All Posts By

askell

Meistararitgerð um melgresi

By | Fréttir | No Comments

1.6.2017 / Þriðjudaginn 30. maí varði Guðrún Stefánsdóttir meistararitgerð sína í landgræðslufræðum frá Auðlinda- og umhverfisdeild Landbúnaðarháskóla Íslands. Ritgerðin fjallar um framvindu og uppbyggingu vistkerfa á melgresissvæðum. Melgresi er lykiltegund í landgræðslu á Íslandi og því mikill fengur að þessari rannsókn. Helstu niðurstöður voru þær að hefðbundnar mæliaðferðir vanmætu stórlega kolefnisbindingu í mellöndum.

Í verkefninu rannsakaði Guðrún meðal annars uppsöfnun kolefnis (C) og niturs (N) í tveimur um 40 ára aldursröðum melhóla; annars vegar í hólum sem mynduðust af sjálfsáðum melplöntum í Surtsey en hins vegar í misgömlum melsáningum í Leirdal, sandsléttu á milli Búrfells og Heklu, þar sem Landgræðsla ríkisins hefur sáð melgresi til að hefta ösku í kjölfar Heklugosa. Niðurstöður Guðrúnar sýna meðal annars mun meiri uppsöfnun kolefnis í Leirdal en Surtsey, bæði í rótum og jarðvegi.

Á báðum rannsóknarsvæðunum var meginaukningin á kolefnisforða vistkerfisins fyrir neðan 30 cm. Þetta sýnir að 30 cm stöðluð sýnatökudýpt sem notuð er í landsúttektum til að mæla kolefnisbindingu við landgræðslu mælir aðeins hluta kolefnisforðans í slíkum vistkerfum. Mun meira nitur safnaðist árlega upp í melhólunum í Surtsey en fellur á þá með ákomu. Sennilegasta skýringin á því er sú að hinar löngu rætur melgresisins teygja sig út í ógrónu svæðin milli hólanna og flytja nitur inn í þá. Melgresishólarnir er því lykilsvæði fyrir frekari jarðvegsmyndun og framvindu á sandsvæðum.

Aðalleiðbeinandi Guðrúnar var Ása L. Aradóttir, prófessor við LBHÍ. Meðleiðbeinendur voru Bjarni Diðrik Sigurðsson, prófessor við LBHÍ og Guðmundur Halldórsson, rannsóknastjóri hjá Landgræðslu ríkisins. Prófdómari var Brynhildur Bjarnadóttir, lektor við Háskólann á Akureyri.

Nánari upplýsingar má nálgast hér.

Átján þættir um landgræðslumál á ÍNN

By | Fréttir | No Comments

30.5.2017 / Í upphafi árs hófst gerð sjónvarpsþátta á vegum Landgræðslunnar. Þættirnir voru sýndir á sjónvarpsstöðinni ÍNN og alls hafa verið búnir til 18 þættir en í þeim hefur verið fjallað um landgræðslu og mál henni tengd. Hér fyrir neðan má sjá um hvað var fjallað og hægt er að smella á slóð til að sjá þættina sem eru varðveittir á heimasíðu ÍNN.  Þeir verða einnig á heimasíðu Landgræðslunnar fyrir næstu helgi.  Þáttagerð er lokið að sinni en að óbreyttu verður  henni framhaldið þegar haustar.

1. þáttur 16. janúar 2017
Viðmælendur fyrsta þáttar voru þeir Magnús H. Jóhannsson, sviðsstjóri Þróunarsviðs Landgræðslunnar og Kristinn Jónsson, bóndi á Staðarbakka í Fljótshlíð. Magnús ræðir einkum um nýtingu seyru til landgræðslu en Kristinn um landgræðslu á afréttinum og einnig um landgræðslu og landbætur í landi Staðarbakka. SMELLA HÉR.

2. þáttur 23. janúar 2017
Rætt var við Guðmund Halldórsson, rannsóknastjóra Landgræðslunnar um hlýnun lofthjúpsins og fjölgun skógarmeindýra. Þá fjallar Guðmundur um innflutning plantna til Íslands og hættur sem eru því samfara. Í þættinum er einnig rætt við Esther Guðjónsdóttur, formann Landgræðslufélags Hrunamanna um félagið. Esther segir auk þess frá safni sem hún er með heima hjá sér á Sólheimum í Hrunamannahreppi. SMELLA HÉR.

