Category

Fróðleikur

Asparskógurinn í Gunnarsholti

By | Fróðleikur | No Comments

Í þessari ritgerð Sæmundar Sveinssonar  og Ólafar Sæmundardóttur er gerð grein fyrir sögu skógræktar í Gunnarsholti, höfuðstöðvum Landgræðslu ríkisins. Sú saga hefst er birkifræi er sáð vorið 1939 í fyrsta landgræðsluskóginn á Íslandi. Hann hefur verið nefndur Gunnlaugsskógur eftir fyrsta sandgræðslustjóranum Gunnlaugi Kristmundssyni. Skógurinn hefur breiðst út eftir því sem hefting uppblásturs hefur miðað í nágrenninu. Greint er frá upphafi skjólbeltagerðar í Gunnarholti frá 1959 og annarri skógrækt á staðnum. Meginefni ritgerðarinnar fjallar um Asparreitinn í Gunnarsholti, tilurð hans og þýðingu fyrir umhverfisrannsóknir á Íslandi. Þar var fyrst plantað vorið 1990 um 145.000 aspargræðlingum öllum af sama klóninum. Margir aðilar komu að fyrsta rannsóknaverkefninu sem er stærsta alþjóðlega rannsóknaverkefnið í skógrækt hér á landi. Síðan fylgdu a.m.k. ein 10 önnur rannsóknaverkefni í kjölfarið og á milli 20 og 30 ritrýndar greinar hafa verið gefnar út um rannsóknirnar í Asparreitnum. Margar þeirra fjalla um rannsóknir á bindingu kolefnis í jarðvegi og gróðri. Smella hér til að sjá ritgerðina.

Gjóskulög og gamlar rústir

By | Fróðleikur | No Comments

Árið 1974 var þess minnst með ýmsu móti að ellefu aldir voru liðnar frá upphafi norrænnar byggðar á Íslandi. Raunar virðast fræðimenn alveg sammála um það eitt í þessu sambandi, að ekki hafi þessi byggð hafist árið 874, ef miða skal við búsetu Ingólfs Arnarsonar. Hér skakkar þó ekki svo miklu að máli skipti. Athyglisverðara var hversu lítið var í hátíðahöldum ársins minnst á þá sem námu hér land á undan norrænum mönnum. Enda þótt flestum fræðimönnum um þessi mál beri víst saman um það, að keltneskir munkar hafi hér aldrei fjölmennir verið og landnám þeirra í flestu tilliti litlu skipt fyrir hið norræna landnám, vekur það þó spurningar sem krefjast svars. Er sú eðlilegust, hvort ekki sé líklegt að þessir einsetumunkar hafi haft með sér húsdýr, og þá helst geitur og sauðfé, og þá einnig líklegt að eitthvað af þessum húsdýrum hafi sloppið úr vörslu munkanna og tímgast og fjölgað sem villifénaði í landinu áður en norrænir menn komu á vettvang. Æskilegt væri að geta svarað þessari spurningu afdráttarlaust játandi eða neitandi. Enn er þó ekki hægt að staðhæfa meira en það, að ekki hefur enn komið fram neitt, er bendi til þess að hér hafi verið fyrir villt sauðfé og/eða geitfé við upphaf norræns landnáms og þessi staðreynd bendir sterklega til þess, að það hafi a. m. k. ekki verið mikið um slíkan fénað. Hún bendir einnig til þess, að búseta keltneskra munka hérlendis hafi verið bæði fámenn og tiltölulega skammvinn. En þar með er ekki þvertekið fyrir að eitthvað hafi verið hér af fénaði er
norræn búseta hófst. Hugsanlegt er að frjógreining tengd gjóskulagarannsóknum geti gefið eitthvað ákveðnara svar um þetta.

Þetta er upphaf á grein eftir Sigurð Þórarinsson, jarðfræðing, sem birtist í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1976. Grein þessi er að mestu úr erindi sem flutt var í Vísindafélagi íslendinga 27. nóv. 1974. Sigurður Þórarinsson 1976

Hver á að gæta velferðar landsins?

By | Fróðleikur | No Comments

Miklar áskoranir bíða okkar í umhverfismálum heimsins og velferð okkar jarðarbúa er komin undir því hvernig til tekst með að leysa þær. Mest er talað um loftslagsbreytingar af manna völdum. Þær eru mál málanna í dag. Minna fer hins vegar fyrir umræðu um ástand lands í heiminum og þá staðreynd að jarðvegur og ástand vistkerfa ráða miklu um það hvort það tekst að sporna nægjanlega gegn hlýnum jarðar – og einnig hvort það takist að framleiða næg matvæli til að fullnægja þörfum okkar í framtíðinni. Við stöndum frammi fyrir mestu áskorun allra tíma.
Hnignun jarðvegs og gróðurs er ein mesta ógn jarðarbúa

Frjósamt land er undirstaða velferðar okkar. Framleiðsla á meira en 90% af fæðu manna og fóðri búfjár er komin undir hinum takmarkaða jarðvegsforða heimsins. Jarðvegur er því grundvöllur menningarsamfélags allra þjóða.

Mannkynssagan er hins vegar saga baráttu gegn eyðingu jarðvegs. Í þúsundir ára hafa skipst á ris og hrun menningarríkja. Sýnt hefur verið fram á að hnignun landkosta hefur orðið þeim flestum að falli.

