Category

Fréttir

160 milljónir í átak í landvörslu í sumar

By | Fréttir | No Comments

15.5.2017 / Ríkisstjórnin hefur ákveðið að tillögu umhverfis- og auðlindaráðherra að ráðast í átak í landvörslu í sumar. Verður 160 milljónum veitt aukalega til landvörslu á stöðum í náttúru Íslands sem fjölsóttir eru af ferðamönnum. Um er að ræða 70% aukningu landvarðavikna sem ráðið er í til skemmri tíma. Þetta kemur fram á heimasíðu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.

Aukin landvarsla og umsjón með viðkvæmum svæðum er að mati ráðuneytisins ein skilvirkasta leiðin til að vernda náttúru Íslands nú þegar stefnir í metár í heimsókn ferðamanna til landsins. Viðvera landvarða er einnig öryggismál og er ekki síst mikilvæg á þeim svæðum sem enn vantar upp á að innviðir séu fullnægjandi.

Umhverfisstofnun og Vatnajökulsþjóðgarður munu hafa umsjón með verkefninu sem beinist m.a. að lengingu viðveru landvarða nú í vor og haust í samræmi við lengingu ferðamannatímabilsins.

Hekla

Vistkerfi og öskufall

By | Fréttir | No Comments

8.5.2017 / Út er komin lokaskýrsla verkefnisins „GróGos – Mat á hættu á síðkominni dreifingu gosefna“. Það er hluti af heildarhættumati vegna eldgosa á Íslandi (GOSVÁ). Verkefnið er styrkt af Ofanflóðasjóði.  Verkefninu var ætlað að þróa aðferðir til að meta getu vistkerfa til að standast öskufall og hindra flutning ösku á síðari stigum. Fyrirliggjandi gögn og vettvangsrannsóknir voru nýtt til að þróa flokkunarkerfi þar sem svæðum í nágrenni Heklu var gefin einkunn sem spáir fyrir um hversu þolin vistkerfin séu gagnvart öskufalli og hversu líkleg þau séu til að hindra frekari öskudreifingu.

Þessa aðferðafræði má nýta til að meta þol lands á eldvirkum svæðum gagnvart öskufalli og öskudreifningu, draga fram helstu áhættusvæði og leggja mat á hvar er mikilvægt að styrkja gróður eða hefja landgræðsluaðgerðir, sem forvörn gagnvart öskufalli. Sjá skýrsluna.

Flokkun svæða í nágrenni Heklu með tilliti til þess hversu viðkvæm þau eru fyrir öskufalli. Rauð svæði eru viðkvæmust en græn svæði þolnust.

 

Vefnámskeið – Landgræðsla til sjálfbærrar þróunar með aðkomu viðskiptalífsins

By | Fréttir | No Comments

7.5.2017 / Landgræðsluskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna hefur, ásamt samstarfsaðilum, þróað netnámskeið um þau tækifæri sem landgræðsla skapar til að stuðla að sjálfbærri þróun. Námskeiðið nefnist Landscape Restoration for Sustainable Development: a Business Approach.

Það gefur heildstæða þekkingu á landhnignun og landgræðslu bæði út frá sjónarhóli náttúruvísinda annars vegar og viðskipta- og atvinnulífs hins vegar. Í námskeiðinu er útskýrt hvernig landgræðsla bætir landgæði og frjósemi lands sem skilar sér í fjárhagslegum og samfélagslegum ávinningi og styður þannig við afkomu og velferð einstaklinga og samfélaga. Námskeiðið er sérstaklega sniðið að nemendum og sérfræðingum í viðskiptum og stjórnun en er í boði fyrir alla sem hafa áhuga á að viðhalda og endurheimta landgæði.

Námskeiðið er svokallað MOOC-námskeið (Massive Open Online Course) sem fer alfarið fram á netinu og er opið öllum án endurgjalds. Það er því hægt að ná til mikils fjölda fólks í einu og gefa breiðum hópi einstaklinga tækifæri til að mennta sig óháð staðsetningu og efnahag. Jafnframt skapar þessi gerð námskeiða sóknarfæri til að vekja athygli á aðkallandi málefnum samtímans.

