Category

Eldri fréttir

Varnarbaráttan í Vík í Mýrdal

By | Eldri fréttir | No Comments

14. janúar 2016. Landbrot af völdum sjávar heldur stöðugt áfram í fjörunni fyrir framan Vík. Það styttist því stöðugt í að sjórinn verði búinn að brjóta niður sandfoksvarnir Landgræðslunnar og Fjörulallanna í Vík. En stofnunin hefur á undanförnum áratugum unnið að því að draga úr sandfoki inn í þéttbýlið í Vík í Mýrdal og á síðari árum hafa eldri borgarar svonefndir Fjörulallar unnið þar ómetanlegt starf við uppgræðslu og fegrun svæðisins.

Tímamóta áfangi í sjóvörnum náðist þegar Siglingastofnun reisti svo kallaðan sandfangara árið 2010 og tók þá fjaran að lengjast vestan við hann. Fjörulallarnir græddu viðbótarlandið jafnóðum upp til að hamla frekari sandfoki þaðan inn yfir byggðina.
Í ofsaveðrum í lok sl. árs gekk sjórinn langt inn á landið austan við sandfangarann og alveg að Hringveginum og bar með sér mikinn sand.
Bilið á milli fjöruborðs og byggðar er orðið það lítið að mjög lítið svigrúm er til staðar fyrir varnaraðgerðir til að draga úr hættu á sandfoki.
Með sömu þróun landbrotsins hverfa þessar uppgræðsluaðgerðir framan við iðnaðarsvæðið í sjóinn innan tíðar og þorpið verður berskjaldað fyrir sandfoki frá fjörunni.

Auglýsing um styrki úr Landbótasjóði Landgræðslunnar árið 2016

By | Eldri fréttir | No Comments

4. janúar 2016. Auglýsing um styrki úr Landbótasjóði Landgræðslunnar árið 2016
Landgræðsla ríkisins auglýsir hér með eftir umsóknum um styrki úr Landbótasjóði Landgræðslunnar, en sjóðurinn úthlutar árlega styrkjum til margvíslegra landbótaverkefna til bænda, sveitarfélaga, félagasamtaka og annarra umráðahafa lands. Umsóknarfrestur hefur verið framlengdur til og með 20. janúar. Athygli er vakin á því að sjóðurinn styrkir endurheimt votlendis.
Við ákvörðun um styrkveitingar er m.a. lögð áhersla á:
• Stöðvun hraðfara jarðvegsrofs og gróðureyðingar.
• Endurheimt gróðurs, jarðvegs og votlendis.
• Að landnýting verði sjálfbær.
Við mat á umsóknum er ennfremur tekið tillit til þess hvort gerð hafi verið landgræðslu- og landnýtingaráætlun til a.m.k. 3ja ára fyrir það svæði sem ætlunin er að vinna með. Sérstök athygli er vakin á að sjóðurinn styrkir aðgerðir til endurheimtar votlendis og land friðað fyrir beit nýtur að öðru jöfnu forgangs við ákvörðun um styrkveitingar.
Styrkur til einstakra verkefna getur að hámarki numið 2/3 af áætluðum kostnaði þess að mati Landgræðslunnar. Landgræðslan veitir ráðgjöf við framkvæmd þeirra verkefna sem sjóðurinn styrkir og hefur jafnframt eftirlit með framvindu þeirra og metur árangur.

Umsóknareyðublöð og úthlutunarreglur sjóðsins eru á heimasíðu Landgræðslunnar (www.land.is). Einnig er hægt að nálgast þessi gögn og fá nánari upplýsingar á hérðassetrum Landgræðslunnar og á skrifstofu Landgræðslunnar í Gunnarsholti. Smellið hér til að komast á síðu með umsóknareyðublöðum.

Eins og fyrr segir þá hefur umsóknarfrestur verið framlengdur til 20. janúar nk. og umsóknir skal senda á netfangið land@land.is eða til Landgræðslu ríkisins, Gunnarsholti, 851 Hella.