Manninum hefur ekki verið gefið að lifa í sátt við náttúruna, hann hefur eytt skógum, ofbeitt jörðina og brotið of viðkvæmt land til ræktunar.
Hættumerkin blasa við. Fyrir nokkrum árum var talið að um fimm milljarðar tonna af jarðvegi glötuðust á ári hverju, eða um tonn á hvert mannsbarn í heiminum. Nú er hins vegar talið að jarðvegseyðingin sé í reynd miklu meiri og að minnsta kosti 20 milljarðar tonna af jarðvegi glatist á ári vegna rofs af mannavöldum. Þetta eru uggvænlegar tölur og spurningin um það hvort nóg verði til að borða verður æ áleitnari.

Þetta sagði Andrés Arnalds í upphafi erindis sem hann flutti í Skálholti og nefndi Hver á að gæta velferðar landsins?
Erindið var flutt á málþingi um umhverfismál – “Af jörðu ertu kominn…”  í Skálholti 10. nóvember 2015
Sjá erindið í heild

Gæðastýring í hrossarækt og landnýting. Sóknarfæri eða glatað tækifæri?

By | Fróðleikur | No Comments

Gæðakerfi við ýmiss konar framleiðslu hafa rutt sér til rúms á síðari árum. Tilgangurinn hefur fyrst og fremst verið að auka verðmæti, gæði og rekjanleika framleiðslunnar. Árið 2000 hófst gæðastýring í hrossarækt. Hún tekur á þáttum, sem lúta að áreiðanleika ætternis og uppruna hrossanna, velferð þeirra og verndun landgæða. Fyrsta stig vottunarinnar lýtur að ætt og uppruna og byggist á skýrsluhaldi, örmerkingu og DNA greiningu, annað stig er vottun á landnýtingu og lokastigið er góð fóðrun og umhirða. (Sjá „Gæðastýring í hrossarækt, ýmsar upplýsingar. BÍ-hrossaræktin 20. desember 2006)

Bjarni Marnonsson IMG_5536_vefur_Félag hrossabænda og Fagráð í hrossarækt áttu frumkvæði að gæðastýringu í hrossarækt og þátttaka í henni er valkvæð. Markmið landnýtingarþáttar gæðastýringarinnar eru þessi helst: Að tryggja sjálfbæra nýtingu beitarlands, að tryggja velferð hrossa og auka ábyrgð landeigenda sem vörslumanna lands.

Úttektir
Enginn opinber fjárhags- né félagslegur stuðningur er við þátttakendur í gæðakerfi hrossaræktarinnar. Þeir þurfa að kosta sjálfir úttektir vegna landnýtingarþáttarins á búum sínum og það er þeirra mál hvort og hvernig þeir geta markaðssett þátttöku sína í gæðakerfinu. Öll gæðakerfi kalla á eftirlit þar til bærra aðila og Landgræðslu ríkisins var falið að sjá um landnýtingarþáttinn, þ.e. að annast úttektir á ástandi beitarlands þátttakaenda. Úttektir fara fram á tímabilinu 15. ágúst til 15. nóvember. Loftmynd af beitarlandi er grunngagn við úttektir. Þar koma m.a. fram einstök beitarhólf og stærðir þeirra. Mat á ástandi lands er byggt á sjónmati og því gefnar ástandseinkunnir, svo sem lýst er í ritinu „Hrossahagar, aðferð til að meta ástand lands“. Úttektarreglurnar eru einfaldar og tiltölulega rúmar. Rof í gróðurþekju vegur þungt í matinu. Niðurstaða úttektar gildir fyrir yfirstandandi ár.

Ástandskönnun hrossahaga
800-IMG_0280Hrossabændur hafa oft legið undir ámæli fyrir ofnýtta haga og landníðslu. Sú umræða var áberandi á árunum milli 1990 og 2000 í kjölfar mikillar fjölgunar hrossa í landinu. Könnun á ástandi hrossahaga, sem gerð var sumrin 1995 og 1996, benti til þess að beitarástand á stórum svæðum væri óviðunandi hjá 254 aðilum. Þá voru gerðar athugasemdir við ástand og nýtingu lands í vörslu 522 aðila. Árið 1996 var hrossafjöldinn sá mesti sem verið hefur í landinu eða rúm 80 þúsund hross og hafði fjölgað um tæp 30 þúsund frá árinu 1980. Síðan hefur hrossum fækkað og samkvæmt þeim tölum sem fyrir liggja eru þau nú rúmlega 70 þúsund.

Sóknarfæri?
Þátttaka í landnýtingarþætti gæðastýringarinnar hefur verið nokkuð stöðug en ekki eins mikil og vænst var. Árið 2015 voru þátttökubúin 39 en voru flest 46 árið 2008. Ótvírætt hefur þetta samstarfsverkefni Félags hrossabænda og Landgræðslunnar aukið vitund þátttakenda um mikilvægi góðrar beitarstýringar, leitt til meiri hagkvæmni í rekstri og bætt ásýnd lands. Margir hrossabændur eru mjög læsir á land og meðvitaðir um hvernig landnýtingu verði best hagað til að viðhalda og bæta landheilsu og uppskera. En betur má ef duga skal. Víða um land blasa við ár hvert ofsetnir hrossahagar, sums staðar er land varanlega skemmt vegna ofnýtingar, annars staðar gæti bætt beitarstýring gjörbreytt ástandi lands til hins betra á 2-3 árum. Tekið skal fram að lauslegar athuganir Landgræðslunnar sýna, að á landsvísu hefur ofbeitartilfellum fækkað frá því hrossahagakönnunin var gerð, á árunum 1995 og 1996. Væntanlega er það fyrst og fremst að þakka bættri beitarstýringu og góðum grasárum.

