Landbótasjóður Landgræðslunnar – úthlutunarreglur

Tilgangur
Landbótasjóður Landgræðslunnar er óformlegur sjóður á vegum Landgræðslu ríkisins sem leggur honum til fé til úthlutunar, auk þess sem aðrir aðilar geta lagt sjóðnum til fjármuni. Landgræðsla ríkisins úthlutar árlega styrkjum úr sjóðnum, en tilgangur þeirra er að færa ábyrgð og framkvæmd landgræðsluverkefna heim í héruð og veita landeigendum, sveitarfélögum, félagasamtökum og öðrum umráðahöfum lands, styrki til landbótaverkefna. Upphæð styrks getur numið allt að 2/3 hluta kostnaðar við vinnu og kaup á aðföngum, en þó ekki meiru en sem nemur 10% þess fjár sem til úthlutunar er hverju sinni.

Ábyrgð
Þau verkefni sem styrkt eru verða undir forsjá og á ábyrgð styrkþega og þeir eru taldir framkvæmdaaðilar. Landgræðsla ríkisins veitir ráðgjöf og fjármagn til þessara verkefna og hefur jafnframt eftirlit með framvindu þeirra og metur árangur.

Umsóknir
Árlega skal auglýsa eftir umsóknum um styrki úr sjóðnum og skal í auglýsingunni m.a. tiltaka hvar hægt sé að sækja um, hvert eigi að senda umsóknir og hvenær umsóknarfrestur rennur út. Fylla skal vandlega út þar til gert umsóknareyðublað og umsóknum verða að að fylgja  eftirfarandi upplýsingar:

 • Nafn og heimili umsækjanda
 • Kennitala og bankareikningur umsækjanda
 • Ábyrgðarmaður verkefnisins
 • Netfang ábyrgðaraðila
 • Heiti verkefnis og staðsetning
 • Lýsing á verkefni; markmið, aðgerðir, tímaáætlun
 • Landbóta- og landnýtingaráætlun

Styrkhæf verkefni
Við ákvörðun um styrkveitingar er einkum lögð áhersla á:

 • Stöðvun hraðfara jarðvegsrofs og gróðureyðingar
 • Endurheimt gróðurs og jarðvegs.
 • Sjálfbæra landnýtingu

Forgangsröðun umsókna
Einstök verkefni geta hlotið styrk til allt að fimm ára, enda fylgi umsókn tímasett aðgerðaáætlun.

Við forgangsröðun umsókna er m.a. tekið mið af að eftirtöldum atriðum:

 1. Að markmið verkefnis sé skýrt og nákvæm grein gerð fyrir því landi sem vinna skal á.
 2. Að umsækjandi hafi unnið landbóta- og landnýtingaráætlun fyrir aðgerðarsvæðið.
 3. Að umsækjandi hafi áður hlotið styrk og unnið að sínum verkefnum í samræmi við umsókn.

Vinnsla umsókna
Verkefnisstjórn Landbótasjóðs fer yfir umsóknir og úthlutar styrkjum að fengnu samþykki landgræðslustjóra. Öllum umsóknum verður svarað skriflega innan sex vikna frá því umsóknarfrestur rann út.

Greiðsla styrks
Þeir styrkþegar sem þess óska, geta fengið helming styrks greiddan þegar staðfesting liggur fyrir um að verkefnið sé hafið. Eftirstöðvar eru greiddar þegar umsögn starfsmanns Landgræðslu ríkisins liggur fyrir um að verkinu, eða umsömdum áfanga, sé lokið. Ef styrks, sem veittur er á árinu er ekki vitjað, eða skilyrði fyrir veitingu hans ekki uppfyllt, fyrir tilskilinn tíma, getur styrkveitingin fallið niður að hluta eða öllu leyti.

Landgræðsla ríkisins
Gunnarsholti 28. nóvember 2016,
Garðar Þorfinnsson
verkefnisstjóri Landbótasjóðs.