Landgræðsla ríkisins
Gunnarsholti, 851 Hella
Sími 488 3000
Veffang www.land.is – Netfang land@land.is

Ráðstefna um búfjárbeit í september

By | Eldri fréttir | No Comments

18. janúar 2016. Áætlun Norrænu ráðherranefndarinnar um sjálfbæra þróun styrkir alþjóðlega ráðstefnu um búfjárbeit á Norðurlöndunum sem haldin verður í Hörpu í Reykjavík 12.-15. september á vegum norræna genabankansNordGen í samstarfi við Landgræðslu ríkisins. Litið verður á beit í samhengi við sjálfbæra þróun og loftslagsbreytingar auk annars. Búfjárhald og beit hefur umtalsverð áhrif á vistkerfi heimsins. Búfjárbeit á úthaga er einkum stunduð á jaðarsvæðum sem henta ekki til annars búskapar. Þar hefur hún mjög víða leitt til alvarlegrar landeyðingar. Annarsstaðar hefur beit mótað menningarlandslag sem nú er metið til verðmæta sem beri að varðveita.
En nú eru breytingatímar. Æ meiri kröfur eru gerðar um sjálfbærni, þar með um sjálfbæra nýtingu beitilands. Þess vegna dugir ekki lengur að hugsa eingöngu um afköst og hversu mikið sé hægt að framleiða hér og nú. Stjórn og stefnumótun í landbúnaðarmálum þarf að mótast af fleiru en því hversu mikið hægt er að framleiða. Þar er nefnd aðlögun og aðgerðir gegn loftslagsbreytingum, verndun vistkerfa, endurhæfing spilltra vistkerfa og viðhald lífkerfa þar sem líffjölbreytni er mikil. Samhliða þessu öllu er rætt um að tryggja þurfi og viðhalda fæðuöryggi.

Allt þetta verður til umræðu á ráðstefnunni í Hörpu í september. Þar koma til leiks sérfræðingar og stjórnmálafólk til að ræða beitarmál á Norðurlöndunum þvert á fræðigreinar og fög. Hugað verður að viðbrögðum við loftslagsbreytingum og aðlögun að þeim, öðrum umhverfismálum, fæðuöryggi, lífsskilyrðum á hverju svæði og hvers kyns vistkerfisþjónustu.

Norræni genabankinn NordGen heldur ráðstefnuna í samvinnu við Landgræðslu ríkisins og nýtur styrks frá Norrænu ráðherranefndinni.

Samstarfssamningur um nýtingu seyru til landgræðslu

By | Eldri fréttir | No Comments

29. janúar 2016  Í gær var undirritaður samstarfssamningur Landgræðslunnar og nokkurra sveitarfélaga á Suðurlandi um nýtingu á seyru til landgræðslu. Sveitarfélögin sem koma að þessum samningi eru Hrunamannahreppur, Bláskógabyggð, Grímsnes- og Grafningshreppur, Skeiða- og Gnúpverjahreppur og Flóahreppur.
Tilgangurinn er að nýta seyru sem til fellur í sveitarfélögunum til landgræðslu. Efnið verður notað innan landgræðslugirðingar á Hrunamannaafrétti. Einnig geta önnur svæði í sveitarfélögunum komið til greina eftir samkomlagi aðila ef þau henta og uppfylla að öðru leyti skilyrði til nýtingar á seyru. Samningurinn er til átta ára.

Í samningum segir m.a. að sveitarfélögin safni seyru úr sveitarfélögum í samræmi við samninga við losunaraðila. Þar með talin er seyra frá þéttbýli, dreifbýli, sumarhúsum og eftir atvikum atvinnurekstri. Samkvæmt samningum munu sveitarfélögin aðallega vinna þetta þannig að seyran er kölkuð á söfnunarstað og meðhöndluð skv. reglugerð um meðhöndlun seyru nr.799/1999. Frá söfnunarstað verður seyran flutt árlega á uppgræðslusvæði og dreift.