Mikil umræða hefur verið um langt árabil meðal hrossabænda og hestafólks um hrossarækt, velferð sýningarhrossa, sýningar og dóma. Umræða um slæma meðferð hrossabænda á beitarlandi hefur hins vegar legið að mestu niðri frá því gæðastýringarkerfið komst á. Ekki má gleymast að meirihluti íslenska hrossastofnsins kemur aldrei á keppnisvöll og þjónar eigendum sínum á annan hátt. Hagsmunir þessa stóra hóps mega ekki týnast í togstreitu um lengd hófa, hófhlífar og nokkrar einkunnakommur, í sýningum og keppnum.

Tækifæri að glatast?
800pix-IMG_0148Frumkvæði Félags hrossabænda að bættri meðferð hrossahaga árið 2000 var á sínum tíma metnaðarfullt og búgreinin tók forystu meðal bænda í betri og ábyrgari meðferð lands. Þó margt hafi áunnist virðist sem hrossabændur séu að glata þessu tækifæri til að hefja búgreinina sem slíka til vistvænnar landnýtingar. Sá ágæti hópur hrossabænda, sem tekur þátt í landnýtingarþætti gæðastýringarinnar hefur ekki náð með fordæmi sínu að efla frumkvæði, metnað og landlæsi innan búgreinarinnar með þeim hætti að innganga í landnýtingarþáttinn þyki sjálfsögð meðal kollega þeirra.

Stjórn Félags hrossabænda hefur ávallt verið hliðholl þessu verkefni sínu en lítið gert því til framdráttar. Landgræðslan hefur einnig lítið kynnt landnýtingarþáttinn né hvatt hrossabændur til þátttöku í honum. Ekki þarf að efa að hrossabændur vilja hafa þessi mál í lagi og síst lenda aftur í sömu umræðu um slæma landnýtingu og á árunum 1990 til 2000.

Hvað er til ráða?
Oft þykir þægilegt að hafa hægt um sig og bíða þess sem að höndum ber. Slíkt er tæpast valkostur þegar kemur að meðferð lands og velferð heillar búgreinar. Umræða um umhverfismál og siðfræði landnýtingar er og verður til staðar. Reynslan sýnir að gott landlæsi landnotenda er undirstaða réttrar beitarstýringar og eftirsóknarvert er fyrir hrossabændur að fá viðurkenningu á að landnotkun þeirra sé með þeim hætti að ekki sé gengið á gæði landsins. Velferð hrossa og gott ástand beitarlands fer saman að öllu leyti.

Hrossabændur eru hvattir til þess að skoða hvort gæti hentað þeim að nota sér aðild að landnýtingarþætti gæðastýringarinnar. Mikilvægast er þó að allir landnotendur séu meðvitaðir um að beitarlönd þeirra eru auðlind. Auðlind, sem ber að umgangast af virðingu, tillitssemi og þekkingu. Það er góð búmennska, sem skilar búinu betri afkomu.

Héraðsfulltrúar Landgræðslunnar eru jafnan reiðubúnir að skoða beitarlönd þeirra landnotenda, sem þess óska og leiðbeina um landlæsi og meðferð lands.

Gæðastýring í hrossarækt.
Árið 2015 stóðust eftirtalin hrossabú úttektir vegna landnýtingar

Bjarni Maronsson,

héraðsfulltrúi Landgræðslu ríkisins

 

Komum öllum lífrænum úrgangi aftur út í næringarhringrás náttúrunnar

By | Fróðleikur | No Comments

Forðumst gjaldþrot Gleðibankans
Komum öllum lífrænum úrgangi aftur út í næringarhringrás náttúrunnar

Hringrásir eru eðli lífríkisins á jörðinni. Þar sem framvinda er í snauðum vistkerfum hleður hringrásin smám saman utan á sig og efnin í hringrásinni aukast. Þar með verður lífkerfið auðugra og öflugra. Lífverur taka upp næringarefnin, nýta þau og láta svo aftur frá sér í hringrásina handa öðrum lífverum. Þetta á við um lífverur af öllum toga, allt frá smæstu örverum til stærstu plantna og dýra. Mikilvægt er að við mennirnir virðum þessar hringrásir og komum þeim lífrænu efnum sem við höfum notað aftur út í hringrásina í stað þess að rjúfa hringrásina með urðun.

Seyra1cÍsland þarf næringu
Ísland er norðlægt land, sumarið stutt og við slíkar aðstæður tekur lengri tíma að byggja upp ríkulega næringarhringrás. Þegar landið byggðist fólki hafði náttúran haft frið í þúsundir ára frá lokum ísaldar til að byggja upp þær hringrásir sem fóstruðu birkiskóga á allt að þriðjungi landsins og jafnvel meira en það. Þar sem ekki voru birkiskógar eða birkikjarr var víða gróið land engu að síður.
Hinar hæggengu næringarhringrásir Íslands voru viðkvæmar fyrir því að tekin væri út úr þeim næring. Fljótlega eftir landnám varð staðan sú í vistkerfnum að meira var tekið út af næringarefnum en náttúran sjálf náði að byggja upp á móti. Nýting landsins varð ósjálfbær en næringarefnin úr vistkerfunum urðu að kjöti og innmat búpenings sem ekki skilaði sér aftur út í hringrásina með sama hætti og áður. Þjóðin þurfti að afla sér matar.

