Category

Fréttir

Vísindasamfélagið sameinast um stofnun Auðnu

By | Fréttir | No Comments

6.2.2017 / Allir háskólar landsins ásamt opinberum rannsóknastofnunum og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, stóðu þann 27. janúar að stofnun „Auðnu“ – undirbúningsfélags um stofnun sameiginlegrar tækniyfirfærsluskrifstofu– eða tækniveitu – fyrir Ísland. Stefnt er að stofnun tækniveitunnar í byrjun árs 2018. Erlendar og innlendar úttektir á nýsköpunarumhverfinu hérlendis hafa bent á skort á tækniyfirfærslu (technology transfer) úr háskólum og rannsóknastofnunum sem veikan hlekk í nýsköpunarkeðjunni. Tækniveitunni er ætlað að vera brú á milli rannsókna og nýsköpunar sem  kemur verðmætum ávöxtum vísinda og þekkingar áleiðis til samfélagsins. Tækniveitan mun leggja faglegt mat á uppfinningar vísindamanna, sinna hugverkavernd og hugverkastjórnun og fylgja verkefnum  eftir í hendur fjárfesta, frumkvöðla og atvinnulífsins innanlands sem erlendis. Sameiginleg tækniveita fyrir Ísland getur gegnt mikilvægu hlutverki í að virkja betur vísindin, styrkja nýsköpun, efla atvinnulíf og þar með samkeppnishæfni þjóðarinnar.

Á meðfylgjandi mynd frá stofnfundi Auðnu má sjá fulltrúa margra þeirra stofnana sem koma að undirbúningsfélaginu; Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík, Landspítala háskólasjúkrahúss, Háskólans á Akureyri, Landbúnaðarháskóla Íslands, Háskólans á Bifröst Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, Matís, Hafrannsóknastofnunar, Landgræðslu ríkisins, Vísindagarða HÍ og atvinnuvega-og nýsköpunarráðuneytisins. Á myndina vantar fulltrúa Listaháskóla Íslands og Háskólans á Hólum.  Framkvæmdastjóri Auðnu er Einar Mäntylä.

Lífrænn úrgangur til landgræðslu – Tækifæri

By | Fréttir | No Comments

1.2.2017 / Nýlega kom út skýrslan Lífrænn úrgangur til landgræðslu – Tækifæri. Lífrænn úrgangur hefur verið notaður til uppgræðslu víða um land þar sem það hefur þótt henta m.t.t. kostnaðar og umhverfislegra þátta. En almennt má segja að lífrænn úrgangur hafi ekki verið notaður á markvissan hátt nema af bændum sem nota húsdýraáburð á tún og önnur ræktarlönd.
Lífrænn úrgangur er ekki besti áburður sem völ er á hvað varðar styrk næringarefna eða kostnaðar við nýtingu, en er mikilvægur efniviður sem ætti að nýta miklu meira til uppgræðslu og landbóta en gert er. Í skýrslunni er lögð áhersla á þau tækifæri sem felast í nýtingu lífræns úrgangs bæði sem efnivið til landgræðslu en einnig sem umhverfisvæna aðgerð til að minnka mengun og sóun verðmæta.  Í nefndinni voru Anne Bau (formaður), Garðar Þorfinnsson, Magnús H. Jóhannsson og Sigþrúður Jónsdóttir.

Smella hér til að sjá skýrsluna.

Héraðsfulltrúi óskast til starfa

By | Fréttir | No Comments

4.1.2017 / Landgræðsla ríkisins óskar eftir að ráða héraðsfulltrúa með aðalstarfssvæði í Eyjafjarðar- og Þingeyjarsýslum með aðsetur á Húsavík. Hann þarf að hafa sveigjanleika og vera tilbúinn til að taka þátt í þróun starfsins og breytingum sem kunna að verða á starfinu og vinnustaðnum. Landgræðsla ríkisins er þekkingar- og þjónustustofnun. Markmið hennar eru verndun gróðurs og jarðvegs og bætt landgæði. Stofnunin starfar samkvæmt lögum um landgræðslu nr. 17/1965 og lögum um varnir gegn landbroti nr. 91/2002.