Í samningnum er fjallað um dreifingu seyrunnar, en ef hún er meðhöndluð á þann hátt sem segir hér að framan, þá verður henni dreift á yfirborð uppgræðslusvæða. Snemma í september ár hvert munu samningsaðilar leggja mat á framvindu gróðurs á uppgræðslusvæðunum. Landgræðslan mun síðan fyrir lok nóvembermánaðar árin 2016, 2017, 2019 og 2022 skila sérstökum skýrslum um ástand gróðurs og framvindu á uppgræðslusvæðunum. Landgræðslan leggur til ráðgjöf og fræ til sáningar á uppgræðslusvæðunum telji hún þess þörf.

Menntamálaráðherra hvattur til að auka fræðslu um vistkerfi jarðar og umhverfisvá

By | Eldri fréttir | No Comments

16. desember 2015  | Frú Vigdís Finnbogadóttir og fleiri afhentu fyrr í vikunni Illuga Gunnarssyni, mennta- og menningarmálaráðherra yfirlýsingu þar sem hann er hvattur til að beita sér fyrir stóraukinni fræðslu í menntakerfinu um vistkerfi jarðar og umhverfisvá. Yfirlýsing var samþykkt og undirrituð af rösklega 20 þátttakendum á málþingi um umhverfismál “Af jörðu ertu kominn…” sem haldið var í Skálholti 10. nóvember. Í hópnum eru auk frú Vigdísar og frú Agnesar M. Sigurðardóttur biskups Íslands, náttúruvísindamenn, bændur, prestar, heimspekingur, þingmaður og fólk úr ferðaþjónustu svo að nokkur séu nefnt. Í hvatningunni er fjallað um að “ Staða umhverfismála á heimsvísu kallar á breytt hugarfar og þátttöku allra í að varna óafturkræfum breytingum á loftslagi. Þær ógna lífsskilyrðum fólks nú þegar, sem og kynslóða framtíðarinnar með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir heimsbyggðina.”

Því þurfi strax að breyta hugarfari næstu kynslóðar til hins betra. “Þess vegna er stóraukin fræðsla meðal grunn- og framhaldsskólakennara um vistkerfi jarðar lykilatriði enda mótar fræðsla þeirra kynslóðir framtíðarinnar”. Þá segir í yfirlýsingunni: “Einnig viljum við benda á þá staðreynd að velferð samfélaga byggir á sjálfbærri auðlindanýtingu, sanngirni og lífstíl þar sem allir njóta góðs af sameiginlegum arði.”
Þá er mennta- og menningarmálaráðherra hvattur til að nota það tilefni sem loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna í París 2015 gefur, til að styrkja og efla verkefni á sviði umhverfismála. Þar er nefnt að “auka framboð af námskeiðum sem bæta þekkingu kennara á vistkerfum jarðar og gera þá færari í að vinna meðsjálfbærni og umhverfisvitund sem grunnstoðir uppfræðslu, fléttaðar inn í aðar námsgreinar skólakerfisins.”

