Category

Fréttir

Ráðstefna um kolefnisbindingu

By | Fréttir | No Comments

16.11.2017 / Ráðstefna um möguleika í kolefnisbindingu verður haldin í Bændahöllinni í Reykjavík þriðjudaginn 5. desember. Meðal annarra heldur írski sérfræðingurinn Eugene Hendrick erindi um aðgerðir sem Írar hafa ráðist í til þess að binda kolefni með breyttri landnotkun og aukinni skógrækt. Eugene hefur verið einn af aðalsamningamönnum Íra í samskiptum við ESB varðandi samninga um kolefnisbindingu með skógrækt.

Auður Magnúsdóttir, deildarforseti auðlinda- og umhverfisdeildar Landbúnaðarháskóla Íslands, fjallar á ráðstefnunni um losun kolefnis frá mismunandi gerðum þurrlendis og Oddný Steina Valsdóttir, formaður Landssamtaka sauðfjárbænda, segir frá nýrri skýrslu um losun gróðurhúsalofttegunda frá sauðfjárbúum á Íslandi og aðgerðum sem sauðfjárbændur hyggjast fara í til þess að draga úr losun.
Þá segja þeir Jóhann Þórsson, sérfræðingur hjá Landgræðslu ríkisins, og Arnór Snorrason, sérfræðingur á Mógilsá, frá möguleikum Íslands með kolefnisbindingu með landgræðslu og skógrækt. Að lokum gefst tími til fyrirspurna og umræðna.

Dagskrá*
Hótel Saga, klukkan 13-16, þriðjudaginn 5. desember
• Binding kolefnis með breyttri landnýtingu og skógrækt – LULUCF (Land Use, Land Use Change, Forestry) og reynsla Íra – Eugene Hendrick, sérfræðingur um kolefnisbindingu
• Losun frá þurrlendi Íslands – Auður Magnúsdóttir, deildarforseti auðlinda- og umhverfisdeildar LbhÍ.
• Sauðfjárbændur og kolefnisbinding – Oddný Steina Valsdóttir, formaður Landssamtaka sauðfjárbænda
• Kolefnisbinding með landgræðslu – Jóhann Þórsson, sérfræðingur hjá Landgræðslu ríkisins
• Kolefnisbinding með skógrækt – Arnór Snorrason, sérfræðingur á Mógilsá
• Umræður og samantekt
Að ráðstefnunni standa Landgræðsla ríkisins, Landbúnaðarháskóli Íslands, Skógræktin og Bændasamtök Íslands. Markmiðið er að draga fram leiðir til bindingar kolefnis hér á landi í því augnamiði að uppfylla skyldur sem m.a. felast í Parísarsamkomulaginu.
* (birt með fyrirvara um breytingar)

Ráðstefnan verður sem fyrr segir haldin þriðjudaginn 5. desember í ráðstefnusölum Hótel Sögu. Hún hefst kl. 13 og lýkur um kl. 16. Aðgangur er ókeypis og öllum opinn en krafist er skráningar á vefnum bondi.is (sjá hlekk undir frétt um ráðstefnuna á vef Bændasamtakanna).
Skráning  

Mountaineers of Iceland vilja leggja sitt af mörkum til að draga úr hlýnun andrúmslofsins

By | Fréttir | No Comments

6.11.2017 / Í sumar gerðu sveitarfélagið Bláskógabyggð og Mountaineers of Iceland, með sér samning um uppgræðslu lands í Hólalandi  sem er jörð í eigu hins fyrrnefnda. Hólaland er í Árnessýslu, rétt suðaustan við Sandá.  Mountaineers er ferðaþjónustufyrirtæki sem sérhæfir sig í jeppa og vélsleðaferðum á Suður og Vesturlandi.

Samningurinn gerir ráð fyrir að u.þ.b. 100 ha svæði verði grætt upp og með þeim aðgerðum yrði bundið kolefni í gróðri og jarðvegi.  Hugmynd að þessu verkefni kviknaði hjá starfsfólki Mountaineers sem vildi beita öllum ráðum til að varðveita náttúru Íslands.  Fram kom hjá starfsmönnum Mountaineers við undirritunina að landgræðsla ynni gegn hlýnun jarðar og hægði á bráðnun jökla. Því hefði verið ákveðið að hefja landgræðslu sem er viðurkennd aðferð í baráttunni við loftlagsbreytingar.