3. þáttur 30. janúar 2017
Jón Jónsson, fræverkunarstjóri Landgræðslunnar segir frá fræverkun í Gunnarsholti, Hafdís Hanna Ægisdóttir talar starfsemi Landgræðsluskólans, en Guðmundur Halldórsson, rannsóknastjóri Landgræðslunnar fjallar um meindýrið ertuyglu. SMELLA HÉR.

4. þáttur 6. febrúar 2017
Í fjórða þætti er rætt við Ólaf Arnalds, prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands. Ólafur og Ása Aradóttir, sem einnig er prófessor við Landbúnaðarháskólann, eru höfundar bókarinnar Lesum og læknum landið en um hana, og margt annað, er rætt um í þættinum. SMELLA HÉR.

5. þáttur 13. febrúar 2017
Í fimmta þætti lá leiðin í Sólheimahjáleigu í Mýrdal en þar býr Einar Freyr Elínarson. Í Sólheimahjáleigu er fjárbú en ekki er síður gert út á ferðamenn. Einar Freyr tekur þátt í verkefninu Bændur græða landið og með aðstoð Landbótasjóðs hefur hann borið lífrænan áburð á örfoka land. SMELLA HÉR.

6. þáttur 20. febrúar 2017
Rætt er við Ásgeir Árnason, bónda í Stóru-Mörk sem er við norðurmörk Eyjafjalla. Stóra-Mörk er síðasti bærinn sem ekið er framhjá á leiðinni í Þórsmörk. Ásgeir hefur mikið unnið í landgræðslu á liðnum árum og áratugum. SMELLA HÉR.

7. þáttur 27. febrúar 2017
Í þættinum er spjallað við þau Hlyn Óskarsson, dósent við Landbúnaðarháskóla Íslands og Sunnu Áskelsdóttur, verkefnastjóra hjá Landgræðslu ríkisins. Umræðuefnið er endurheimt votlendis og gróðurhúsalofttegundir. SMELLA HÉR.

8. þáttur 6. mars 2017
Í þessum þætti er rætt við Örn Þór Halldórsson, verkefnastjóra hjá Landgræðslunni um göngustíga og Ólaf Arnalds, prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands um jarðvegsrof. SMELLA HÉR.

9. þáttur 13. mars 2017
Rætt er við Guðmund Þorvaldsson á Bíldsfelli II í Grafningi og Finnboga Magnússon framkvæmdastjóra Jötunn Véla. Guðmundur segir frá landgræðslu á jörð sinni en Finnbogi ræðir um tæknibyltingar í landbúnaði sem sannarlega skipta máli þegar kemur að landgræðslu- og umhverfismálum. SMELLA HÉR.

10. þáttur 20. mars 2017
Í þættinum er rætt við Árna Bragason, landgræðslustjóra. Árni fjallar meðal annars um fæðuöryggi, rafvæðingu bíla og báta og nauðsyn landgræðslu, skógræktar og kornræktar svo eitthvað sé nefnt. SMELLA HÉR.

11. þáttur 27. mars 2017
Til að tryggja sjálfbæra nýtingu gróðurauðlinda landsins er nauðsynlegt að koma á heildstæðu ferli um vöktun gróðurs og jarðvegs á Íslandi. Í mars var skrifað undir samkomulag um mat á gróðurauðlindum landsins. Um þetta samkomulag er fjallað í þættinum. SMELLA HÉR.

12. þáttur 3. apríl 2017
Í þættinum er fjallað um sláturúrgang og framleiðslu á kjötmjöli. Græðum landið heimsótti Kjötmjölsverksmiðjuna Orkugerðina sem er eina fyrirtækið sinnar tegundar hér á landi. Rætt við Guðmund Tryggva Ólafsson, stjórnarformann kjötmjölsverksmiðjunnar, Víði Þórsson, verksmiðjustjóra og Hrein Óskarsson, sviðsstjóra hjá Skógræktinni. SMELLA HÉR.

13. þáttur 10. apríl 2017
Í þættinum er rætt við Bjarna Másson á Háholti, bónda og formann Landbótafélags Gnúpverja um landgræðslu. Þá segir Garðar Þorfinnsson, Landgræðslunni, frá Landbótasjóði og Anne Bau líffræðingur fjallar um spírunarprófanir. SMELLA HÉR.