Yfirlýsingin fylgir hér á eftir auk lista yfir þá sem undirrituðu hana:
Við undirrituð þátttakendur á málþingi um umhverfismál, “Af jörðu ertu kominn…” sem haldið var í Skálholti 10. nóvember s.l. hvetjum mennta- og menningarmálaráðherra til að beita sér fyrir stóraukinni fræðslu í menntakerfinu um vistkerfi jarðar og umhverfisvá.
Staða umhverfismála á heimsvísu kallar á breytt hugarfar og þátttöku allra í að varna óafturkræfum breytingum á loftslagi. Þær ógna lífsskilyrðum fólks nú þegar, sem og kynslóða framtíðarinnar með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir heimsbyggðina.
Við öll berum ábyrgð á því að nýting náttúruauðlinda verði með sjálfbærum hætti. Sjálfbærni næst aðeins með aukinni heildrænni þekkingu á vistkerfum jarðar og hvernig öll starfsemi þeirra er órjúfanlega tengd innbyrðis.
Þá þurfum við strax að byrja að breyta hugarfari næstu kynslóðar til hins betra. Aukin þekking og skilningur kennara á vistkerfum og hringrásum lífsins er undirstaða þess að þeir geti miðlað lærdómnum áfram og byggt upp sterka umhverfisvitund og vistlæsi á meðal æsku landsins.
Þess vegna er stóraukin fræðsla meðal grunn- og framhaldsskólakennara um vistkerfi jarðar lykilatriði enda mótar fræðsla þeirra kynslóðir framtíðarinnar. Við viljum í því samhengi benda sérstaklega á mikilvægi jarðvegs- og vatnsverndar og þátt líffræðilegs fjölbreytileika. Einnig viljum við benda á þá staðreynd að velferð samfélaga byggir á sjálfbærri auðlindanýtingu, sanngirni og lífstíl þar sem allir njóta góðs af sameiginlegum arði.
Við hvetjum menntamálaráðherra að nota það tilefni sem loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna í París 2015 gefur, til að styrkja og efla verkefni á þessu sviði. Ennfremur að auka framboð af námskeiðum sem bæta þekkingu kennara á vistkerfum jarðar og gera þá færari í að vinna meðsjálfbærni og umhverfisvitund sem grunnstoðir uppfræðslu, fléttaðar inn í aðar námsgreinar skólakerfisins.

Frú Vigdís Finnbogadóttir, f.v. forseti Íslands
Frú Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands
Andrés Arnalds, staðgengill landgræðslustjóra
Áróra Bryndís Ásgeirsdóttir, landfræðingur
Sr. Axel Árnason, héraðsprestur Suðurprófastsdæmis
Ásborg Arnþórsdóttir, ferðamálafulltrúi uppsveita Árnessýslu
Sr.Bernharður Guðmundsson, f.v. rektor Skálholtsskóla
Björn Erlingsson, hafeðlisfræðingur
Guðrún Andrésdóttir, framkvæmdastjóri Náttúruferða
Sr. Halldór Reynisson, verkefnisstjóri Skálholti
Sr. Halldóra Þorvarðardóttir, prófastur Fellsmúla
Dr. Hlynur Óskarsson, vistfræðingur hjá Landbúnaðarháskólanum
Dr. Jón Ásgeir Kalmansson, heimspekingur
Dr. Kristín Vala Ragnarsdóttir, prófessor HÍ
Sr. Kristján Valur Ingólfsson, vígslubiskup Skálholti
Kristófer Tómasson, sveitastjóri Skeiða- og Gnúpverjahrepps
Dr. Lára Jóhannsdóttir, lektor HÍ
Sigurður Loftsson, formaður Landssambands kúabænda, Steinsholti
Dr. Sólveig Anna Bóasdóttir, prófessor HÍ
Ellisif Tinna Víðisdóttir, framkvæmdastjóri Kirkjuráðs
Vilhjálmur Bjarnason, alþingismaður
Þorfinnur Þórarinsson, bóndi Spóastöðum
Þórunn Pétursdóttir, landgræðsluvistfræðingur
Þröstur Ólafsson, formaður Auðlindar, náttúrusjóðs

Rannsóknarstyrkir í landgræðslu og skógrækt

By | Eldri fréttir | No Comments

16. desember 2015. Minningarsjóður Hjálmars R. Bárðarsonar og Else Bárðarson auglýsir rannsóknastyrki í landgræðslu og skógrækt, með sérstakri áherslu á vistfræði lúpínu og landgræðsluskógrækt með lúpínu. Til úthlutunar verða um fjórar milljónir króna. Umsóknum skal skila eigi síðar en 25. janúar 2016.
Umsóknareyðublöð er að finna á heimasíðum Skógræktarfélags Íslands, Landgræðslu ríkisins og Skógræktar ríkisins. Umsókn ásamt fylgigögnum skal skila í einu pappírseintaki og á tölvutæku formi. Ófullgerðum umsóknum verður vísað frá.
Nánari upplýsingar gefur formaður sjóðsins, Guðbrandur Brynjúlfsson, í síma 844-0429, netfang buvangur@emax.is

Umsóknum skal skila til:
Landgræðslusjóður
b/t Minningarsjóður Hjálmars R. Bárðarsonar og Else S. Bárðarson
Þórunnartúni 6
105 Reykjavík

Smellið hér til að nálgast umsóknareyðublað og fá nánari upplýsingar.