Til að ná markmiðum samningsins gerðu Mountaineers og Landgræðsla ríkisins annan samning um aðkomu Landgræðslunnar að verkinu á árinu 2017. Samkvæmt honum tekur Landgræðslan að sér að kortleggja svæðið og skrá ástand þess, m.t.t. gróðurfars, jarðvegsrofs, grjóts og sands á yfirborði auk annarra þátta sem nauðsynlegt er að þekkja áður en hafist er handa við uppgræðslu svæðisins sem og til að meta árangur aðgerða.

Skýrsla um ástand svæðisins verður unnin á grundvelli kortlagningarinnar þar sem ofangreindum þáttum eru gerð skil og Landgræðslan mun vinna heildstæða uppgræðsluáætlun fyrir svæðið. Í uppgræðsluáætlun kemur fram hver eru markmið með uppgræðslunni, hvaða uppgræðsluaðferðum er beitt til að ná fyrrgreindum markmiðum, hve langan tíma tekur að ná þeim markmiðum o.fl.

Fram kemur í samningum að Landgræðslu ríkisins er heimilt að nýta og birta rannsóknarniðurstöður og gögn um þá þætti sem samningurinn tekur til eins og um hefðbundin uppgræðslusvæði væri að ræða. Að sama skapi er Mountaineers einnig heimilt að nýta sér þessa sömu þætti í sinni starfsemi.

Meðfylgjandi mynd var tekin þegar Ólöf Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Mountaineers og Árni Bragason, landgræðslustjóri undirrituðu samninginn.

 

Landsmenn hvattir til að safna fræi á Degi íslenskrar náttúru

By | Fréttir | No Comments

12.9.2017 / Dagur íslenskrar náttúru er á laugardag, 16. september. Dagurinn verður almennur fræsöfnunardagur og landsmenn eru hvattir til að safna fræi af trjám, einkum birki, og stuðla þannig að útbreiðslu skóglendis á landinu. Mikið fræ er á birki um allt land þetta haustið og upplagt tækifæri að safna fræi, einkum af ungum, beinvöxnum trjám. Áður en fólk fer út að safna er það hvatt til að skoða bæklinginn BIRKI Fræsöfnun og sáning, en þar er að finna ágætar leiðbeiningar.

Stefnt er að því að laugardagurinn 16. september verði helgaður fræsöfnun á vegum skógræktarfélaga um land allt í samræmi við ályktun þess efnis sem samþykkt var nýlega á aðalfundi Skógræktarfélags Íslands á Stórutjörnum í Ljósavatnsskarði. Er almenningur einnig hvattur til að nýta daginn til söfnunar. Verkefnið er þó ekki bundið við þennan eina dag. Ef hvassviðri eða rigning spillir ekki alvarlega ætti að vera hægt að safna fræi birkitrjáa fram yfir miðjan október.

Ef veður verður hagstætt, sem útlit er fyrir, er ætlunin að virkja sem flesta til að fara út og safna fræi og eru skógræktarfélögin í landinu hvött til að hafa forystu um fræsöfnunarverkefni hvert á sínu svæði. Í Morgunblaðinu í fyrr í vikunni var rætt við Hrein Óskarsson, sviðstjóra samhæfingarsviðs Skógræktarinnar, sem mælir með að einkum sé safnað fræi af ungum, beinvöxnum birkiplöntum því þær séu bestu arfberarnir. „Okkur er í mun að fá sem mest af fræjum af þeim og vonandi leggst nokkuð til, því það er mjög gott fræár í birki á landinu öllu,“ segir Hreinn.

Fræsöfnunin er samstarfsverkefni Landgræðslunnar, Skógræktarinnar og skógræktarfélaga. Þessir aðilar hafa, ýmist saman eða hver í sínu lagi, átt þátt í mörgum vel heppnuðum náttúruverndarverkefnum í tímans rás.

Alls staðar þar sem birki vex má tína fræ, reklarnir, sem aðrir nefna köngla, eru stórir og fallegir þetta haustið. Heimagarðar eru nærtækastir fyrir flesta en á höfuðborgarsvæðinu má tiltaka Öskjuhlíð, Elliðaárdal, Heiðmörk og svæðið við Hvaleyrarvatn í Hafnarfirði – að viðbættum almenningsgörðum um allan bæ. Úti á landi eru svo margir frábærir söfnunarstaðir, svo sem Þjórsárdalur, Þórsmörk, Fnjóskadalur og Fljótsdalshérað.