14. þáttur 1. maí 2017
Þátturinn fjallar um Hagagæði en það er verkefni á vegum Landgræðslunnar og Félags hrossabænda. Verkefninu er ætlað er að tryggja sjálfbæra nýtingu beitarlands, velferð hrossa, auka ábyrgð landnotenda, sem vörslumanna lands og að auka umhverfisvitund landeigenda og landnotenda. SMELLA HÉR.

15. þáttur 8. maí 2017
Í þessum þætti er rætt við Andrés Arnalds, verkefnisstjóra hjá Landgræðslunni og Jón Jónsson, fræverkunarstjóra Landgræðslunnar. Andrés ræðir m.a. um göngustígagerð, Bændur græða landið og auglýsingar fyrirtækja í ferðaþjónustu. Jón var að dreifa kjötmjöli í Koti á Rangárvöllum þegar hann var tekinn tali. SMELLA HÉR.

16. þáttur 15. maí 2017
Í þessum þætti er rætt við Svein Ingvarsson, bónda í Reykjahlíð á Skeiðum um landgræðslu á svæðinu. Byggð á Skeiðum stóð mikil ógn af Reykjasandi, sem er skammt frá Reykjahlíð. Fyrstu skrefin í landgræðslu á vegum ríkisins voru tekin á Reykjasandi sumarið 1907 – og það bjargaði byggðinni. SMELLA HÉR.

17. þáttur 22. maí 2017
Í þættinum er rætt við Hrafnkel Karlsson bónda á Hrauni í Ölfusi. Hrafnkell segir frá landgræðslu, baráttunni við sandinn og hlunnindajörðinni Hrauni. Það er ekki langt síðan stundum þurfti að fá ýtu til að ryðja sandsköflum á Þorlákshafnarveginum en nú er það liðin tíð. SMELLA HÉR.

18. þáttur 29. maí 2017
Þátturinn er helgaður umhverfissamtökunum Landvernd. Hlutverk Landverndar er að standa vörð um íslenska náttúru og vera virkur þátttakandi í stefnumótun, fræðslu og upplýstri ákvarðanatöku í málum er varða landnotkun, auðlindir og umhverfi. SMELLA HÉR.

Sagnagarður, fræðslu- og kynningarsetur Landgræðslunnar, verður opinn í sumar

By | Fréttir | No Comments

15.5.2017 / Sagnagarður, fræðslu- og kynningarsetur Landgræðslunnar í Gunnarsholti, verður opinn í sumar. Aðgangur er ókeypis – þó með þeirri undantekningu að greiða þarf gjald ef óskað er leiðsagnar. Í Sagnagarði í Gunnarsholti er sögu gróður- og jarðvegseyðingar á Íslandi gerð skil í máli og myndum. Sagt er frá baráttu við afleiðingar eldgosa og óblíð náttúruöfl. Saga frumherjanna í landgræðslu er rakin og barátta þeirra við vantrú almennings. Greint er frá 100 ára sögu landgræðslustarfs á Íslandi og lýst helstu verkefnum í endurheimt landgæða og vistkerfa, gróðurvernd og alþjóðlegu samstarfi. Í Sagnagarði er góð aðstaða til þess að taka á móti litlum og stórum hópum.

Sagnagarður verður opinn virka daga í maí frá kl. 10 – 16.
Frá 1. júní til 31. ágúst verður opið alla daga vikunnar frá kl 10 – 17.

Aðgangseyrir
Aðgangur er ókeypis

Gjald er innheimt ef óskað er eftir leiðsögn
Hópar (10 manns og fleiri) geta óskað eftir leiðsögn. Panta þarf leiðsögn  með þriggja daga fyrirvara og greiða fyrir hana.

Hópur greiðir samkvæmt  eftirfarandi gjaldskrá:
Fullorðnir (18 ára og eldri) kr. 1500
Eldri borgarar (67 ára og eldri)  kr. 750
Nemendur kr. 750
Börn þurfa ekki að greiða aðgangseyri.
Greiða þarf fyrir leiðsögn hópa með beiðni eða með reiðufé. Ef greitt er með peningum þarf að greiða fyrir alla í einu og verður fararstjóri að annast söfnun aðgangseyris hjá hópnum.
Vinsamlega hringið í síma 488 3000 til að bóka leiðsögn og fá nánari upplýsingar.