Urðun er óhæfa
Nú eru Íslendingar rík þjóð og búa við allsnægtir. Við þær aðstæður er ótækt að þjóðin skili ekki aftur inn í hringrásir lífkerfisins öllu því sem mögulegt er að skila. Urðun lífræns úrgangs er í hróplegri mótsögn við hringrásir náttúrunnar. Með urðun taka menn úr hringrásinni lífrænt efni sem á uppruna sinn í náttúrunni og koma í veg fyrir að það geti nýst aftur og aftur í kerfinu. Urðun slíkra verðmæta er athæfi sem verður að stöðva og ætti hvergi að líðast í þróuðu samfélagi. Við höfum þörf fyrir lífrænt efni í hringrásinni og það er beinlínis heimska að urða það. Hér er talað um lífrænan úrgang í víðri merkingu þess orðs, allt lífrænt efni sem hægt er að endurvinna og nýta til ræktunar. Í reglugerðum er hugtakið lífrænn úrgangur þó aðeins notað um lífbrjótanlegan matar- og eldhúsúrgang og garðaúrgang.

Brennum ekki verðmætum
Nú er rætt um förgun sláturúrgangs frá sláturhúsum landsins. Fyrirtæki þessi vilja koma sér upp brennsluofnum til að farga þeim sláturúrgangi sem skylt er samkvæmt Evrópureglum að eyða og gera hættulausan. Þetta er úrgangur af áhættuflokki eitt, skrokkhlutar með taugavef sem hætta er á að geti borið smit illvígra taugasjúkdóma. Að sjálfsögðu verður að fara að settum reglum. Hættan er þó sú að fyrirtækin freistist til að spara með því að setja í ofnana fleira en úrgang af áhættuflokki eitt. Með því færi forgörðum dýrmætt lífrænt efni sem ætti betur heima í eðlilegri hringrás næringarefnanna í náttúrunni, þar á meðal í uppgræðslu, skógrækt og á ræktarlöndum bænda. Endurvinnsla á dýraleifum er auðvitað líka liður í því að skapa ímynd hreinna og sjálfbærra framleiðsluhátta.
Úrgangsmálum á Íslandi hefur farið hratt fram á undanförnum árum og meðvitund þjóðarinnar um þessi efni fer batnandi. Lífrænur úrgangur lendir þó enn í sorphaugum, gerjast þar og losar út í andrúmsloftið metangas sem er tuttugu sinnum virkari gróðurhúsalofttegund en koltvísýringur. Tapið er því tvöfalt. Næringarefnin skila sér ekki í hringrásina og við stuðlum að hlýnun loftslags á jörðinni.

Seyra-2Lífrænt efni til landbóta
Jákvæð skref hafa þó verið tekin. Kjötmjölsverksmiðja Orkugerðarinnar í Hraungerði í Flóa framleiðir kjötmjöl sem reynst hefur frábærlega við landgræðslu og skógrækt. Molta ehf. í Eyjafirði framleiðir moltu sem sömuleiðis er fyrirtaks áburðarefni og jarðvegsbætir. Kostir bæði kjötmjöls og moltu eru ekki síst þeir að áburðaráhrifin endast mun lengur en af tilbúnum áburði. Seyra úr rotþróm reynist líka frábærlega við uppgræðslu eyðisanda eins og sýnt hefur verið fram á í Hrunamannahreppi. Hrunamenn hafa snúið dæminu við og farga engri seyru heldur græða með henni upp örfoka afréttarsvæði með frábærum árangri. Megnið af lífrænum úrgangi frá okkur mönnunum lendir samt enn í sjónum og fer því forgörðum.

Leggjum inn í áburðarbankann
Raunverulega má líta á það sem skyldu okkar að viðhalda hringrásum náttúrunnar. Ef við leggjum ekkert inn, tökum bara út, verður Gleðibankinn á endanum gjaldþrota. Með sameiginlegu átaki stjórnvalda, sveitarstjórna, fyrirtækja og almennings mætti koma öllum lífrænum úrgangi á Íslandi rétta leið í hringrásina að frátöldu því sem verður að eyða vegna smithættu. Samhliða þarf að þróa leiðir til að nýta úrganginn með hagkvæmum hætti til ræktunar og landbóta. Við búum við flókið og óskilvirkt regluverk sem þarf að skýra. Sömuleiðis hefur skort á samstarf og verkefnum ekki alltaf verið fylgt nægilega vel eftir.

Samráðshópur um lífrænan úrgang
Úrbóta er þörf. Þó er gaman að nefna að starfandi er samráðshópur um lífrænan úrgang. Upphaflega varð hópurinn til fyrir einskæran áhuga fólks sem tengdist úrgangs- og ræktunarmálum og fyrsta verkefni hópsins var að skipuleggja ráðstefnu um lífrænan úrgang sem haldin var í Gunnarsholti vorið 2015. Í samráðshópnum sitja fulltrúar nokkurra fyrirtækja á sviði úrgangsmála, sveitarfélaga og stofnana, meðal annars Skógræktar ríkisins og Landgræðslu ríkisins. Hópurinn berst fyrir framförum í þessum efnum og lokatakmarkið er að allur lífrænn úrgangur komist aftur út í hringrásina.