Birkifræið sem safnast í haust verður nýtt til sáningar um allt land. Líklega fer stærstur hluti fræsins til Hekluskóga á Suðurlandi og verður dreift á hentugum svæðum þar strax í haust. Alls spannar Hekluskógasvæðið um100 þúsund hektara í Þjórsárdal, Landsveit, Landmannaafrétti og á Rangárvöllum og er ætlunin að græða það svæði upp með birkiskógum og sjálfsáningu.

 

 

 

Tillögur Landgræðslu ríkisins og Skógræktarinnar vegna aðgerða til að mæta vanda sauðfjárræktarinnar

By | Fréttir | No Comments

6.9.2017 / Fyrir skömmu rituðu þeir Árni Bragason, landgræðslustjóri og Þröstur Eysteinsson, skógræktarstjóri, bréf til Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, landbúnaðarráðherra um yfirvofandi samdrátt í sauðfjárframleiðslu og mögulega aðkomu Landgræðslunnar og Skógræktarinnar til að skapa bændum ný atvinnutækifæri. Bréf þeirra Árna og Þrastar bar yfirskriftina „Tillögur Landgræðslu ríkisins og Skógræktarinnar vegna aðgerða til að mæta vanda sauðfjárræktarinnar.“

Bréfið er svohljóðandi:

Forsendur
Boðaður hefur verið allt að 20% niðurskurður í sauðfjárrækt til að ná tökum á framleiðslunni og laga greinina að innanlandsmarkaði.

Með því að efla þau samstarfsverkefni sem þessar stofnanir ríkisins eru að vinna að með bændum er unnt að skapa ný atvinnutækifæri fyrir þá bændur sem hverfa frá sauðfjárrækt eða draga verulega úr henni. Þannig má auka líkur á að þeir geti búið áfram á jörðum sínum, bætt þær og þar með aukið framtíðarverðmæti þeirra og um leið treyst byggð í strjálbýlum sveitum. Bændur eiga vélakost sem þarf til landbótastarfa og margir hafa þá þekkingu sem til þarf. Landgræðsla ríkisins og Skógræktin reka héraðssetur í öllum landshlutum sem geta sinnt leiðbeiningum, áætlanagerð og eftirfylgni með slíkum verkefnum. Stofnanirnar hafa um áratuga skeið átt í farsælu samstarfi við bændur um uppgræðslu lands í verkefninu Bændur græða landið og Landshlutaverkefnunum í skógrækt (nú Skógrækt á bújörðum).

Með auknum framlögum til þessara verkefna mun draga úr hættu á því að samfélagslegur vandi skapist vegna brottflutnings úr sveitum og þau munu stuðla að því að halda landinu í byggð auk fjölþætts umhverfislegs ávinnings. Jafnframt væri tryggt að fjármagn sem væri ráðstafað til búháttabreytinga myndi nýtast til mikilvægra umhverfisverkefna í heimahéruðum. Þau verkefni sem gæti verið um að ræða tengjast fjórum meginþemum:

• Uppgræðsla lands. Samkvæmt gögnum sem koma fram í landbótaáætlunum sauðfjárbænda ganga um 10% fjárstofnsins á afréttum þar sem þörf er á úrbótum á ástandi lands og/eða landnýtingu. Þessir afréttir eru að mestu leyti á gosbeltinu. Landgræðslan er í samstarfi við bændur um uppgræðslu á þessum svæðum. Fjölga mætti þátttakendum í þessu samstarfi og auka verulega umfang slíkra uppgræðsluverkefna. Þá er víða hægt að bæta í uppgræðslu á heimalöndum í gegn um verkefnið Bændur græða landið. Þátttakendum yrði greitt fyrir vinnuframlag á svipaðan hátt og þátttakendum í Skógrækt á bújörðum. Verkefnið mun stuðla að því að draga úr vergri (nettó) losun koltvísýrings frá Íslandi sem nemur 2-2,5 tonnum af CO2 á hektara á ári.

• Endurheimt votlendis. Milli áranna 1960 og 1980 var mikið ræst fram af votlendi í þeim tilgangi að rækta akra og tún sem og að bæta beitarlönd. Verulegur hluti af því landi sem var ræst fram hefur ekki verið nýtt í þeim tilgangi enn sem komið er. Þarna er því svigrúm til þess að endurheimta mikið af votlendi. Bændur eru hér í lykilstöðu þar sem þeir eru að langmestu leyti umráðamenn þess lands sem um ræðir. Með þátttöku í verkefninu gætu þeir fengið greitt fyrir vinnu við endurheimt votlendis. Með þessum hluta verkefnisins má m.a. draga úr losun CO2 og endurreisa vistkerfi sem eru mikilvæg fyrir fjölda lífvera. Mikill fjöldi bænda hefur möguleika til þátttöku í þessum hluta verkefnisins.