Um Sagnagarð á íslensku

Um Sagnagarð á ensku

Kort af svæðinu

160 milljónir í átak í landvörslu í sumar

By | Fréttir | No Comments

15.5.2017 / Ríkisstjórnin hefur ákveðið að tillögu umhverfis- og auðlindaráðherra að ráðast í átak í landvörslu í sumar. Verður 160 milljónum veitt aukalega til landvörslu á stöðum í náttúru Íslands sem fjölsóttir eru af ferðamönnum. Um er að ræða 70% aukningu landvarðavikna sem ráðið er í til skemmri tíma. Þetta kemur fram á heimasíðu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.

Aukin landvarsla og umsjón með viðkvæmum svæðum er að mati ráðuneytisins ein skilvirkasta leiðin til að vernda náttúru Íslands nú þegar stefnir í metár í heimsókn ferðamanna til landsins. Viðvera landvarða er einnig öryggismál og er ekki síst mikilvæg á þeim svæðum sem enn vantar upp á að innviðir séu fullnægjandi.

Umhverfisstofnun og Vatnajökulsþjóðgarður munu hafa umsjón með verkefninu sem beinist m.a. að lengingu viðveru landvarða nú í vor og haust í samræmi við lengingu ferðamannatímabilsins.

Hekla

Vistkerfi og öskufall

By | Fréttir | No Comments

8.5.2017 / Út er komin lokaskýrsla verkefnisins „GróGos – Mat á hættu á síðkominni dreifingu gosefna“. Það er hluti af heildarhættumati vegna eldgosa á Íslandi (GOSVÁ). Verkefnið er styrkt af Ofanflóðasjóði.  Verkefninu var ætlað að þróa aðferðir til að meta getu vistkerfa til að standast öskufall og hindra flutning ösku á síðari stigum. Fyrirliggjandi gögn og vettvangsrannsóknir voru nýtt til að þróa flokkunarkerfi þar sem svæðum í nágrenni Heklu var gefin einkunn sem spáir fyrir um hversu þolin vistkerfin séu gagnvart öskufalli og hversu líkleg þau séu til að hindra frekari öskudreifingu.

Þessa aðferðafræði má nýta til að meta þol lands á eldvirkum svæðum gagnvart öskufalli og öskudreifningu, draga fram helstu áhættusvæði og leggja mat á hvar er mikilvægt að styrkja gróður eða hefja landgræðsluaðgerðir, sem forvörn gagnvart öskufalli. Sjá skýrsluna.

Flokkun svæða í nágrenni Heklu með tilliti til þess hversu viðkvæm þau eru fyrir öskufalli. Rauð svæði eru viðkvæmust en græn svæði þolnust.

 

Vefnámskeið – Landgræðsla til sjálfbærrar þróunar með aðkomu viðskiptalífsins

By | Fréttir | No Comments

7.5.2017 / Landgræðsluskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna hefur, ásamt samstarfsaðilum, þróað netnámskeið um þau tækifæri sem landgræðsla skapar til að stuðla að sjálfbærri þróun. Námskeiðið nefnist Landscape Restoration for Sustainable Development: a Business Approach.

Það gefur heildstæða þekkingu á landhnignun og landgræðslu bæði út frá sjónarhóli náttúruvísinda annars vegar og viðskipta- og atvinnulífs hins vegar. Í námskeiðinu er útskýrt hvernig landgræðsla bætir landgæði og frjósemi lands sem skilar sér í fjárhagslegum og samfélagslegum ávinningi og styður þannig við afkomu og velferð einstaklinga og samfélaga. Námskeiðið er sérstaklega sniðið að nemendum og sérfræðingum í viðskiptum og stjórnun en er í boði fyrir alla sem hafa áhuga á að viðhalda og endurheimta landgæði.

Námskeiðið er svokallað MOOC-námskeið (Massive Open Online Course) sem fer alfarið fram á netinu og er opið öllum án endurgjalds. Það er því hægt að ná til mikils fjölda fólks í einu og gefa breiðum hópi einstaklinga tækifæri til að mennta sig óháð staðsetningu og efnahag. Jafnframt skapar þessi gerð námskeiða sóknarfæri til að vekja athygli á aðkallandi málefnum samtímans.