MOOC-námskeiðið er þróað í samstarfi ENABLE verkefnisins sem styrkt er af Erasmus+ menntaáætlun Evrópusambandsins. Auk Landgræðsluskólans eru það Rotterdam School of Management, Commonland, Estoril Conferences og Spanish National Research Council sem standa að ENABLE verkefninu. Við þróun og gerð námskeiðsins átti Landgræðsluskólinn einnig mjög gott samstarf við sérfræðinga Landbúnaðarháskóla Íslands og Landgræðslu ríkisins, sem miðla í námskeiðinu af þekkingu sem þessar stofnanir búa yfir.

MOOC-námskeiðið er aðgengilegt á vef Coursera.org þar sem hægt er að skrá sig í námskeiðið.

Öxlum ábyrgð – Hvað get ég gert? Málþing um ábyrga ferðamennsku

By | Fréttir | No Comments

30.4.2017 / Ferðafélag Íslands, í tilefni af 90 ára afmæli sínu, og Landgræðslan boða til málþings um hlutverk útivistarfélaga og ferðaþjónustunnar í að vernda og tryggja aðgengi að náttúrunni. Málþingið verður haldið fimmtudaginn 4. maí kl. 15-17 í sal Ferðafélags Ísland, Mörkinni 6.

Náttúra Íslands er hornsteinn vaxandi útivistar og ferðaþjónustu. Álag á land er víða orðið mikið og umkvartanir heyrast frá landeigendum vegna ágangs og álags. En geta markmið verndar og nýtingar farið saman? Hvernig er unnt að efla starf almennings og hinna fjölmörgu hagsmunaaðila að verndun þessarar auðlindar. Á hvaða stigi er landlæsi þeirra sem fara um landið eða vinna að úrbótum til að draga úr álagsskemmdum? Er skýrari stefnumörkunar og verklagsreglna þörf til að tryggja að mannanna verk falli betur að náttúrunni og landslagsheildum. Hver á að vera talsmaður landsins?

Helen Lawless er aðgengis- og verndunarfulltrúi Mountaineering Ireland. Í starfi sínu hefur hún náð miklum árangri í að bæta samskipti landeigenda og göngufólks. Helen flytur erindi á málþinginu. Erindið nefnir hún Helping the Hills – Raising conservation awarness.

Helen hefur stuðlað að því með eldmóði sínum að nú starfa umhverfisnefndir í öllum ferðafélögum sem heyra undir samtökin. Helen hefur einnig verið leiðandi í að móta sýn og koma á stefnumótun og móta sýn um framtíð lands sem notað er til útivistar. Ljóst er að Helen Lawless hefur af mörgu að miðla sem á erindi til okkar í umræðu hlutverk útivistarfólk og almennings í að tryggja verndun og aðgengi að þeirri náttúruauðlind sem er okkur svo kær.

Nýjar greinar komnar út í Icelandic Agricultural Sciences

By | Fréttir | No Comments

19.4.2017 / Þrjár fyrstu greinarnar í hefti 30/2017 af alþjóðlega vísindaritinu Icelandic Agricultural Sciences voru að koma út. Þessar þrjár mjög áhugaverðu greinar fjalla um ólík efni og hægt er að nálgast ritið með því að smella hér.   Fyrsta greinin nefnist á íslensku „Ástæður bjögunar, erfðaframför og breytingar á erfðafylgni fyrir kjötmat og ómmælingar í íslenska sauðfjárstofninum“ og er eftir Jón Hjalta Jónsson og Ágúst Sigurðsson.
Grein númer tvö í ritinu nefnist „Yfirlit um byggkynbætur og yrkjatilraunir á Íslandi 1987-2014“ eftir Hrannar Smára Hilmarsson, Magnus Göransson, Morten Lillemo, Þórdísi Önnu Kristjánsdóttur, Jónatan Hermannsson og Jón Hallsteinn Hallsson.
Grein númer þrjú í ritinu nefnist „Stofn gæsamatar (Arabidopsis thaliana) frá Íslandi greindur með aðferðum frumuerfðafræði og raðgreiningu erfðamengis“ eftir Terezie Mandáková, Hjört Þorbjörnsson, Rahul Pisupati, Ilka Reichardt, Martin A. Lysak og Kesara Anamthawat-Jónsson.