Landbætur gegn loftslagsbreytingum

By | Eldri fréttir | No Comments

7. desember 2015. Kolefni (C) er merkilegt frumefni. Í formi koltvísýrings, CO2, er það einn meginorksakavaldurinn í þeirri hlýnun loftslags af mannavöldum sem gæti ógnað velferð jarðarbúa á komandi árum. Þegar kolefnið er bundið í lífræn efni er það hins vegar undirstaða lífs á jörðu, einhver mikilvægasta auðlind jarðarbúa.Undanfarið hefur nær hvert ár verið hlýrra að meðaltali á jörðinni en það sem á undan er gengið. Magn koltvísýrings í lofthjúpnum vex stöðugt og nemur um 2/3 af uppsöfnun þeirra gróðurhúsalofttegunda sem ógna jafnvæginu í loftslagi jarðar. Um 2/3 af uppsöfnun CO2 í andrúmslofti frá 1850 stafar frá bruna jarðefnaeldsneytis á síðustu 150 árum. Það vill hins vegar gleymast í umræðunni að 1/3 af þessari CO2 mengun stafar frá breyttri landnotkun, eyðingu skóga, landhnignun og uppblæstri. Það má því líta á koltvísýringinn sem auðlind á villigötum.

Binding kolefnis er áríðandi verkefni
Tvær meginleiðir eru til að koma í veg fyrir hættu á loftslagsbreytingum af mannavöldum; draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda með öllum tiltækum ráðum og skila hluta af koltvísýringnum aftur til jarðar með aukinni gróðurræktun. Gróðurinn umbreytir koltvísýringnum í lífræn efni sem geymist að stórum hluta í jarðvegi og er undirstaða frjósemi jarðar. Styrkur koltvísýrings í lofthjúpnum er nú þegar það hár að þessi leið er óhjákvæmileg samhliða því sem dregið er úr loftmengun.

Landhnignun og uppblástur hafa leikið Ísland grátt í aldanna rás. Það táknar að gríðarlegt kolefni hefur tapast úr íslenskum vistkerfum, e.t.v. 400 sinnum meira en nemur árlegri losun gróðurhúsalofttegunda. Enn losnar gríðarlegt magn gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið frá Íslandi, m.a. vegna rotnunar lífræns efnis á illa förnu landi.

Þessu kolefni þarf að skila til baka til að bæta vistkerfi landsins. Ávinningurinn er margþættur og hagnaður hins íslenska samfélags mikill af landbótum, svo sem landgræðslu og skógrækt, er mikill bæði í bráð og lengd. Með landbótum vex frjósemi landsins. Bæta má vatnsmiðlun, jafna sveiflur í vatnsrennsli og auka framleiðni í laxveiðiám. Meðal fjölmargra annarra þátta má nefna betri skilyrði til útivistar, ferðamennsku, skjól, dýralíf og veiði, aukna tegundafjölbreytni og virðisauka af landi. Kolefnisbinding m.t.t. loftslagsverndar eru svo verðmæti út af fyrir sig, aukavinningurinn sem getur orðið mjög verðmætur á kvótamörkuðum í framtíðinni.

Hve mikið er hægt að binda
Rannsóknir hafa leitt í ljós að kolefnisbinding er mikil hér á landi, bæði með landgræðslu og skógrækt. Um 60-80% af kolefninu binst í jarðvegi, jafnvel meira í landgræðslu og því valda hinir sérstæðu eiginleikar eldfjallajarðvegsins auk þess sem rotnun lífræns efnis er hægari en í heitar löndum. Breytileiki í kolefnisbindingu með landgræðslu er mikill, eða 1,5 – 5,5 tn CO2 á hektara, skv. grein Ólafs Arnalds í riti Fræðaþings landbúnaðarins 2007. Að meðaltali má e.t.v. reikna með um 2,2 tn bindingu á ári / ha og slík árleg binding heldur áfram mjög lengi, um hundruð ára uns nýju jafnvægi í kolefnisbúskap landsins er náð.