Starfs- og ábyrgðarsvið
• Öflun upplýsinga, ráðgjöf og eftirlit með verkefnum í Bændur græða landið, Landbótasjóði og öðrum landgræðsluverkefnum.
• Áætlanagerð og umsjón landgræðsluverkefna á starfssvæðinu.
• Vöktun á ástandi gróðurs og jarðvegs og fylgjast með að lögum um landgræðslu sé framfylgt.
• Aðstoð við gerð beitar- og uppgræðsluáætlana fyrir einstakar bújarðir og stærri svæði.
• Skráning landgræðsluaðgerða og eftirlit með árangri þeirra.
• Fræðsla og ráðgjöf til sveitarstjórna, landnotenda, skóla og almennings.
• Önnur verkefni

Menntun og hæfni
• Krafist er BSc-prófs í náttúruvísindum, t.d. landnýtingu, beitarfræðum eða umhverfisfræðum
• Almenn þekking eða reynsla af landbúnaði
• Skipulagshæfni, sveigjanleiki og góð samstarfshæfni
• Góð kunnátta í notkun tölvu og upplýsingatækni og góð íslenskukunnátta, skilyrði
• Þekking og reynsla af landgræðslustarfi, kostur
• Þekking og reynsla af notkun landupplýsingakerfa, kostur

Um er að ræða 100% stöðu, starfinu geta fylgt talsverð ferðalög, megin starfssvæðið er Norðurland. Stafið hentar bæði konum og körlum. Æskilegt er að starfsmaður geti hafið störf 1. apríl 2017.

Laun er skv. kjarasamningi ríkisins og FÍN félags náttúrufræðina. Nánari upplýsingar um starfið veita Árni Bragason arni.bragason@land.is, Daði Lange Friðriksson dadi@land.is og Sigurbjörg B. Ólafsdóttir sigurbjorg@land.is.

Umsókn skal fylla út og senda rafrænt. Smella hér. Ferilskrá og afrit af prófskírteini skal fylgja. Einnig má senda umsókn til Landgræðslu ríkisins, Gunnarsholti, 851 Hella.
Öllum umsóknum verður svarað þegar ráðning liggur fyrir.

Umsóknarfrestur er til og með 31. janúar 2017.

Starf sviðsstjóra Landverndarsviðs

By | Fréttir | No Comments

4.1.2017 / Landgræðsla ríkisins óskar eftir að ráða sviðsstjóra Landverndarsviðs. Starfsstöð sviðsstjóra er í Gunnarsholti. Landgræðsla ríkisins er þekkingar- og þjónustustofnun. Markmið hennar eru verndun gróðurs og jarðvegs og bætt landgæði. Stofnunin starfar samkvæmt lögum um landgræðslu nr. 17/1965 og lögum um varnir gegn landbroti nr. 91/2002. Stofnunin hefur höfuðstöðvar í Gunnarsholti en er auk þess með starfsstöðvar á Egilsstöðum, Húsavík, Sauðárkróki, Hvanneyri og í Reykjavík.

Meginhlutverk Landverndarsviðs, sem er annað af meginsviðum stofnunarinnar, er jarðvegs- og gróðurvernd og uppbygging vistkerfa m.a. með því að stuðla að sjálfbærri nýtingu þeirra. Starfræksla héraðssetra, gerð og eftirfylgni landgræðslu- og héraðsáætlana, landgræðsluframkvæmdir, eftirlit með landnýtingu, umsjón með vörnum gegn landbroti og umsjón með styrkveitingum og árangri landbótaverkefna. Starfsmenn Landverndarsviðs eru 23 sem starfa víða um land.

Starfs- og ábyrgðarsvið sviðsstjóra
• Yfirmaður Landverndarsviðs.
• Situr í yfirstjórn stofnunarinnar.
• Ber ábyrð á gerð fjárhagsáætlunar Landverndarsviðs í samvinnu við fjármálastjóra og sér til þess að henni sé framfylgt.
• Er ábyrgur fyrir viðamiklum verkefnum og þáttum í starfi stofnunarinnar s.s. bændur græða landið, Landbótasjóði, gæðastýringu í sauðfjár- og hrossarækt, fræframleiðslu o.fl.
• Vinnur að umsögnum stofnunarinnar vegna þingmála, skipulagsmála og mats á umhverfisáhrifum.

Menntun og hæfni
• Háskólamenntun sem nýtist í starfi.
• Skipulagshæfni, sveigjanleiki og góð samstarfshæfni.
• Reynsla af stjórnun.
• Góð kunnátta í íslensku og ensku.
• Gott landlæsi og sýn á að vinna með náttúrunni.
• Þekking og reynsla af landgræðslustarfi.

Um er að ræða 100% stöðu sem hentar bæði konum og körlum.