• Endurheimt birkiskóga og önnur endurhæfing lands með skóggræðslu. Ísland hefur frá landnámi tapað langstærstum hluta birkiskóganna, sem áður þöktu 25-40% af yfirboði Íslands. Í kjölfar eyðingar skóganna hófst sú gróður- og jarðvegseyðing sem enn sér ekki fyrir endann á. Þessi hluti verkefnisins myndi snúa að endurheimt þeirra þar sem bændur myndu taka fyrir hluta af sínu landi, friða það fyrir beit og rækta nýja landbótaskóga með áherslu á birki og þátttöku í Skógrækt á bújörðum. Einnig væri um að ræða endurheimt skóga á stórum rofsvæðum, sbr. Hekluskóga, þar sem bændum yrði boðin vinna, t.d. sem verktakar, við friðun, gróðursetningu, áburðardreifingu o.fl. Til langs tíma myndi framleiðni landsins aukast og með þessu væri einnig verið að endurreisa vistkerfi sem eru mikilvæg fyrir fjölda lífvera. Með birkiskógrækt má einnig binda 4-6 tonn CO2 árlega í trjágróðri og jarðvegi.

• Skógrækt á bújörðum. Reynsla undanfarna öld hefur staðfest að skógrækt til timburframleiðslu er bæði vel möguleg og hagkvæm í flestum landshlutum og á flestum landgerðum. Samfara ræktun nytjaskóga fer fram kolefnisbinding sem numið getur allt að 10 tonnum CO2 á hektara og ári að meðaltali hjá hraðvöxnum trjátegundum. Að meðaltali nemur árleg binding CO2 í ræktuðum skógum Íslands nú 7,7 tonnum á hektara en aðeins þyrfti slíkur skógur að vaxa á tæpum 7% landsins til að binda alla losun Íslendinga. Margir sauðfjárbændur taka þátt í verkefninu Skógrækt á bújörðum (áður Landshlutaverkefnin í skógrækt) og áhugi meðal bænda hefur aukist nýverið. Um 20 bændur í Vestur Húnavatnssýslu sýndu áhuga á að taka þátt í beitarskógaverkefni á yfirstandandi ári en fjármagn nægði aðeins til að hefja framkvæmdir á fjórum jörðum. Fyrir því er einnig tæplega 30 ára reynsla á Héraði, þar sem skógrækt var liður í aðgerðum þegar allt fé var skorið vegna riðu. Enn er blómleg byggð á Héraði og margir bændur farnir að nýta skógana sína. Fjölga mætti þátttökujörðum í Skógrækt á bújörðum og auka hraða framkvæmda með auknum fjárveitingum.

Landgræðsla ríkisins og Skógræktin vona að ofangreindar tillögur muni í samspili við aðrar aðgerðir draga úr hættu á veikingu byggðar í kjölfar samdráttar í framleiðslu sauðfjárafurða. … „

Landgræðsla ríkisins og Katla jarðvangur undirrituðu samkomulag

By | Fréttir | No Comments

16.8.2107 / Landgræðsla ríkisins og Katla jarðvangur undirrituðu fyrr í vikunni samkomulag með það að markmiði að auka, samhæfa og treysta samstarf stofnananna um sameiginleg verkefni. Tilgangur samstarfsyfirlýsingarinnar er að ná fram samlegðaráhrifum með auknu samstarfi og gagnkvæmum stuðningi stofnananna við þau verkefni sem snúa að land- og náttúruvernd.

Sérstök áhersla er lögð á vernd og uppbyggingu gönguleiða og áningastaða innan Kötlu jarðvangs og að nýta afurðir ASCENT, verkefnis sem Landgræðslan er aðili að ásamt Skaftárhreppi.

Samstarfsyfirlýsingin er í samræmi við markmið og tilgang laga um landgræðslu og samþykktir (skipulagsskrá) Kötlu jarðvangs, sbr. einnig bækling UNESCO um hnattræna UNESCO jarðvanga frá 2016 sem kom út á íslensku á þessu ári.