MOOC-námskeiðið er þróað í samstarfi ENABLE verkefnisins sem styrkt er af Erasmus+ menntaáætlun Evrópusambandsins. Auk Landgræðsluskólans eru það Rotterdam School of Management, Commonland, Estoril Conferences og Spanish National Research Council sem standa að ENABLE verkefninu. Við þróun og gerð námskeiðsins átti Landgræðsluskólinn einnig mjög gott samstarf við sérfræðinga Landbúnaðarháskóla Íslands og Landgræðslu ríkisins, sem miðla í námskeiðinu af þekkingu sem þessar stofnanir búa yfir.

MOOC-námskeiðið er aðgengilegt á vef Coursera.org þar sem hægt er að skrá sig í námskeiðið.

Öxlum ábyrgð – Hvað get ég gert? Málþing um ábyrga ferðamennsku

By | Fréttir | No Comments

30.4.2017 / Ferðafélag Íslands, í tilefni af 90 ára afmæli sínu, og Landgræðslan boða til málþings um hlutverk útivistarfélaga og ferðaþjónustunnar í að vernda og tryggja aðgengi að náttúrunni. Málþingið verður haldið fimmtudaginn 4. maí kl. 15-17 í sal Ferðafélags Ísland, Mörkinni 6.

Náttúra Íslands er hornsteinn vaxandi útivistar og ferðaþjónustu. Álag á land er víða orðið mikið og umkvartanir heyrast frá landeigendum vegna ágangs og álags. En geta markmið verndar og nýtingar farið saman? Hvernig er unnt að efla starf almennings og hinna fjölmörgu hagsmunaaðila að verndun þessarar auðlindar. Á hvaða stigi er landlæsi þeirra sem fara um landið eða vinna að úrbótum til að draga úr álagsskemmdum? Er skýrari stefnumörkunar og verklagsreglna þörf til að tryggja að mannanna verk falli betur að náttúrunni og landslagsheildum. Hver á að vera talsmaður landsins?

Helen Lawless er aðgengis- og verndunarfulltrúi Mountaineering Ireland. Í starfi sínu hefur hún náð miklum árangri í að bæta samskipti landeigenda og göngufólks. Helen flytur erindi á málþinginu. Erindið nefnir hún Helping the Hills – Raising conservation awarness.

Helen hefur stuðlað að því með eldmóði sínum að nú starfa umhverfisnefndir í öllum ferðafélögum sem heyra undir samtökin. Helen hefur einnig verið leiðandi í að móta sýn og koma á stefnumótun og móta sýn um framtíð lands sem notað er til útivistar. Ljóst er að Helen Lawless hefur af mörgu að miðla sem á erindi til okkar í umræðu hlutverk útivistarfólk og almennings í að tryggja verndun og aðgengi að þeirri náttúruauðlind sem er okkur svo kær.

Nýjar greinar komnar út í Icelandic Agricultural Sciences

By | Fréttir | No Comments

19.4.2017 / Þrjár fyrstu greinarnar í hefti 30/2017 af alþjóðlega vísindaritinu Icelandic Agricultural Sciences voru að koma út. Þessar þrjár mjög áhugaverðu greinar fjalla um ólík efni og hægt er að nálgast ritið með því að smella hér.   Fyrsta greinin nefnist á íslensku „Ástæður bjögunar, erfðaframför og breytingar á erfðafylgni fyrir kjötmat og ómmælingar í íslenska sauðfjárstofninum“ og er eftir Jón Hjalta Jónsson og Ágúst Sigurðsson.
Grein númer tvö í ritinu nefnist „Yfirlit um byggkynbætur og yrkjatilraunir á Íslandi 1987-2014“ eftir Hrannar Smára Hilmarsson, Magnus Göransson, Morten Lillemo, Þórdísi Önnu Kristjánsdóttur, Jónatan Hermannsson og Jón Hallsteinn Hallsson.
Grein númer þrjú í ritinu nefnist „Stofn gæsamatar (Arabidopsis thaliana) frá Íslandi greindur með aðferðum frumuerfðafræði og raðgreiningu erfðamengis“ eftir Terezie Mandáková, Hjört Þorbjörnsson, Rahul Pisupati, Ilka Reichardt, Martin A. Lysak og Kesara Anamthawat-Jónsson.

…………………..
Ástæður bjögunar, erfðaframför og breytingar á erfðafylgni fyrir kjötmat og ómmælingar í íslenska sauðfjárstofninum eftir Jón Hjalta Jónsson og Ágúst Sigurðsson.