Starfsmaðurinn þarf að hafa sveigjanleika og vera tilbúinn til að taka þátt í þróun starfsemi Landgræðslunnar. Endurskoðun landgræðslulaga er í undirbúningi. Starfinu fylgja talsverð ferðalög. Laun eru skv. kjarasamningi ríkisins og viðkomandi stéttarfélags.

Nánari upplýsingar um starfið veita Sigurbjörg B. Ólafsdóttir starfsmannastjóri (sigurbjorg@land.is) og Árni Bragason landgræðslustjóri (arni.bragason@land.is).

Umsókn skal fylla út og senda rafrænt. Smella hér. Ferilskrá og afrit af prófskírteini skal fylgja. Einnig má senda umsókn til Landgræðslu ríkisins, Gunnarsholti, 851 Hella.
Æskilegt er að umsækjandi geti hafið störf sem fyrst. Öllum umsóknum verður svarað þegar ráðning liggur fyrir.
Umsóknarfrestur er til og með 25. janúar 2017.

Höfðingleg gjöf til Landgræðslunnar

By | Fréttir | No Comments

2.1.2017 / Á liðnu ári lést Ragnar Haraldsson, sjómaður. Í erfðaskrá sinni ánafnaði hann Landgræðslu ríkisins umtalsverðri fjárhæð eða um 15 milljónum króna. Ragnar útskrifaðist frá Bændaskólanum á Hvanneyri en var sjómaður lengst af og starfaði hjá Eimskipafélaginu til sjötugs. Ragnar var einhleypur og barnlaus. Fram kom í útfararræðu að Ragnar hafi verið hörkuduglegur sjómaður, sterkur og ósérhlífinn. Undir lok ævi sinnar bjó hann á Hrafnistu í Reykjavík.

ragnarRagnar Haraldsson fæddist og ólst upp á Þorvaldsstöðum í Skeggjastaðahreppi í Norður-Múlasýslu árið 1926. Hann var sonur hjónanna Haraldar Guðmundssonar og Þórunnar Bjargar Þórarinsdóttur. Ragnar var sjöundi af fjórtán börnum.

Í erfðaskrá kemur fram að Ragnar skipti eigum sínum jafnt á milli á milli Slysavarnarskóla sjómanna, Barnaspítalasjóðs Hringsins og Landgræðslu ríkisins. Greinilega vakti fyrir honum öryggi sjómanna, velferð barna og lands.

„Ég vil fyrir hönd Landgræðslu ríkisins þakka þann góða hug sem fylgdi gjöfinni til stofnunarinnar. Verkefni Landgræðslunnar eru mörg og mikilvæg og við munum nota þennan arf í verk sem sannarlega skila sér til komandi kynslóða. Ljóst er að það var vilji Ragnars,“  sagði Árni Bragason, landgræðslustjóri.

Meðfylgjandi mynd var tekin þegar Haraldur, bróðir Ragnars, kom í Gunnarsholt laust fyrir áramót ásamt lögmönnunum Kristjáni Stefánssyni og Jóni Bjarna Kristjánssyni, til að greina frá arfinum. F.v. Jón Bjarni Kristjánsson, Haraldur Haraldsson og Kristján Stefánsson.

Meðfylgjandi mynd var tekin þegar Haraldur, bróðir Ragnars, kom í Gunnarsholt laust fyrir áramót ásamt lögmönnunum Kristjáni Stefánssyni og Jóni Bjarna Kristjánssyni, til að greina frá arfinum. F.v. Jón Bjarni Kristjánsson, Haraldur Haraldsson og Kristján Stefánsson.

Auglýst eftir umsóknum um styrki vegna landbrots

By | Fréttir | No Comments

15.12.2016 / Landgræðsla ríkisins hefur það hlutverk skv. lögum um varnir gegn landbroti að draga úr eða koma í veg fyrir landbrot og annað tjón á landi, landkostum eða mannvirkjum með Vörnum gegn landbroti af völdum fallvatna. Landgræðslan auglýsir nú eftir umsóknum um styrki til varna gegn landbroti.

Aðgerðir til að hefta landbrot af völdum vatnsfalla eru fólgnar í gerð bakkavarna og í sumum tilfellum byggingu varnargarða. Með bakkavörnum er átt við að grjót- og/eða malarfylling er sett við árbakkann til þess að stöðva landbrot. Bakkavarnir hafa oft á tíðum minni áhrif á rennsli áa og eru minna áberandi í umhverfinu en varnargarðar. Varnargarðar geta á hinn bóginn verið nauðsynlegir þar sem ár bera undir sig framburð og flæmast út fyrir farvegi sína.

