Úthlutun árið 2014. Umhverfisráðherra- og auðlindaráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, veitti landgræðsluverðlaunin 2014 við hátíðlega athöfn í félagsheimilinu Aratungu í Biskpustungum í dag. Verðlaunin eru árlega veitt einstaklingum, félagasamtökum og skólum sem unnið hafa að landgræðslu og landbótum.

Með þessari viðurkenningu vill Landgræðslan vekja athygli þjóðarinnar á fórnfúsu starfi fjölda þjóðfélagsþegna að landgræðslumálum og jafnframt hvetja aðra til dáða. Þetta var í 23. skipti sem Landgræðslan veitir landgræðsluverðlaun. Alls hafa 85 aðilar hlotið þessa viðurkenningu síðan árið 1992. Þess má geta að Landgræðslufélag Biskupstungna fagnar 20 ára starfsafmæli á þessu ári.

Eftirtaldir hlutu landgræðsluverðlaunin að þessu sinni: Eiríkur Jónsson í Gýgjarhólskoti, Þorfinnur Þórarinsson, Spóastöðum og Stóru-Vogaskóli í Vogum. Verðlaunagripirnir, Fjöregg Landgræðslunnar, eru unnir af Eik-listiðju, Miðhúsum á Fljótsdalshéraði.

Eiríkur Jónsson
Eiríkur Jónsson í Gýgjarhólskoti byrjaði snemma að vinna með föður sínum Jóni Karlssyni, sem hlaut landgræðsluverðlaunin árið 1995. Eiríkur hefur verið virkur þátttakandi í verkefninu Bændur græða landið frá árinu 1994. Rétt er að geta þess að jörðin var illa leikin af uppblæstri, þegar faðir hans tók við henni. Eiríkur hefur haldið upp merki föður síns við landgræðslustörfin í Gýgjarhólskoti. Hann hefur grætt upp mela og rofabörð með tilbúnum áburði og húsdýraáburði og gjörbreytt ásýnd og nýtingarmöguleikum jarðarinnar.

Eiríkur hefur einnig unnið þrekvirki við uppgræðslu á Biskupstungnaafrétti. Þar hefur hann farið fyrir sveit vaskra manna í Landgræðslufélagi Biskupstungna við að safna heyrúllum og flytja inn á afrétt, þar sem þær hafa verið notaðar til að græða upp rofabörð og moldarflög. Börn Eiríks og Arnheiðar, konu hans, hafa einnig tekið virkan þátt í landgræðslustarfinu. Arnheiður féll frá langt fyrir aldur fram. Hún starfaði að uppgræðslumálum af lífi og sál og var um tíma formaður Landgræðslufélags Biskupstungna.

Starf Eiríks og fjölskyldunnar í Gígjarhólskoti hefur sýnt að hægt er að stunda búskap í sátt við landið og skila því í betra ástandi til komandi kynslóða.

Þorfinnur Þórarinsson
Þorfinnur Þórarinsson á Spóastöðum hefur lengi unnið að ýmsum landgræðsluverkefnum í sinni sveit, bæði í byggð og á afrétti Biskupstungna. Þorfinnur var frumkvöðull að stofnun Landgræðslufélags Biskupstungna sem stofnað var þann 13. apríl 1994 og hefur lengst af verið formaður þess. Tilgangur félagsins hefur frá upphafi verið að vinna að ræktun lands og lýðs.

Meginmarkmið félagsins er að koma samfelldum nytjagróðri á undirlendi sveitarinnar og á Biskupstungnaafrétti þar sem gróðurskilyrði og aðstæður leyfa. Félagið hefur haft frumkvæði að ýmsum landgræðsluverkefnum sem unnin hafa verið á vegum Landgræðslunnar og forgangsraðað slíkum verkefnum í Biskupstungunum auk þess sem félagið hefur lagt áherslu á að framkvæmdir þeirra komi til viðbótar öðru landbótastarfi.

Landgræðslufélag Biskupstungna hefur virkjað unglinga til starfa og unnið að fræðslumálum. Það hefur staðið fyrir tveimur stórum ráðstefnum um landgræðslu og stuðlað að breiðri þátttöku heimamanna í landgræðslu- og fræðsluferðum. Það hefur einnig gefið út bækling um reiðleiðir á Kili til að stuðla að gróðurvernd. Félagið eignaðist með aðstoð góðra aðila, m.a. Pokasjóðs og Framleiðnisjóðs landbúnaðarins, fyrsta tækið til tæta niður heyrúllur og blása heyinu í rofabörð og er félagið brautryðjandi á því sviði.

Stóru-Vogaskóli
Stóru-Vogaskóli í Vogum er vel í sveit settur til umhverfiskennslu. Við húsvegginn er fjara og tjörn sem henta vel til slíkrar fræðslu. Í nágrenni skólans er mólendi, sums staðar með jarðvegssárum sem þörf er á að græða upp. Nemendur og kennarar hafa sinnt uppgræðslu nær samfellt í þrjá áratugi. Á vorin er einum kennsludegi varið til uppgræðslunnar. Þá er grasfræi sáð, áburði dreift og trjáplöntur gróðursettar. Áhugasamir einstaklingar hafa drifið þetta starf áfram.

Stóru-Vogaskóli er þátttakandi í Grænfánaverkefni Landverndar. Umhverfisnefnd starfar við skólann, skipuð nemendum í 5.-10. bekk ásamt nokkrum kennurum og starfsmönnum. Í umhverfisstefnu skólans segir m.a.: ,,Við græðum upp land og ræktum skóg”. „Nemendur í 1 – 4. bekk Stóru–Vogaskóla vinna við landgræðslu einn dag í lok skólaársins. Á sama tíma vinna 5.-7. bekkur að gróðursetningu trjáplantna frá Yrkju”.

Skólinn vill vera til fyrirmyndar í umhverfismálum. Rusl er flokkað, leitast er við að spara orku, bæta nýtingu matvæla og á vorin fara allir út og hreinsa rusl í þéttbýlinu í Vogum.

Svava Bogadóttir, skólastjóri, veitti verðlaununum viðtöku fyrir hönd skólans.