…………………..
Ástæður bjögunar, erfðaframför og breytingar á erfðafylgni fyrir kjötmat og ómmælingar í íslenska sauðfjárstofninum eftir Jón Hjalta Jónsson og Ágúst Sigurðsson.

Höfundar könnuðu hvort kynbótamat fyrir kjötmatseiginleika hjá íslensku sauðfé væri bjagað vegna vals á grundvelli dóma á lifandi lömbum. Einnig að athuguðu þeir áhrif úrvals á erfðafylgni fitu og gerðar sláturlamba og erfðaframfarir í stofninum. Erfðastuðlar voru metnir með gögnum fyrir árin 2000-2013 frá Bændasamtökum Íslands aðskilið fyrir mismunandi tímabil. Niðurstöður kynbótamats með tvíbreytugreiningu á kjötmatseiginleikum voru bornar saman við kynbótamat einnig keyrt með ómmælinganiðurstöður. Erfðafylgni var metin 0,41 árin 2001-2003 en 0,29 og 0,26 fyrir 2006-2008 og 2011-2013. Kynbótamat fyrir gerð reyndist bjagað hjá hrútum sem mikið er sett á undan í tvíbreytugreiningunni en engin merki svipfarsvals sáust gagnvart fitunni. Erfðaframfarir voru metnar -0,05 staðalfrávik erfða á ári fyrir fitu og 0,08 staðalfrávik erfða á ári fyrir gerð.
Höfundar komast að þeirri niðurstöðu að fjölbreytu kynbótamat og minnkandi erfðafylgni geti stuðlað að enn meiri ræktunarframförum til framtíðar. Þetta eru því afar áhugaverðar niðurstöður fyrir alla þá sem stunda rannsóknir á kynbótamati sauðfjár og koma niðurstöðum til ræktenda.
…………………………………..
Yfirlit um byggkynbætur og yrkjatilraunir á Íslandi 1987-2014  eftir Hrannar Smára Hilmarsson, Magnus Göransson, Morten Lillemo, Þórdísi Önnu Kristjánsdóttur, Jónatan Hermannsson og Jón Hallsteinn Hallsson.

Höfundar ráðast í það mikla verk að gefa yfirlit yfir kynbætur á byggi og yrkjatilraunir sem gerðar voru hérlendis á 28 ára tímabili, frá 1987 til 2014. Samanburðartilraunir fóru fram á 40 stöðum á landinu á tímabilinu, en tilraunastöðunum fækkaði og arfgerðum í hverri tilraun fjölgaði að jafnaði eftir því sem leið á tímabilið. Þetta er fyrsta samantekt á því mikla tilraunastafi sem unnið hefur verið á þessum 28 árum. Ein athyglisverðasta niðurstaða greinarinnar er að uppskera í íslensku tilraunum jókst á sama tíma og ræktunartímabilið styttist eftir sem leið á rannsóknatímann. Þetta getur bæði stafað af góðum árangri íslenska kynbótastarfsins og breyttum veðurfarsaðstæðum. Þá skiluðu íslensku kynbótalínurnar ekki aðeins meiri uppskeru í tilraunum eftir sem á leið heldur þroskuðust þær einnig fyrr.

Ræktun byggs á jaðri heimskautasvæða eins og Íslandi er á mörkum þess mögulega, sem endurspeglast meðal annars í stuttri ræktunarsögu byggs hérlendis. Mikilvægi byggræktunar hefur aukist undanfarin ár fyrir íslenskan landbúnað, sem meðal annars hefur verið skýrt sem afleiðing prófana á erlendum byggyrkjum og ekki síður kynbóta á íslenskum yrkjum fyrir íslenskar aðstæður, en einnig vegna batnandi umhverfisskilyrða. Niðurstöðurnar sem kynntar eru hér gefa gott yfirlit yfir sögu kynbótaverkefnisins og eru því mikilvægar áframhaldandi byggyrkjatilraunum fyrir íslenskan landbúnað og geta einnig nýst öðrum sambærilegum verkefnum á jaðarsvæðum í heiminum.