Höfundar könnuðu hvort kynbótamat fyrir kjötmatseiginleika hjá íslensku sauðfé væri bjagað vegna vals á grundvelli dóma á lifandi lömbum. Einnig að athuguðu þeir áhrif úrvals á erfðafylgni fitu og gerðar sláturlamba og erfðaframfarir í stofninum. Erfðastuðlar voru metnir með gögnum fyrir árin 2000-2013 frá Bændasamtökum Íslands aðskilið fyrir mismunandi tímabil. Niðurstöður kynbótamats með tvíbreytugreiningu á kjötmatseiginleikum voru bornar saman við kynbótamat einnig keyrt með ómmælinganiðurstöður. Erfðafylgni var metin 0,41 árin 2001-2003 en 0,29 og 0,26 fyrir 2006-2008 og 2011-2013. Kynbótamat fyrir gerð reyndist bjagað hjá hrútum sem mikið er sett á undan í tvíbreytugreiningunni en engin merki svipfarsvals sáust gagnvart fitunni. Erfðaframfarir voru metnar -0,05 staðalfrávik erfða á ári fyrir fitu og 0,08 staðalfrávik erfða á ári fyrir gerð.
Höfundar komast að þeirri niðurstöðu að fjölbreytu kynbótamat og minnkandi erfðafylgni geti stuðlað að enn meiri ræktunarframförum til framtíðar. Þetta eru því afar áhugaverðar niðurstöður fyrir alla þá sem stunda rannsóknir á kynbótamati sauðfjár og koma niðurstöðum til ræktenda.
…………………………………..
Yfirlit um byggkynbætur og yrkjatilraunir á Íslandi 1987-2014  eftir Hrannar Smára Hilmarsson, Magnus Göransson, Morten Lillemo, Þórdísi Önnu Kristjánsdóttur, Jónatan Hermannsson og Jón Hallsteinn Hallsson.

Höfundar ráðast í það mikla verk að gefa yfirlit yfir kynbætur á byggi og yrkjatilraunir sem gerðar voru hérlendis á 28 ára tímabili, frá 1987 til 2014. Samanburðartilraunir fóru fram á 40 stöðum á landinu á tímabilinu, en tilraunastöðunum fækkaði og arfgerðum í hverri tilraun fjölgaði að jafnaði eftir því sem leið á tímabilið. Þetta er fyrsta samantekt á því mikla tilraunastafi sem unnið hefur verið á þessum 28 árum. Ein athyglisverðasta niðurstaða greinarinnar er að uppskera í íslensku tilraunum jókst á sama tíma og ræktunartímabilið styttist eftir sem leið á rannsóknatímann. Þetta getur bæði stafað af góðum árangri íslenska kynbótastarfsins og breyttum veðurfarsaðstæðum. Þá skiluðu íslensku kynbótalínurnar ekki aðeins meiri uppskeru í tilraunum eftir sem á leið heldur þroskuðust þær einnig fyrr.

Ræktun byggs á jaðri heimskautasvæða eins og Íslandi er á mörkum þess mögulega, sem endurspeglast meðal annars í stuttri ræktunarsögu byggs hérlendis. Mikilvægi byggræktunar hefur aukist undanfarin ár fyrir íslenskan landbúnað, sem meðal annars hefur verið skýrt sem afleiðing prófana á erlendum byggyrkjum og ekki síður kynbóta á íslenskum yrkjum fyrir íslenskar aðstæður, en einnig vegna batnandi umhverfisskilyrða. Niðurstöðurnar sem kynntar eru hér gefa gott yfirlit yfir sögu kynbótaverkefnisins og eru því mikilvægar áframhaldandi byggyrkjatilraunum fyrir íslenskan landbúnað og geta einnig nýst öðrum sambærilegum verkefnum á jaðarsvæðum í heiminum.

…………………………………..

Stofn gæsamatar (Arabidopsis thaliana) frá Íslandi greindur með aðferðum frumuerfðafræði og raðgreiningu erfðamengis eftir Terezie Mandáková, Hjört Þorbjörnsson, Rahul Pisupati, Ilka Reichardt, Martin A. Lysak og Kesara Anamthawat-Jónsson.