Aðkallandi verkefni eru við vatnsföll víða um land auk þess sem sinnt er viðhaldi eldri varnargarða. Ekki er unnt að sinna nema hluta þeirra beiðna sem berast árlega um aðgerðir. Við forgangsröðun verkefna er lögð áhersla á varnaraðgerðir þar sem ræktuðu landi, byggingum eða öðrum mannvirkjum stafar hætta af ágangi vatna. Einnig verður við forgangsröðun umsókna höfð hliðsjón af verðmæti þess lands eða mannvirkja sem landbrotið ógnar.

Umsóknarfrestur er 31. janúar n.k.
Smelltu hér til komast á síðu með umsóknareyðublaði
Smelltu hér til að komast á síðu Varna gegn landbroti

Hrossarækt: Fjörutíu bú stóðust úttekt vegna vistvænnar landnýtingar

By | Fréttir | No Comments

14.12.16 / Einn af mörgum þáttum í starfi Landgræðslu ríkisins er eftirlit með landnýtingu hrossabænda. Kerfisbundið eftirlit er þó einungis á þeim hrossabúum, sem eru virk í landnýtingarþætti gæðastýringar í hrossarækt.

Árið 2016 hlutu 40 jarðir, þar sem stunduð er hrossarækt, viðurkenningar vegna vistvænnar landnýtingar. Skipting búa eftir sýslum er eftirfarandi: Skagafjarðarsýsla 11, Rangárvallasýsla 6, Eyjafjarðarsýsla 5, Árnessýsla 4, Austur-Húnavatnssýsla 4, Vestur-Húnavatnssýsla 4, Mýrasýsla 2, Borgarfjarðarsýsla 3 og Snæfellsnessýsla 1.

Á síðu gæðastýringar í hrossarækt er hægt að sjá nöfn þeirra búa sem stóðust úttekt vegna landnýtingar 2016. Smellið hér til að komast á síðuna.

Lokafundur ERMOND verkefnisins

By | Fréttir | No Comments

12.12.2016 / Verkefnið ERMOND hófst í byrjun árs 2014 og lýkur nú um áramótin. Markmið þess er að stuðla að því að endurheimt vistkerfa sé í auknum mæli beitt til þess að draga úr náttúruvá. Verkefnið er styrkt af formennskuáætlun Íslands í Norðurlandaráði, auk tveggja annarra sjóða sem heyra undir Norðurlandaráð. Þátttakendur í verkefninu koma frá öllum Norðurlöndunum og Færeyjum. Verkefninu er stýrt af Landgræðslu ríkisins.

Frá fundinum í Kaupmannahöfn.

Frá fundinum í Kaupmannahöfn.

Lokafundur verkefnisins var haldinn í Kaupmannahöfn dagana 23.-24. nóvember. Þrír starfsmenn Landgræðslunnar sóttu fundinn. Þetta voru þau Anna María Ágústsdóttir, Kristín Svavarsdóttir og Guðmundur Halldórsson. Auk þess sóttu fundinn níu aðrir þátttakendur í verkefninu.

Aðaltilgangur fundarins var að vinna að yfirlitsgrein þar sem meginniðurstöður verkefnisins eru dregnar saman. Fyrir lágu voru fyrstu drög að henni sem tekin voru saman af Önnu Maríu Ágústsdóttur, Anne Tolvanen og Guðmundi Halldórssyni. Að almennum umræðum loknum skiptust fundarmenn í hópa sem unnu að mismunandi þáttum greinarinnar. Þeirri vinnu lauk um hádegi síðari fundardag og þá var staða handrits tekin saman og næstu skref ákveðin.

Að þessu loknu fór Guðmundur yfir stöðu verkefnis og þær afurðir sem fyrirhugaðar eru. Ljóst er að öllum meginmarkmiðum verkefnisins verður náð og hafa tímaáætlanir staðist að mestu. Auk yfirlitsgreinarinnar verða teknar saman greinar með niðurstöðum frá einstökum þáttum verkefnisins og skýrslur til þeirra sjóða sem styrktu verkefnið.