…………………………………..

Stofn gæsamatar (Arabidopsis thaliana) frá Íslandi greindur með aðferðum frumuerfðafræði og raðgreiningu erfðamengis eftir Terezie Mandáková, Hjört Þorbjörnsson, Rahul Pisupati, Ilka Reichardt, Martin A. Lysak og Kesara Anamthawat-Jónsson.

Það er ekki á hverjum degi sem ný plöntutegund finnst á Íslandi, en hér greina höfundar einmitt frá því. Latneska heitið á plöntunni er Arabidopsis thaliana og fékk hún íslenska heitið gæsamatur. Þessi nýja tegund fannst í maí 2015 á jarðhitasvæði við Deildartunguhver á Vesturlandi. Þurrkuðum plöntum var komið fyrir í plöntusafni AMNH og sýnum var safnað fyrir litningagreiningu og raðgreiningu erfðamengis. Nú vill svo til að fjöldi greininga er til víðsvegar frá í heiminum á erfðaefni gæsamatar, þannig að hægt var að rekja skyldleika íslensku plantnanna. Raðgreining sýndi mestan skyldleika við sýni frá Svíþjóð, en þó með lágum skyldleikastuðli. Því er niðurstaðan sú að þótt íslenski gæsamaturinn sé skyldari stofnum frá Skandinavíu en stofnum annars staðar frá, hefur hann upphaflega ekki borist frá neinum af þeim stofnum sem fyrirfinnast í safni 1001 erfðamengja gæsamatar víðsvegar að úr heiminum. Nú hafa sýni frá Íslandi bæst í safnið og þó okkur flestum þyki skemmtilegast að vita um nýja plöntutegund á Íslandi þá eru sérfræðingar erlendis sennilega enn spenntari fyrir raðgreiningunni rannsókn höfunda á skyldleika íslensku plantnanna við gæsamat annars staðar í heiminum.

Opið hús í Sagnagarði á sumardaginn fyrsta

By | Fréttir | No Comments

18.4.2007 / Á sumardaginn fyrsta verður opið hús frá kl. 13 – 17 í Sagnagarði í Gunnarsholti.

Markmið Landgræðslunnar eru verndun gróðurs og jarðvegs og bætt landgæði. En hvernig verður þessum markmiðum náð?

Árni Bragason, landgræðslustjóri, flytur stutta fyrirlestra um ofangreint í Sagnagarði kl. 14 og aftur kl. 16 á sumardaginn fyrsta, 20. apríl.

Allir velkomnir. Kaffi á könnunni!

Kort sem sýnir leiðina í Sagnagarð

Landgræðslan óskar eftir að ráða verkefnisstjóra og héraðsfulltrúa

By | Fréttir | No Comments

4.4.2017 / Landgræðsla ríkisins óskar eftir að ráða verkefnisstjóra með starfsstöð í Gunnarsholti til að stýra nýju umfangsmiklu verkefni um mat og vöktun á gróðurauðlindum landsins. Einnig leitar Landgræðslan eftir héraðsfulltrúa en aðalstarfssvæði hans verður á Suðurlandi.

Verkefnisstjóri – mat á gróðurauðlindum

Landgræðsla ríkisins óskar eftir verkefnisstjóra með starfsstöð í Gunnarsholti til að stýra nýju umfangsmiklu verkefni um mat og vöktun á gróðurauðlindum landsins. Markmið verkefnisins er tvíþætt. Annars vegar að skila með reglubundnum hætti heildarmati á ástandi gróður- og jarðvegsauðlinda landsins og gera grein fyrir breytingum þar á. Hins vegar að þróa sjálfbærnivísa fyrir nýtingu gróður- og jarðvegsauðlinda landsins. Nánari upplýsingar um verkefnið má finna í samkomulagi Atvinnuvega- og nýsköpunarráðaneytisins, Landgræðslu ríkisins, Bændasamtaka Íslands og Landssamtaka sauðfjárbænda, sjá nánar á vef Landgræðslunnar .