Fyrir hönd samráðshóps um lífrænan úrgang,
Magnús Jóhannsson, Landgræðslu ríkisins,
Pétur Halldórsson, Skógrækt ríkisins

Sumarbeit sauðfjár

By | Fróðleikur | No Comments

„Sauðfjárrækt á Íslandi er sérstæð að því leyti að tilkostnaður vegna langrar vetrarfóðrunar er hér meiri en gerist víðast hvar annars staðar í heiminum. Hraður vöxtur á hinum stuttu sumrum er beinlínis skilyrði þess að búin geti skilað góðum arði. Meiri kröfur eru líklega gerðar til vaxtarhraða lamba hér en í nokkru öðru landi og því skiptir miklu máli að beit sé hagað þannig að vaxtargeta lambanna sé nýtt til hins ítrasta.“ Þannig hljóðar upphaf á grein eftir Andrés Arnalds. Heiti greinarinnar er Sumarbeit sauðfjár og hún birtist í ársriti Ræktunarfélags Norðurlands árið 1986. Sauðfjárbændur og áhugamenn um sauðfjárrækt eru hvattir til að lesa greinina sem hefur staðist vel tímans tönn. Sjá greinina hér.

„Mestallar afurðir, og þar með tekjur, í sauðfjárræktinni myndast af beitargróðri. Hins vegar má ætla að skipan sumarbeitarinnar sé veikasti hlekkurinn í framleiðslukeðjunni hjá æði stórum hópi bænda. Ágæt vetrarfóðrun, sem almennt tíðkast, og góður árangur í kynbótum nýtist víða ekki sem skyldi vegna ónógra eða lélegra sumarhaga eða lítillar stjórnar á beit. Með úrbótum á því sviði gætu afurðir áa verði mun meiri en þær eru nú.

Afurðir og arðsemi sauðfjárræktar ákvarðast fyrst og fremst af frjósemi fjárins og fallþunga lamba. Fallþunginn ræðst mjög af magni og næringargildi þess gróuðrs sem féð nær að innbyrða yfir sumarið. Samspil þroskaferils plantna og rýmis í högum ráða e.t.v. mestu um vaxtarhraðann en unnt er að hafa veruleg áhrif á báða þessa þætti með skipulagi beitarinnar.

Umbætur í sumarfóðruninni, eins og kalla má beitina, eru ein vísasta leiðin til að auka arðsemi sauðfjárræktar hér á landi, rétt eins og í öðrum löndum. Of lítil áhersla hefur hins vegar verið lögð á skipulag sumarbeitarinnar. Í grein þessari er fjallað um hluta af hinum fræðilega grunni sem auknar afurðir verða að byggjast á. Fjallað er um samhengi gróðurgæða, átgetu, fóðurnýtingar og vaxtar og helstu þætti sem hafa áhrif á gæði gróðurs. Einnig er rætt um þau áhrif sem magn beitargróðurs hefur á át og vöxt og hinar miklu breytingar sem verða á fóðurgæðum, afurðum og beitaráhrifum frá vori til hausts. Að lokum er vikið að beitarhagfræði og beitarkerfum.“

Sjá greinina hér.

 

Ferðamenn á Þingvöllum

Umhverfisáhrif ferðaþjónustunnar

By | Fróðleikur | No Comments

“Ljóst er að gríðarleg vinna er framundan á landsvísu við uppbyggingu og viðhald ferðamannastaða, gönguleiða og ferðaleiða í víðari merkingu. Verkefnið er brýnt því umhverfisáhrif ört vaxandi ferðaþjónustu eu komin í flokk með alvarlegastu umhverfisvandamálum þjóðarinnar,” segir í inngangi skýrslu sem Andrés Arnalds skrifaði og ber heitið Umhverfisáhrif ferðaþjónustunnar. Myndræn hugleiðng um ástand lands og úrbætur.

“Athyglin beinist einkum að „fjölsóttum“ stöðum en vandinn er alvarlegur á landsvísu. Mikið er í húfi og efla þarf forvarnir, uppbyggingu og viðhald staða og leiða. Tryggja þarf að fagmennska og „menning“ sé með fullnægjandi hætti til að vinna að þessum málum.

Í þessari skýrslu er nokkrum þeim viðfangsefnum sem við blasa lýst með myndrænum hætti. Áhersla er hér á þann vanda sem við blasir og mistök sem gerð hafa verið. Slíkt reynist oft gott til að skerpa fókus á það sem betur má fara og undirstrika þörf fyrir uppbyggingu faglegrar þekkingar. Á sama hátt er hægt að læra af því sem vel er gert,” segir í inngangi. Sjá skýrsluna hér.

Beitarþol er löngu úrelt hugtak

By | Fróðleikur | One Comment

Það er talið fræðilega hægt að reikna út beitarþol á algrónu einsleitu landi í meðalárferði. Það er samt alls ekki hægt að reikna út beitarþol fyrir illa gróna afrétti og önnur röskuð beitilönd, þar sem uppblástur er til staðar, eins og raunin er á nær öllum afréttum á eldgosabelti landsins. Enn heyrast raddir um að Landgræðslunni beri að reikna út beitarþol einstakra eða jafnvel allra afrétta landsins. Vonandi kemur þó að því að sumir þeirra, sem fjalla um beit á síðum Bændablaðsins, kynni sér nútíma vistfræði er varða verndun og nýtingu beitilanda.