Ljóst er að möguleikar til kolefnisbindingar eru miklir á Íslandi, auk þess sem mikilvægt er að draga úr þeirri miklu losun gróðurhúsalofttegunda sem á sér stað í tötróttu landi. Þannig gæti landgræðsla og / eða ræktun skóga á um 1 milljón ha lands á Íslandi t.d. bundið meira kolefni en sem nemur allri losun gróðurhúsalofttegunda frá Íslandi af mannavöldum. En, hvaða land á ekki að græða, hvar á að rækta skóg og með hvaða tegundum? Um slíkt eru skiptar skoðanir. Því þurfa stórtæk áform um landbætur að byggjast á vandaðri undirbúningsvinnu til að tryggja þjóðarsátt um slík verkefni. /Andrés Arnalds, Landgræðslu ríkisins.

Desertification and Land Restoration – The Climate Connection

By | Eldri fréttir | No Comments

7. desember 2015. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið stendur að hliðarviðburði á loftslagsráðstefnu SÞ (COP21) í París á morgun, þriðjudaginn 8. desember kl. 12:15–13:45 að staðartíma (kl. 11:15-12:45 að íslenskum tíma). Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, flytur ávarpsorð en þau Sveinn Runólfsson landgræðslustjóri og Hafdís Hanna Ægisdóttir forstöðumaður Landgræðsluskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna munu flytja erindi. Erindi Sveins ber yfirskriftina Revegetation and carbon sequestration en erindi Hafdísar Hönnu From training to action: Creating change agents of the future.

Nánar um dagskrá, sjá meðfylgjandi auglýsingu hér fyrir neðan.
Streymt verður frá viðburðinum (11:15–12:45 að íslenskum tíma):
www.norden.org/cop21/streaming
http://norden.org/cop21-08/12-13.45

Fimmti desember er dagur jarðvegs

By | Eldri fréttir | No Comments

5. desember 2015. – Ástand jarðvegsauðlindar heimsins er heiti á yfirgripsmikilli samantekt eftir heimsálfum. Í tilefni árs jarðvegs 2015 lét FAO vinna skýrslu um ástand jarðvegsauðlindarinnar á heimsvísu. Hún var kynnt á fundi í höfuðstöðvum FAO í Róm þar sem haldið var upp á 5. desember, alþjóðlegan dag jarðvegs. Skýrslan var unnin af fagráði Global Soil Partnership og byggir á rannsóknarniðurstöðum og öðru efni frá 200 jarðvegsfræðingum frá 60 löndum víðsvegar um heiminn.
Skýrslan gefur heildaryfirsýn yfir núverandi ástand jarðvegsins, hvaða hlutverki hann gegnir varðandi virkni vistkerfa almennt sem og hvað ógnar helst jafnvægi og virkni jarðvegsins, sérstaklega með tilliti til landbúnaðarnota. Helstu atriði skoðuð nánar eru: jarðvegseyðing, -þjöppun, -súrnun, -mengun, yfirborðslokun, -söltun, -bleyting, næringarójafnvægi, kolefnistap og tap á lífbreytileika.

Skýrslan sýnir svo ekki verður um villst að mikill meirihluti af jarðvegs heimsins, sem nýttur er til margvíslegs landbúnaðar (t.d. ræktunar- eða beitiland) hnignar og er langt frá mögulegri vistgetu. Þó hægt sé að finna afmörkuð dæmi þar sem ástand jarðvegs virðist batna sökum bættrar meðferðar þá eru mun fleiri dæmi sem sýna áframhaldandi hnignun auðlindarinnar.