Í starfinu felst þróunarvinna, verkstjórn, skipulag, framkvæmd og samskipti við vísindamenn og hagsmunaaðila. Verkefnisstjóri mun, ásamt teymi innan Landgræðslunnar, bera ábyrgð á framgangi verkefnisins. Verkefnið er unnið í nánu samstarfi við faghóp sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur skipað.

Menntun og hæfni
• Frumkvæði og sjálfstæði í vinnubrögðum, færni í teymisvinnu, aðlögunarhæfni og hæfni í mannlegum samskiptum.
• Góð þekking og reynsla af verkefnastjórnun.
• Meistaragráða á sviði umhverfismála og/eða náttúruvísinda.
• Þekking á landupplýsingakerfum er kostur.
• Reynsla af vinnu við mælingar á gróðri er kostur.
• Æskilegt er að umsækjandi hafi reynslu af mati á landgæðum og þekki til beitarmála.
• Góð kunnátta í íslensku og ensku.

Um er að ræða 100% stöðu sem hentar bæði konum og körlum.
Laun eru skv. kjarasamningi ríkisins og viðkomandi stéttarfélags.
Nánari upplýsingar um starfið veita Sigurbjörg B. Ólafsdóttir starfsmannastjóri (sigurbjorg@land.is) og Árni Bragason landgræðslustjóri (arni.bragason@land.is) í síma 488 3000.

Sjá auglýsinguna í heild á Starfatorgi en þar er jafnframt hægt að fylla út umsóknareyðublað. Ferilskrá og afrit af prófskírteini skal fylgja. Einnig má senda umsókn til Landgræðslu ríkisins, Gunnarsholti, 851 Hella.

Æskilegt er að umsækjandi geti hafið störf sem fyrst. Öllum umsóknum verður svarað þegar ráðning liggur fyrir.
Umsóknarfrestur er til og með 27. apríl 2017.

………………………………………………………………………………………………………………………………………..

Héraðsfulltrúi á Suðurlandi

Landgræðsla ríkisins óskar eftir að ráða héraðsfulltrúa með aðalstarfssvæði á Suðurlandi með starfsstöð í Gunnarsholti. Héraðsfulltrúi þarf að hafa sveigjanleika og vera tilbúinn til að taka þátt í þróun starfsins og breytingum sem kunna að verða á starfinu og vinnustaðnum.

Starfs- og ábyrgðarsvið
• Öflun upplýsinga, ráðgjöf og eftirlit með verkefnum í Bændur græða landið, Landbótasjóði og öðrum landgræðsluverkefnum.
• Áætlanagerð og umsjón landgræðsluverkefna á starfssvæðinu.
• Vöktun á ástandi gróðurs og jarðvegs og fylgjast með að lögum um landgræðslu sé framfylgt.
• Aðstoð við gerð beitar- og uppgræðsluáætlana fyrir einstakar bújarðir og stærri svæði.
• Skráning landgræðsluaðgerða og eftirlit með árangri þeirra.
• Fræðsla og ráðgjöf til sveitarstjórna, landnotenda, skóla og almennings.
• Önnur verkefni.

Menntun og hæfni
• Krafist er BSc-prófs í náttúruvísindum, t.d. landnýtingu, búvísindum eða umhverfisfræðum.
• Skipulagshæfni, sveigjanleiki og hæfni í mannlegum samskiptum.
• Almenn þekking eða reynsla af landbúnaði.
• Góð kunnátta í notkun tölvu og upplýsingatækni og góð íslensku- og enskukunnátta, skilyrði.
• Þekking og reynsla af landgræðslustarfi, kostur.
• Þekking og reynsla af notkun landupplýsingakerfa, kostur.

Um er að ræða 100% stöðu, starfinu geta fylgt talsverð ferðalög, megin starfssvæðið er Suðurland. Starfið hentar bæði konum og körlum. Æskilegt er að starfsmaður geti hafið störf 1. júní 2017.
Umsóknarfrestur er til og með 27. apríl 2017.

Sjá auglýsinguna í heild á Starfatorgi en þar er jafnframt hægt að fylla út umsóknareyðublað.