Á myndinni eru þau Brynja Davíðsdóttir, framkvæmdastjóri Kötlu Jarðvangs og Árni Bragason, landgræðslustjóri.

 

Endurheimt votlendis við Urriðavatn

By | Fréttir | No Comments

24.7.2017 / Fyrir skömmu var undirritaður samningur á milli Garðabæjar, Toyota á Íslandi ehf, Urriðaholts ehf, Landgræðslu ríkisins og Byggingarfélags Gylfa og Gunnars hf um endurheimt votlendis við Urriðavatn í Garðabæ. Viðstaddir undirritunina voru umhverfisráðherra, Björt Ólafsdóttir, sem tók fyrstu skóflustunguna við uppfyllingu skurða á gröfu, samningsaðilar sem eru Toyota, Urriðaholt ehf og landeigendur, bæjarstjórn Garðabæjar, fulltrúar umhverfisnefndar Garðabæjar, fulltrúar frá Strendingi og Verkís, fulltrúar Landgræðslu ríkisins og Garðabæjar. Meðfylgjandi mynd var tekin þegar samningurinn var undirritaður.

Urriðavatn og umhverfi er á náttúruminjaskrá og markmið verkefnisins er að færa land í átt til fyrra horfs og skapa lífsskilyrði fyrir gróður og dýralíf sem áður ríkti og skapa einnig aukið svigrúm fyrir útivistaraðstöðu í umhverfi Urriðavatns.

Toyota á Íslandi hafði frumkvæði að endurheimt votlendis við Urriðavatn og styrkir framkvæmdina að stærstum hluta. Garðabær undirbjó verkefnið og sér um framkvæmd þess ásamt aðilum samstarfssamningsins. Urriðaholt ehf leggur til efni í fyllingu skurðanna, Byggingarfélag Gylfa og Gunnars hf er landeigandi og leggur til svæði við endurheimt votlendis og Landgræðsla ríkisins tekur þátt í verkefninu með ráðgjöf, vöktun og vinnu við árangursmat.

Verkið felst í uppfyllingu skurða sem eru 815 lengdarmetrar með aðfluttu efni úr næsta nágrenni eða frá Urriðaholti, ásamt efni á á bökkum skurðanna. Með tímanum ætti endurheimt votlendi að binda kolefni í stað þess að losa það út í andrúmsloftið en votlendi geyma verulegan hluta kolefnisforða jarðarinnar. Verkið verður unnið með sama hætti og framkvæmd við endurheimt votlendis við Kasthúsatjörn á Álftanesi sem einnig var styrkt af Toyota á Íslandi og Landgræðslu ríkisins.

Endurheimt votlendis við Urriðavatn er framhald á samstarfi Garðabæjar og Toyota á Íslandi en vatnið er í nærumhverfi fyrirtækisins sem er staðsett í Kauptúni í Garðabæ. Samhliða framkvæmdum við endurheimt votlendisins verður farið í gerð stígs sem er framhald útivistarstígs sem liggur nú sunnan byggðar í Urriðaholti. Stígur umhverfis Urriðavatnið er á aðalskipulagi Garðabæjar.

Umhverfisstofnun segir í umsögn sinni um verkefnið að framkvæmdin sé til þess fallin að hafa jákvæð áhrif á svæðið. Árangur við endurheimt votlendis verður metinn og fylgst verður með framvindu svæðisins og fuglalífi þar. / Texti af heimasíðu Garðabæjar.

Kolefnisbinding og uppgræðsla

By | Fréttir | No Comments

Árið 2013 gerðu Landgræðslan og Landsvirkjun með sér samning um aðgerðir til kolefnisbindingar með uppgræðslu lands í Koti á Rangárvöllum. Samningssvæðið var síðan stækkað árið 2015 og nú er unnið að uppgræðslu á um 720 ha. svæði í landi Kots og Steinkross. Landið sem unnið er á var annað hvort örfoka eða lítt gróið. Við uppgræðsluna hefur aðallega verið notað kjötmjöl sem gefið hefur mjög góðan árangur eins og sjá má á meðfylgjandi myndum. Birki er gróðursett í lundi á uppgræðslusvæðinu til að flýta fyrir útbreiðslu þess.

Landsvirkjun greiðir allan kostnað við framkvæmd verkefnisins og mun telja þá  kolefnisbindingu sem á sér stað í jarðvegi og gróðri sér til tekna í sínu kolefnisbókhaldi.