Upphaf beitarþolsrannsókna hér á landi
Upp úr miðri 20. öld hófust rannsóknir á vegum Atvinnudeildar Háskóla Íslands til að meta beitarþol. Hálendi landsins var gróðurkortlagt og útreikningar á beitarþoli miðuðust við fóðurgæði gróðurs og hversu mikið mætti fjarlægja með beit. Beitarþolstölur reyndust alltof háar enda byggðar á alltof fáum breytum íslenskrar náttúru. Beitarþolsrannsóknirnar á þessum tíma töfðu því umbætur í gróðurvernd. Aðferðir við útreikninga á beitarþoli voru síðar þróaðar hjá Rannsóknastofnun landbúnaðarins, RALA, á árunum 1965 til loka áttunda áratugar síðustu aldar. Þeir útreikningar byggðu á gróðurkortunum, sem sömu stofnanir stóðu að á þessum árum og tóku mið af stöðu þekkingar á þeim tíma. Gerð gróðurkortanna á þessum árum var mikið afrek.

Sveinn RunólfssonRitið Jarðvegsrof á Íslandi markaði tímamót
Veruleg vinna var lögð í að þróa aðferðir til að meta beitarþol á næstu tveim áratugum. Þá var reynt að taka tillit til fleiri þátta en eingöngu uppskerumælinga kortlagðra gróðursvæða og fóðurþarfa búfjárins. Útreikningar á beitarþoli, eins og þeir voru stundaðir til síðustu aldamóta, miðuðu því við mælda uppskeru og hversu mikið væri óhætt að taka af henni, þannig að ástand gróðurs á viðkomandi svæði viðhéldist eða batnaði, auk þess sem byggt var á áætlaðri orkuþörf við- komandi búfjártegundar.
Sammerkt var með öllum beitarþolsútreikningum á þessum tíma að niðurstöður beitarþols afrétta voru langt umfram þann búfjárfjölda sem á afréttunum gengu. Fræðin þróuðust áfram og árið 1997 náðist tímamótaáfangi þegar ritið Jarðvegsrof á Íslandi var gefið út. Þar er að finna heildstæða lýsingu á ástandi landsins með hliðsjón af jarðvegsrofi. Þær niðurstöður sem þar fengust leiddu til þess að RALA afturkallaði í samráði við landbúnaðarráðuneytið allar beitarþolstölur sem stofnunin hafði gefið út, með bréfi dagsettu 10. nóvember 1999. Síðan hefur beitarþol aldrei verið reiknað út fyrir beitilönd nema hvað meirihlutar ítölu-nefndar og yfirítölunefndar vegna Almenninga gerðu það með umdeilanlegum og afar ófaglegum hætti, sem leiddi til fráleitrar niðurstöðu.

Lítil beit skaðar gróður á illa grónu landi
Þeir sem fjalla um þessi málefni verða að hafa í huga að framleiðni gróðurlenda er afar breytileg eftir tíðarfari, árstíma og fleiri þáttum. Því miður eru aðstæður bænda afar misjafnar hvað varðar möguleika þeirra og vilja til að seinka upprekstri þegar grær seint á afréttum eins og á sl. sumri. Ekki er hægt að reikna beitarþol á landi sem er lítt gróið og þar sem er mikið rof eða umhverfisskilyrði eru að öðru leyti mjög takmarkandi, því lítil beit hefur þar mjög mikil áhrif til hins verra. Rannsóknir hafa sýnt að beit getur hægt á eða komið í veg fyrir sjálfgræðslu, sem er ákjósanleg leið til endurheimtar vistkerfa þar sem viðhlítandi aðstæður eru fyrir hendi.

Reglulegt eftirlit með ástandi raskaðra beitarlanda
Það er út í hött að reikna beitarþol á stórum og smáum gróðureyjum umluktum auðnum og landi með miklu jarðvegsrofi eins og á afréttum gosbeltisins, því þar gengur sauðfé ekki nema að litlu leyti. Sauðféð sækir í beit á nýgræðingi sem er að berjast við að nema land, í góðum árum, á örfoka landi. Á öðrum afréttum, sem oft eru vel grónir, verður að byggja á vöktun með vistfræðilegum nálgunum og miða við fyrirfram ákveðin viðmið og grípa inn í ef út af ber, það er miða við að landið sé í stöðugri framför og landnýting með sjálfbærum hætti. Á síðustu tveim áratugum hefur erlendis almennt verið horfið frá því að reikna beitarþol fyrir úthaga vegna þess hve breytilegt það er og háð aðstæðum hverju sinni.Okkar virtustu vísindamenn hafa á síðustu árum margoft bent á, að ákvörðun beitarþols er afar flókin vísindi og taka verður tillit til miklu fleiri vistfræðilegra þátta en gert var hér áður fyrr. Afar brýnt er að hafa í huga að úthagi þarf í flestum tilfellum að geta veitt fjölþætta vistkerfaþjónustu, auk beitarinnar, t.d. varðandi vatnsmiðlun, útivist, bindingu kolefnis og á eldfjallasvæðum gegnir öflugur hávaxinn gróður mikilvægu hlutverki við bindingu ösku. Enn heyrast þó háværar raddir um að Landgræðslunni beri að reikna beitarþol fyrir afrétti og önnur beitilönd, eins og t.d. á ráðstefnu Líffræðingafélagsins á sl. hausti.