Nýr hópur í Landgræðsluskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna

By | Fréttir | No Comments

28.3.2017 / Um miðjan mars hóf nýr hópur nám í árlegu 6-mánaða námi í landgræðslu og sjálfbærri landnýtingu við Landgræðsluskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna. Að Landgræðsluskólanum standa Landbúnaðarháskóli Íslands, Landgræðsla ríkisins, utanríkisráðuneytið og Háskóli Sameinuðu þjóðanna.

Hópurinn í ár er sá stærsti frá upphafi og aldrei hafa nemendur komið frá jafn mörgum löndum en alls eru þetta 14 manns frá átta löndum. Að þessu sinni koma nemarnir frá Eþíópíu, Ghana, Lesótó, Malaví, Mongólíu, Níger, Úganda og Úsbekistan. Mestur hluti kennslunnar fer fram í húsakynnum Landbúnaðarháskóla Íslands á Keldnaholti en nemarnir dvelja einnig drjúgan hluta sumarsins í höfuðstöðvum Landgræðslu ríkisins í Gunnarsholti á Rangárvöllum.

Nemar Landgræðsluskólans koma frá  þróunarlöndum sem standa frammi fyrir landeyðingu og eyðimerkurmyndun. Þau eru öll starfsmenn samstarfsstofnana Landgræðsluskólans í heimalöndum sínum þar sem þau vinna að landgræðslu, umhverfisstjórnun og/eða sjálfbærri landnýtingu. Samstarfsstofnanir Landgræðsluskólans eru einkum ráðuneyti, umhverfisstofnanir og héraðsstjórnir, en einnig háskólar og aðrar rannsóknarstofnanir. Náminu líkur með kynningu á rannsóknarverkefnum sem nemarnir vinna að á meðan þeir dvelja hér á landi. Sex mánaða námið er fjármagnað af utanríkisráðuneytinu og er hluti af þróunarsamvinnu Íslands sem er ein grunnstoðin í utanríkisstefnu Íslands.

Auglýst eftir umsóknum um styrki til endurheimtar votlendis

By | Fréttir | No Comments

23.3.2017 / Landgræðsla ríkisins fer með umsjón framkvæmdar endurheimtar votlendis í samræmi við sóknaráætlun Íslands í loftlagsmálum. Markmið er að styðja við og hvetja til endurheimtar landrænna votlendisvistkerfa. Hlutverk Landgræðslunnar er að veita leiðbeiningar, ráðgjöf og styrki til framkvæmda með það megin markmið að koma vatnsbúskap svæðis sem næst fyrra horfi.

Landgræðslan auglýsir nú eftir umsóknum um styrki til endurheimtar votlendis. Við ákvörðum um styrkveitingu er einkum lögð áhersla á að framkvæmdir stuðli að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda, lífríki svæðis eflis og að verkefnið hafi jákvæð samfélagsleg áhrif. Umsóknarfrestur er til 30. apríl.

Veittur er styrkur fyrir kostnaði við vinnu, tækjavinnu og efniskaup vegna verkefnisins samkvæmt mati Landgræðslu ríkisins. Þeir sem geta sótt um styrk eru m.a. sveitarfélög, landeigendur, félagasamtök og aðrar stofnanir.

Verkefni sem hljóta styrk verða í forsjá og á ábyrgð styrkþega og þeir teljast framkvæmdaaðilar. Landgræðslan veitir ráðgjöf og fjármagn til framkvæmda, gerir úttekt á aðstæðum fyrir endurheimt og hefur jafnframt eftirlit með framvindu verkefna og metur árangur þeirra.

Á sumum svæðum hefur dregið úr nýtingu lands sem hefur verið framræst. Þessum svæðum er kjörið að koma aftur í sitt náttúrulega horf. Með endurheimt votlendis er leitast við að koma vatnsbúskap svæðis sem næst því sem áður var. Í kjölfarið má svo gera ráð fyrir að lífríki færist til fyrra horfs og að jöfnuður gróðurhúsalofttegunda verði jákvæður. Endurheimt votlendis getur aukið útivistargildi svæða, t.d. aukið möguleika til fuglaskoðunar og bætt skilyrði til veiða. Mjög misjafnt er þó hversu vel svæði henta til endurheimtar. Í sumum tilvikum er torsótt að koma vatnsbúskap í fyrra horf.