Samkvæmt skýrslunni tapast árlega á milli 25 og 40 milljarðar tonna af frjósamri mold frá landbúnaðarlandi heimsins vegna ósjálfbærrar stýringar á nýtingu auðlindarinnar. Tapið dregur stórlega úr getu landbúnaðarvistkerfanna til að geyma og miðla kolefni, næringarefnum og vatni ásamt því að skerða framleiðslugetu kerfanna. Jarðvegstapið leiðir til að mynda árlega til 7,6 milljón tonna skerðingar á kornuppskeru heimsins. Höfundar skýrslunnar leggja áherslu á að ef ekki verður brugðist hratt við þessu ástandi þá er fyrirséð að kornuppskera heimsins muni skerðast um 252 milljónir tonna fyrir árið 2050, fyrst og fremst vegna rangrar meðferðar á ræktunarlandi. Til að rækta þetta magn af korni þarf um það bil 1,5 milljónir ferkílómetra af frjósömu landi eða um það bil stærð alls ræktunarlands Indlands.

Í skýrslunni kemur fram að það er misjafnt eftir heimsálfum hvaða jarðvegsógnanir eru ríkjandi. Til dæmis eru eru jarðvegseyðing, kolefnistap, næringarójafnvægi og jarðvegssúrnun talin ógna jarðvegi Afríku sunnan Sahara hvað mest, en í Evrópu eru það helst yfirborðslokun (malbik/steinsteypa), söltun, mengun, kolefnistap og næringarójafnvægi sem ógna heilbrigði og virkni jarðvegsins. Þ.P.
Sjá nánar í samantekt úr skýrslunni á eftirfarandi slóð:

ftp://ext-ftp.fao.org/nr/data/Upload/SWSR_MATTEO/Technical_Report/Web/Soil_Report_Summary_B5_012_DEF.pdf

 

Íslensk jarðvegsvernd sett í alþjóðlegt samhengi

By | Eldri fréttir | No Comments

23. nóvember 2015. Nýlega kom út grein eftir Önnu Maríu Ágústsdóttur, Svein Runólfsson og Þórunni Pétursdóttur í bók sem ber heitið Innovative Strategies and Policies For Soil Conservation. Bókin er í ritröðinni Advances in GeoEcology, á vegum International Society of Soil Science, og Catena Verlag sem gefur bókina út.
Greinin ber heitið Icelandic Soil Conservation in the European Context: Laws, Policies and Approaches. Þar er fjallað um aldarlanga baráttu Íslendinga við landhnignun og landeyðingu og hún sett í alþjóðlegt samhengi. Jarðvegurinn, þessa örþunna skán á yfirborði jarðarinnar, er sá grunnur sem allt líf byggir á. Moldin er einnig samnefnari helstu umhverfismála dagsins í dag og það sem tengir saman stóru umhverfissáttmálana: um aðgerðir gegn eyðimerkurmyndun (UNCCD), um líffræðilega fjölbreytni (CBD), um loftlagsbreytingar (UNFCCC), og Ramsar samninginn um verndun votlendis.

Sömu ferlar og orsakir, sem ollu landhnignun á Íslandi síðustu árhundruðin, eru að valda samskonar vandamálum um heim allan. Álag á vistkerfi dregur úr landgæðum og minnkar getu vistkerfa til að bregðast við röskun og dregur úr möguleikum þeirra á að ná sér eftir áföll. Lausnir við landhnignun á Íslandi eru líka sameiginlegar með öðrum samfélögum. Á Íslandi og í Evrópu er skortur á sterkri löggjöf um jarðvegsvernd. Rætt er um leiðir við slíkar aðstæður til að ná fram árangursríkri jarðvegsvernd og sjálfbærri nýtingu lifandi náttúruauðlinda sem er mikilvægt að tileinka sér svo við og börnin okkar eigum góða framtíð í vændum.

Tilvitnun í ritið:
Ágústsdóttir A. M., Runólfsson S. & Pétursdóttir Þ. 2015. Icelandic Soil Conservation in the European Context: Laws, Policies and Approaches. Í: Fullen M. A. et al. (ritstj.), Innovative strategies and policies for soil conservation, Advances in GeoEcology vol. 44, Catena VERLAG GMBH, ISBN 978-3-923381-62-3, bls 91-99.