Sjá heimasíðu Ermond

Landgræðsluverðlaunin veitt í 26. skipti

By | Fréttir | No Comments

1.12.2016 / Í dag voru Landgræðsluverðlaunin 2016 afhent í Sagnagarði í Gunnarsholti. Þetta var í 26. sinn sem Landgræðsla ríkisins veitir þessi verðlaun. Landgræðsluverðlaunin eru veitt árlega einstaklingum og félagasamtökum sem hafa unnið að landgræðslu og landbótum. Með veitingu landgræðsluverðlaunanna vill Landgræðslan vekja athygli á mikilvægu starfi margra áhugamanna að landgræðslumálum. Verðlaunahafar að þessu sinni voru annars vegar hjónin Ingimundur Sigfússon og Valgerður Valsdóttir og hins vegar Landgræðslufélag Hrunamanna. Verðlaunagripirnir, Fjöregg Landgræðslunnar, eru unnir af Eik-listiðju, Miðhúsum á Fljótsdalshéraði. Sigríður Auður Arnardóttir, ráðuneytisstjóri í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu afhenti verðlaunin fyrir hönd umhverfis- og auðlindaráðherra. Í ræðu sinni sagði Sigríður Auður meðal annars: “Landgræðsluverðlaunin eru bæði viðurkenning fyrir frábært starf í þágu landgræðslu og einnig hvatning til að halda áfram á sömu braut. Verðlaunin hafa líka hvetjandi áhrif á okkur öll og þau vekja athygli á viðfangsefninu landgræðslu og mikilvægi hennar í landinu.” Á myndinni hér fyrir ofan má sjá verðlaunahafana ásamt Sigríði Auði Arnardóttur, ráðuneytisstjóra, og Árna Bragasyni, landgræðslustjóra. Sjá fleiri myndir á Facebook-síðu Landgræðslunnar.

Bjarni Maronsson héraðsráðunautur les kynningu á verkum Ingimundar og Valgerðar.

Bjarni Maronsson héraðsfulltrúi les kynningu á verkum Ingimundar og Valgerðar.

Ingimundur Sigfússon og Valgerður Valsdóttir
Hjónin Ingimundur Sigfússon og Valgerður Valsdóttir og fjölskylda þeirra, hafa um langt árabil stundað stórfellda uppgræðslu á jörðum sínum, Sigríðarstöðum í Vestur-Húnavatnssýslu og Þingeyrum í Austur-Húnavatnssýslu. Þessar jarðir liggja að sjó og á þeim eru stærstu sjávarsandar í Húnavatnssýslum. Sigríðarstaðir fóru í eyði vegna ágangs sands árið 1942 og árið 1958 var girt þar landgræðslugirðing og mestur hluti jarðarinnar gerður að landgræðslusvæði. Á yngri árum vann Ingimundur við að rækta stórt tún á örfoka og sandi orpnu landi á Sigríðarstöðum og þar hafa þau hjón staðið fyrir melgresis-, lúpínu og túnvingulssáningum og stundað trjárækt.

Á Þingeyrum hafa þau á sama hátt grætt upp stór landsvæði og unnið að skógrækt og munu uppgræðslusvæði á þessum tveimur jörðum vera vel á annað þúsund hektarar, misjafnlega langt á veg komin.

Nú í haust áttu þau frumkvæði að endurheimt votlendis á um 30 hekturum í landi Þingeyra. Þeim er mjög umhugað um fjölbreytt fuglalíf og er endurheimt votlendis m.a. liður í að bæta búsvæði fugla. Á Þingeyrum hafa þau einnig lagt áherslu á að jörðin væri nytjuð til búskapar með sjálfbærum hætti og staðið fyrir merkum rannsóknum á sögu og menningu þessa forna höfuðbóls.

Sigþrúður Jónsdóttir héraðsráðunautur les kynningu á verkum Landgræðslufélags Hrunamanna.

Sigþrúður Jónsdóttir héraðsfulltrúi les kynningu á verkum Landgræðslufélags Hrunamanna.

Landgræðslufélag Hrunamanna
Starfssvæði Landgræðslufélags Hrunamanna er Hrunamannaafréttur. Félagið var stofnað í upphafi árs 2008. Segja má að félagið hafi sprottið af áhuga manna á landbótum á afréttinum sem hafði staðið yfir um árabil. Þar komu við sögu sveitarfélagið, Kiwanisklúbburinn og sauðfjárbændur. Saga landgræðslu Hrunamanna er því mun eldri en landgræðslufélagið sjálft, en Landgræðslufélag Hrunamanna sameinaði þessa krafta.