Smella hér til að sjá síðu um endurheimt votlendis. Á síðunni er líka hægt að nálgast umsóknareyðublað.
Smella hér til að sjá úthlutunarreglur

Áætlun um mat á gróðurauðlindum

By | Fréttir | No Comments

14.3.2017 / Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Bændasamtök Íslands, Landgræðsla ríkisins og Landssamtök sauðfjárbænda, hafa gert með sér samkomulag til 10 ára um um mat á gróðurauðlindum. Markmið verkefnisins er tvíþætt. Annars vegar að skila með reglubundnum hætti heildarmati á ástandi gróður- og jarðvegsauðlinda landsins og gera grein fyrir breytingum þar á. Hins vegar að þróa sjálfbærnivísa fyrir nýtingu gróður- og jarðvegsauðlinda landsins. Skrifað var undir samninginn í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu í dag.

Góð þekking á auðlindinni þarf að vera til staðar
Til að tryggja sjálfbæra nýtingu gróðurauðlinda landsins er nauðsynlegt að koma á heildstæðu ferli um vöktun gróðurs og jarðvegs á Íslandi.  Áþekkt fyrirkomulag hefur verið gert við sjávarauðlindir með góðum árangri.

Frá undirrituninni í dag. F.v. Formaður faghópsins er Oddný Steina Valsdóttir; varaformaður Landssamtaka sauðfjárbænda, Árni Bragason, landgræðslustjóri, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Sigurður Eyþórsson, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands.

Hér er búið að skrifa undir samninginn. F.v.Oddný Steina Valsdóttir, varaformaður Landssamtaka sauðfjárbænda, Árni Bragason, landgræðslustjóri, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Sigurður Eyþórsson, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands.

Núverandi búvörusamningur gerir ráð fyrir að ráðist sé í verkefni sem innifelur slíkt símat á ástandi gróðurauðlindarinnar. Landbúnaður byggir á nýtingu lands til beitar og akuryrkju og slíkar upplýsingar eru því þeirri atvinnugrein afar mikilvægar. Jafnframt þurfa stjórnvöld á reglulegum upplýsingum að halda  um t.d. kolefnisforða í jarðvegi og gróðri vegna alþjóðlegra skuldbindinga, sem og áhrif annarrar nýtilkominnar landnýtingar á jarðveg og gróður, samanber gríðarlega aukningu erlendra ferðamanna á undanförnum árum.

Umsjón verkefnisins í höndum Landgræðslunnar
Landgræðslunni er falin umsjón verkefnisins, en samkvæmt lögum um stofnunina ber henni að: „hafa gát á meðferð á gróðri landsins og vinna gegn því, að hann eyðist fyrir ofnotkun eða aðra óskynsamlega meðferð“. Landgræðsla ríkisins hefur nú þegar nauðsynlega innviði til þess að hafa umsjón með slíkri vöktun. Stofnunin rekur héraðssetur í öllum landshlutum, hefur hæft starfsfólk sem sinnir eftirliti með ástandi gróðurs og jarðvegs og rekur vöktunarkerfi þar sem fylgst er með kolefnisbúskap og gróðurauðlindum á landgræðslusvæðum.

Landgræðslan mun ráða verkefnisstjóra sem mun vinna í nánu samstarfi við sérfræðinga stofnunarinnar og faghóp verkefnisins.

Formaður faghópsins er Oddný Steina Valsdóttir, varaformaður Landssamtaka sauðfjárbænda. Aðrir í hópnum eru: Borgar Páll Bragason, fagstjóri í nytjaplöntum RML, Jóhannes Sveinbjörnsson, dósent LbhÍ, Ingibjörg Svala Jónsdóttir, prófessor HÍ og Borgþór Magnússon, plöntuvistfræðingur Náttúrufræðistofnun Íslands.

Alls verður varið 35,5 milljónum króna til verksins á yfirstandandi ári.

Til frekari glöggvunar á samkomulaginu eru hér birt tvö viðhengi:
Viðhengi I
Viðhengi II