Framkvæmdir í Dimmuborgum

By | Fréttir | No Comments

Eins og á öðrum vinsælum áningarstöðum hér á landi hefur orðið algjör sprenging í komu ferðamanna í Dimmuborgir í Mývatnssveit. Í ár er talið að allt að 400 þúsund manns sæki Dimmuborgir heim. Undanfarið hefur verið unnið að stækkun bílastæðaplans við Borgirnar um 3000 fm² til að mæta auknu álagi og í síðustu viku var planið malbikað. Einnig var lagt malbik á nýjan 140 m langan göngustíg sem tengir saman efra bílaplanið og hið nýja, sem liggur neðar í landinu.
Framkvæmdasjóður ferðamannastaða veitti styrk til verksins en um framkvæmdir sáu fyrirtækin Jón Ingi Hinriksson ehf. í Mývatnssveit og Kraftfag ehf. á Akureyri.

Nýtt fréttablað ASCENT verkefnisins

By | Fréttir | No Comments

18.6.2017 / Landgræðsla ríkisins er þátttakandi í þriggja ára fjölþjóðlegu samstarfsverkefni, ásamt aðilum frá Írlandi, Norður Írlandi, Noregi og Finnlandi, undir leiðsögn Skota, sem kallast ASCENT og hófst síðastliðið haust. Verkefnið sem er styrkt af norðurslóðaáætlun Evrópusambandsins felur í sér samstarf um aukna fagþekkingu og bætt vinnunnubrögð við göngustígagerð og uppbyggingu áningastaða með náttúruvernd að leiðarljósi.

Tengill hér að neðan vísar á nýtt fréttablað ASCENT verkefnisins og ágæta samantekt um þátt Landgræðslunnar undanfarnar vikur:
http://mailchi.mp/6ce66e7cf5b4/ascent-project-issue-1-digital-newsletter

Meistararitgerð um melgresi

By | Fréttir | No Comments

1.6.2017 / Þriðjudaginn 30. maí varði Guðrún Stefánsdóttir meistararitgerð sína í landgræðslufræðum frá Auðlinda- og umhverfisdeild Landbúnaðarháskóla Íslands. Ritgerðin fjallar um framvindu og uppbyggingu vistkerfa á melgresissvæðum. Melgresi er lykiltegund í landgræðslu á Íslandi og því mikill fengur að þessari rannsókn. Helstu niðurstöður voru þær að hefðbundnar mæliaðferðir vanmætu stórlega kolefnisbindingu í mellöndum.

Í verkefninu rannsakaði Guðrún meðal annars uppsöfnun kolefnis (C) og niturs (N) í tveimur um 40 ára aldursröðum melhóla; annars vegar í hólum sem mynduðust af sjálfsáðum melplöntum í Surtsey en hins vegar í misgömlum melsáningum í Leirdal, sandsléttu á milli Búrfells og Heklu, þar sem Landgræðsla ríkisins hefur sáð melgresi til að hefta ösku í kjölfar Heklugosa. Niðurstöður Guðrúnar sýna meðal annars mun meiri uppsöfnun kolefnis í Leirdal en Surtsey, bæði í rótum og jarðvegi.

Á báðum rannsóknarsvæðunum var meginaukningin á kolefnisforða vistkerfisins fyrir neðan 30 cm. Þetta sýnir að 30 cm stöðluð sýnatökudýpt sem notuð er í landsúttektum til að mæla kolefnisbindingu við landgræðslu mælir aðeins hluta kolefnisforðans í slíkum vistkerfum. Mun meira nitur safnaðist árlega upp í melhólunum í Surtsey en fellur á þá með ákomu. Sennilegasta skýringin á því er sú að hinar löngu rætur melgresisins teygja sig út í ógrónu svæðin milli hólanna og flytja nitur inn í þá. Melgresishólarnir er því lykilsvæði fyrir frekari jarðvegsmyndun og framvindu á sandsvæðum.

Aðalleiðbeinandi Guðrúnar var Ása L. Aradóttir, prófessor við LBHÍ. Meðleiðbeinendur voru Bjarni Diðrik Sigurðsson, prófessor við LBHÍ og Guðmundur Halldórsson, rannsóknastjóri hjá Landgræðslu ríkisins. Prófdómari var Brynhildur Bjarnadóttir, lektor við Háskólann á Akureyri.

Nánari upplýsingar má nálgast hér.