Árið 1970 girti Landgræðslan af svæði fremst á afréttinum, rétt ofan Gullfoss og hefur síðan verið unnið þar að landgræðslu. Mikið rof var á þessu svæði, landið víða örfoka og stakar gróðurtorfur voru að blása upp.

Fyrstu áratugina var sáð og borið á innan girðingar með flugvél Landgræðslunnar í samstarfi við sveitarfélagið en upp úr 1990 var farið að vinna með dráttarvélum og handsá.

Svæðið hefur tekið miklum stakkaskiptum þó enn sé nokkuð í að land sé fullgróið. Ýmsar að ferðir hafa verið reyndar innan landgræðslugirðingarinnar auk sáningar grasfræja og áburðargjafar, s.s. sáning birkifræja, gróðurseting smárahnausa, víðisprota, lúpínu og heyþakning. Síðast en ekki síst var þar gerð tilraun með nýtingu seyru til landgræðslu með góðum árangri.

Árið 1992 hófu sauðfjárbændur uppgræðslu í Stóraveri en þar voru opin rofabörð og moldir sem tekist hefur að loka að mestu og er þar nú gróið land. Árið 2004 var farið að græða upp land við Svínárnes sem er innar á afréttinum.

Undanfarin ár hefur Landgræðslufélag Hrunamanna unnið að landgræðslu á nokkrum stöðum á afréttinum. Auk svæðis innan landgræðslugirðingarinnar er nú unnið í Stóraveri, í Svínárnesi, Merarskeiði og á Harðavelli, á Stóramel og í Skyggnishólum og við Blákvísl og Búðará. Græddar hafa verið upp moldir, rofjaðrar, sand- og melasvæði og rofabörðum lokað.

Við uppgræðsluna er lögð áhersla á að stöðva rof, hindra frekari gróður- og jarðvegseyðingu og koma af stað gróðurframvindu sem leiðir til myndunar sjálfbærra gróðurlenda. Valdar eru aðferðir sem ekki hafa óæskileg áhrif á vistkerfi né sérstæðar náttúru- og mannvistarminjar og reynt er að fella uppgræðslur að landslagi og þeim gróðri sem fyrir er.

Landgræðslufélag Hrunamanna heldur landgræðsludag í júní ár hvert. Þar mætir hópur manna, bæði fullorðnir og börn og leggja landinu lið. Bændur mæta á dráttarvélum með áburðardreifara, tínast hver í sína áttina til að bera á en aðrir taka til við handdreifingu áburðar og fræs eða tæta úr heyrúllum. Allt er þetta gert samkvæmt samþykktri landbótaáætlun fyrir Hrunamannaafrétt vegna gæðastýringar í sauðfjárrækt, en landgræðslufélagið tók að sér ábyrgð á framkvæmdum í því verkefni.

Auglýst eftir umsóknum um styrki úr Landbótasjóði

By | Fréttir | No Comments

1.12.16 / Landgræðsla ríkisins auglýsir hér með eftir umsóknum um styrki úr Landbótasjóði Landgræðslunnar, en sjóðurinn úthlutar árlega styrkjum til margvíslegra landbótaverkefna til bænda, sveitarfélaga, félagasamtaka og annarra umráðahafa lands. Umsóknarfrestur er til 13. janúar nk.

Við ákvörðun um styrkveitingar er m.a. lögð áhersla á:

• Stöðvun hraðfara jarðvegsrofs og gróðureyðingar
• Endurheimt gróðurs og jarðvegs
• Að landnýting verði sjálfbær

Við mat á umsóknum er ennfremur tekið tillit til þess hvort gerð hafi verið landgræðslu- og landnýtingaráætlun til a.m.k. 3ja ára fyrir það svæði sem ætlunin er að vinna á.
Styrkur til einstakra verkefna getur að hámarki numið 2/3 af áætluðum kostnaði þess að mati Landgræðslunnar. Landgræðslan veitir ráðgjöf við framkvæmd þeirra verkefna sem sjóðurinn styrkir og hefur jafnframt eftirlit með framvindu þeirra og metur árangur.

Smelltu hér til að nálgast umsóknareyðublað en  hér til að sjá úthlutunarreglur sjóðsins. Einnig er hægt að nálgast þessi gögn og fá nánari upplýsingar á héraðssetrum Landgræðslunnar og á skrifstofu Landgræðslunnar í Gunnarsholti. Umsóknir skal senda á netfangið land@land.is eða til Landgræðslu ríkisins, Gunnarsholti, 851 Hella.