætlun
• Landnotkun, nú og fyrirhuguð
• Ef verkefni fellst í því að fylla í skurð skal tilgreina nákvæmlega lengd skurða, meðalbreidd og dýpt.
• Loftmynd þar sem fyrirhuguð framkvæmd er merkt inn sem og fyrirhugað áhrifasvæði
• Upplýsingar um hvort að fyrirhugað framkvæmdarsvæði sé á mörkum jarða eða hafi áhrif á aðliggjandi jarðir.
◦Upplýsingar um frekari framkvæmdir á svæðinu, séu þær fyrirhugaðar.
Styrkhæf verkefni
Styrkhæf eru öll verkefni sem miða að því að koma endurheimta votlendi sem með einhverjum hætti hafa tapast eða skerst, hvort sem er beint af mannavöldu, t.d. við framræslu eða af öðrum orsökum. Til að verkefni sé styrkhæft verða þó að vera raunhæfir möguleikar á að unnt sé með viðráðanlegum kostnaði að endurheimta hið tapaða votlendi.

Forgangsröðun verkefna
Við ákvörðun um styrkveitingar er einkum lögð áhersla á:
◦Hversu stórt hið endurheimta svæði verður miðað við umfang framkvæmdar.
◦Að verkefnið og verkáætlun sé raunhæf og líkleg til árangurs.
◦Að verkefnið sé markvisst og að endurheimt svæði verði samfellt.
◦Að skurðaruðningar séu til staðar sé fyrirhugað að fylla upp í skurði.
◦Jákvæð samfélagsleg áhrif.
◦Hafi ekki áhrif á land annarra nema fyrir liggi samþykki þeirra.
◦Að styrkþegi sé eigandi lands eða að samþykki landeiganda liggi fyrir.

Að framkvæmd lokinni þarf styrkþegi að skila inn skýrslu um verkefnið, fulltrúi Landgræðslunnar tekur þá verkið út og styrkur er síðan greiddur út standist verkefnið þær kröfur sem til þess eru gerðar.

Gerð umsókna
Við gerð umsókna er mikilvægt að vanda til verka. Einkum er mikilvægt að huga að eftirtöldum atriðum:
◦Að í umsókn komi fram allar nauðsynlegar og umbeðnar upplýsingar.
◦Að markmið verkefnis séu skýr.
◦Að aðgerðaráætlun sé greinargóð og nákvæm.
◦Að vandlega sé gert grein fyrir því landi sem vinna skal á.

Vinnsla umsókna
Landgræðslustjóri skipar nefnd sem fer yfir umsóknir og úthlutar styrkjum. Nefndin getur leitað umsagnar opinberra aðila telji hún þess þurfa, s.s. hlutaðeigandi sveitastjórna, Umhverfisstofnunar og Skipulagsstofnunar. Fulltrúi Landgræðslunnar skoðar öll svæði áður en ákvörðun um styrkveitingu er tekin. Öllum umsóknum verður svarað skriflega innan fjögurra vikna frá því umsóknarfrestur rann út.

Greiðsla styrks
Styrkur er greiddur þegar umsögn starfsmanns Landgræðslunnar um að verkinu sé lokið liggur fyrir. Í stærri, áfangaskiptum verkefnum er skv. nánara samkomulagi heimilt að greiða hluta styrks þegar einstökum áfanga eða áföngum er lokið með fullnægjandi hætti. Sé verkefni ekki unnið innan tilskilins tíma, styrks ekki vitjað fyrir árslok eða skilyrði fyrir veitingu styrks ekki uppfyllt, getur styrkveitingin fallið niður, að hluta eða öllu leyti. Hafi verkefni verið hafið en því ekki að fullu lokið á árinu, er heimilt að fresta lokagreiðslu til næsta árs hafi styrkþegi þá lokið verkefninu.