Hvað hafa komandi kynslóðir gert?
Þegar horft er yfir gróðurtötra gosbeltisins og saga liðinna alda er höfð í huga er reyndar með ólíkindum hvað okkur hefur miðað hægt áfram í viðhorfum til gróðurverndar. Bændur hafa lyft Grettistaki í uppgræðslu en okkur gengur hægt að tileinka okkur raunverulega sjálfbæra landnýtingu. Örfáir einstaklingar innan bændastéttarinnar hafa sýnt skilningsleysi á mikilvægi þess að vernda landið. Þetta gera þeir í krafti gamalla – löngu úreltra – „hefða“. Þetta viðhorf getur hæglega eyðilagt ímynd bændastéttarinnar og um leið tilraunir hennar til að markaðssetja afurðir sínar undir merkjum sjálfbærrar landnýtingar. Okkur ber skylda til þess að komandi kynslóðir taki ekki við rústuðum vistkerfum. Gömul saga segir frá áströlskum landeiganda, sem var þekktur fyrir lítinn skilning á þessum málum. Eitt sinn var hann spurður hvort hann vildi ekki bæta sig og koma landinu í betri rækt. Karlinn hugsaði sig um og sagði svo: „Komandi kynslóðir? Hvað hafa þær gert fyrir mig?“

Notum ekki úreltar aðferðir!
Öll löggjöf hér á landi er lýtur að nýtingu lands til beitar er í molum og byggir á löngu úreltum fræðum þ.m.t. lög um ítölu. Ég vil líkja hugleiðingum manna er telja að unnt sé að reikna beitarþol illa farinna gróðurlenda við baráttuna við „vísindi“ þeirra sem héldu því fram fyrr á öldum að jörðin væri flöt. Kveðum niður beitarþolsdrauginn Eins og Cató hinn gamli predikaði um að leggja Karþagó í eyði fyrir um 2.000 árum, þá legg ég enn einu sinni áherslu á að gamli draugurinn um beitarþol verði kveðinn niður, í eitt skipti fyrir öll.

Sveinn Runólfsson,
landgræðslustjóri

Greinin birtist í Bændablaðinu 11. febrúar 2016

Gróður og eldgosavá. Forvarnargildi gróðurs gegn hamförum af völdum eldgosa og eldfjallagjósku.

By | Fróðleikur | No Comments

Íslensk þjóð býr í eldvirku landi og hefur náð að lifa við og lifa af margbreytileika íslenskrar náttúru. Náttúruvá eða skyndileg áföll, sem valda röskun á öllu samfélaginu valda oft miklu tjóni þar sem ekki gefst tími til aðlögunar að breyttum aðstæðum. Röskunin varir mun lengur en sjálfur atburðurinn og getur haft keðjuverkandi áhrif á samfélagið. Afleiðingar náttúruvár á samfélög stjórnast ekki einungis af henni sjálfri heldur líka af fólkinu sjálfu, menningu þess og aðstæðum hverju sinni. Aðlögunarhæfni ræður miklu um getu til að lifa af hörmungar. Þegar hægt er að sjá fyrir áföll eru þættir líkt og forsjálni, aðgætni og mótvægisaðgerðir mikilvægir til að lágmarka áhættu og draga úr neikvæðum afleiðingum hamfara. Þá þarf að horfa til langs tíma og taka mið af vistfræðilegum, hagrænum, menningarlegum og félagslegum þörfum núlifandi og komandi kynslóða. Mótvægisaðgerðir í anda sjálfbærni byggja á því að náttúruleg ferli og mannlegar athafnir tengjist og að lausn á hverju vandamáli sé hluti af heildrænni markmiðssetningu.

Eldgos eru tíð á Íslandi, og líkur eru á aukinni virkni í framtíðinni. Eldgos geta haft áhrif á loftslag og ferli í andrúmsloftinu, á vatnsbúskap og vistkerfi lands og sjávar. Afleiðingar þeirra felast í skaða á heilsu fólks og búfjár, auk skemmda á grónu landi og slæmum loftgæðum. Auk þessa valda þau efnahagslegu tjóni á eignum og atvinnustarfsemi, geta skaðað ýmis kerfi og innviði nútímasamfélags. Ekki er hægt að koma í veg fyrir eldgos en mótvægisaðgerðir sem auka viðnámþrótt vistkerfa geta lágmarkað tjón af völdum gjóskufalls.

Eldvirkni og váleg áhrif þeirra á gróður landsins eru algeng í umhverfissögu Íslands. Gjóskan geymdist í skjóli skóganna, en varðveittist ekki á gróðurlitlum bersvæðum. Þar fauk gjóskan um og olli frekari gróður- og jarðvegseyðingu. Gróskumikil vistkerfi með hávöxnum gróðri, líkt og skógi og kjarrlendi, þola betur áföll og draga úr neikvæðum afleiðingum gjóskufalls. Í fyrsta lagi er sá gróður líklegri til að lifa af gjóskufall. Í öðru lagi getur dregið úr langvinnum áhrifum öskustorma. Skjól gróðursins eykur hrjúfleika yfirborðs, og dregur úr afli vindsins til að valda rofi. Meiri vind þarf til að koma vindrofi af stað en þyrfti á bersvæði. Gróður styttir tímann til að ná bata og endurheimta virkni vistkerfa. Yfirborð verður fyrr stöðugt þar sem lífrænt efni fellur á yfirborðið, og virkni jarðvegsins samlagar gjóskuna við jarðveginn. Það er því brýnt langtímaverkefni að byggja aftur upp vistkerfi umhverfis stærstu eldstöðvakerfi landsins svo þau megni að sinna því hlutverki á ný
Með uppgræðsluaðgerðum má byggja upp gróskumikil vistkerfi, sem væru betur í stakk búin að mæta áföllum og gætu dregið verulega úr neikvæðum afleiðingum gjóskufalls og endurteknu foki. Slíkt er afar mikilvægt útfrá vistfræðilegum, efnahagslegum og heilsufarslegum ástæðum. Uppbygging vistkerfa landsins felur í sér fjölmarga aðra kosti fyrir samfélagið:, verndun náttúru, bætta vatnsmiðlun og aukna möguleika landnýtingar og sveigjanleika landbúnaðar.

Mikilvægt er að huga að margvíslegum þáttum: landnýtingu, skipulagi, byggðaþróun, og beitingu vísinda og tækni til að hægt sé að lágmarka skaða samfélagsins vegna eldgosa. Mikilvægt er að samræma þetta öðrum áætlunum, svo sem mótvægisaðgerðum gegn loftslagsbreytingum með kolefnisbindingu í gróðri og jarðvegi, áætlunum um endurheimt birkiskóga, endurheimtar – og verndaráætlunum um líffræðilegan fjölbreytileika, landgræðsluáætlunum og fleiri slíkum sóknaráætlunum byggðar og landbúnaðar. Nýta þarf slíkar mótvægisaðgerðir til að styðja við byggð í nágrenni okkar öflugustu eldfjalla.

Rit Landgræðslu ríkisins nr. 1
Gróður og eldgosavá. Forvarnargildi gróðurs gegn hamförum af völdum eldgosa og eldfjallagjósku.
Anna María Ágústsdóttir, ritstjóri

Textinn hér að ofan er ágrip en ritið í heild má nálgast hér.

 

Gunnlaugsskógur í Gunnarsholti

By | Fróðleikur | No Comments

Bændur í Skaftafelli í Öræfum gáfu Sandgræðslu Íslands nokkuð magn af birkifræi haustið 1938. Því var sáð vorið eftir við hraunbrún norðan við Gunnarsholt. Var það svæði síðar var nefnt Gunnlaugsskógur. Einnig var hluta þess sáð í landgræðslusvæði við Stóra Klofa í Landsveit, þar sem heitir Tjarnarlækur. Aftur kom fræsending frá bændum haustið 1944 og var því sáð norðar við fyrrnefnda hraunbrún og er til kvikmynd af þeirri sáningu.

Gunnlaugur sáði því vorið eftir í grastó við ógróna hraunbrún norðan við Gunnarsholtið þar sem landnámsbærinn stóð fram eftir öldum. Þar með var sáð í fyrsta landgræðsluskóginn á Íslandi. Óx þar upp birkikjarr sem sáði sér og nefnist nú Gunnlaugsskógur.

Sagan endurtók sig haustið 1944 og enn fékk Gunnlaugur fræ. Til er í Gunnarsholti 16 mm kvikmynd sem sýnir þegar Gunnlaugur er að sá birkifræinu í Gunnlaugsskóg og eins þegar hann er að flytja út plöntur úr sáningunni frá 1939. Á þessum árum var Jón Egilsson ábúandi í Gunnarsholti, síðar bóndi á Selalæk. Í dagbókum hans er greint frá því að hann fór árlega að planta út trjám úr þessum sáningum í nágrenni þessara fyrstu tveggja lunda.

Runólfur og Páll Sveinssynir, sandgræðslu- og landgræðslustjórar, plöntuðu á árunum 1948 – 1954 all nokkrum barrtrjátegundum í yngri birkilundinn og í hraunbrúnina í nágrenninu. Má þar nefna sitkagreni (Picea sitchensis), rauðgreni (Picea abies), skógarfuru (Pinus sylvestris), broddfuru (Pinus aristata), fjallafuru (Pinus mugo), einir (Juniperus communis) og fjallaþin (Abies lasiocarpa). Loðvíðir (Salix lanata) og gulvíðir (Salix phylicifolia) festu rætur neðan við hraunbrúnina og eins virðist birkið hafa sáð sér neðan brúnar á meðan landið þar var lítt gróið.

Það er hins vegar ekki fyrr en farið er að dreifa áburði og grasfræi á hraunið, með fjármagni frá Þjóðargjöfinni 1974-1978, að fræ úr skóginum nær að festa rætur í hrauninu. Síðan hefur skógurinn breiðst hratt út í þá átt sem land hafði verið undirbúið með uppgræðslu. Neðan hraunbrúnar er landið nú víðast algróið og nokkuð votlent. Þar nemur birkið ekki land. Fræ af íslenska víðinum hefur hins vegar fokið langt frá skóginum og nemur land í eldri uppgræðslusvæðum. Plöntur hafa fest rætur af fræi frá sitkagreni og furu. Þinurinn hefur aðeins breitt úr sér þegar neðstu greinar hans hafa skotið rótum.

Allnokkrar rannsóknir hafa farið fram í Gunnlaugsskógi þ.á.m. verkefni Dr. Ásu Aradóttur um landnám birkis, Berglindar Orradóttir um frostlyftingu o.fl.

Árið 1983 gaf Skógrækt ríkisins í tilefni af 75 ára afmæli stofnananna, Landgræðslu ríkisins, alls um 18.000 lerkitré (Larix sibirica) í mosabandi og 7.000 stafafurur (Pinus contorta) í bökkum. Nær öll lerkitrén drápust strax á fyrsta ári, en stafafururnar lifðu vel og vaxa þarna með ágætum.

Birki- og víðifræ berst frá skóginum inn á eldri landgræðslusvæði og skógurinn heldur því áfram að breiðast út á þeim svæðum sem friðuð eru fyrir beit.

Ítarefni:
Breytingar á þekju skóga norðan Næfurholts á Rangárvöllum 1987-2012.
Að lesa og lækna landið