Það er ekki á hverjum degi sem ný plöntutegund finnst á Íslandi, en hér greina höfundar einmitt frá því. Latneska heitið á plöntunni er Arabidopsis thaliana og fékk hún íslenska heitið gæsamatur. Þessi nýja tegund fannst í maí 2015 á jarðhitasvæði við Deildartunguhver á Vesturlandi. Þurrkuðum plöntum var komið fyrir í plöntusafni AMNH og sýnum var safnað fyrir litningagreiningu og raðgreiningu erfðamengis. Nú vill svo til að fjöldi greininga er til víðsvegar frá í heiminum á erfðaefni gæsamatar, þannig að hægt var að rekja skyldleika íslensku plantnanna. Raðgreining sýndi mestan skyldleika við sýni frá Svíþjóð, en þó með lágum skyldleikastuðli. Því er niðurstaðan sú að þótt íslenski gæsamaturinn sé skyldari stofnum frá Skandinavíu en stofnum annars staðar frá, hefur hann upphaflega ekki borist frá neinum af þeim stofnum sem fyrirfinnast í safni 1001 erfðamengja gæsamatar víðsvegar að úr heiminum. Nú hafa sýni frá Íslandi bæst í safnið og þó okkur flestum þyki skemmtilegast að vita um nýja plöntutegund á Íslandi þá eru sérfræðingar erlendis sennilega enn spenntari fyrir raðgreiningunni rannsókn höfunda á skyldleika íslensku plantnanna við gæsamat annars staðar í heiminum.

Opið hús í Sagnagarði á sumardaginn fyrsta

By | Fréttir | No Comments

18.4.2007 / Á sumardaginn fyrsta verður opið hús frá kl. 13 – 17 í Sagnagarði í Gunnarsholti.

Markmið Landgræðslunnar eru verndun gróðurs og jarðvegs og bætt landgæði. En hvernig verður þessum markmiðum náð?

Árni Bragason, landgræðslustjóri, flytur stutta fyrirlestra um ofangreint í Sagnagarði kl. 14 og aftur kl. 16 á sumardaginn fyrsta, 20. apríl.

Allir velkomnir. Kaffi á könnunni!

Kort sem sýnir leiðina í Sagnagarð

Landgræðslan óskar eftir að ráða verkefnisstjóra og héraðsfulltrúa

By | Fréttir | No Comments

4.4.2017 / Landgræðsla ríkisins óskar eftir að ráða verkefnisstjóra með starfsstöð í Gunnarsholti til að stýra nýju umfangsmiklu verkefni um mat og vöktun á gróðurauðlindum landsins. Einnig leitar Landgræðslan eftir héraðsfulltrúa en aðalstarfssvæði hans verður á Suðurlandi.

Verkefnisstjóri – mat á gróðurauðlindum

Landgræðsla ríkisins óskar eftir verkefnisstjóra með starfsstöð í Gunnarsholti til að stýra nýju umfangsmiklu verkefni um mat og vöktun á gróðurauðlindum landsins. Markmið verkefnisins er tvíþætt. Annars vegar að skila með reglubundnum hætti heildarmati á ástandi gróður- og jarðvegsauðlinda landsins og gera grein fyrir breytingum þar á. Hins vegar að þróa sjálfbærnivísa fyrir nýtingu gróður- og jarðvegsauðlinda landsins. Nánari upplýsingar um verkefnið má finna í samkomulagi Atvinnuvega- og nýsköpunarráðaneytisins, Landgræðslu ríkisins, Bændasamtaka Íslands og Landssamtaka sauðfjárbænda, sjá nánar á vef Landgræðslunnar .

Í starfinu felst þróunarvinna, verkstjórn, skipulag, framkvæmd og samskipti við vísindamenn og hagsmunaaðila. Verkefnisstjóri mun, ásamt teymi innan Landgræðslunnar, bera ábyrgð á framgangi verkefnisins. Verkefnið er unnið í nánu samstarfi við faghóp sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur skipað.

Menntun og hæfni
• Frumkvæði og sjálfstæði í vinnubrögðum, færni í teymisvinnu, aðlögunarhæfni og hæfni í mannlegum samskiptum.
• Góð þekking og reynsla af verkefnastjórnun.
• Meistaragráða á sviði umhverfismála og/eða náttúruvísinda.
• Þekking á landupplýsingakerfum er kostur.
• Reynsla af vinnu við mælingar á gróðri er kostur.
• Æskilegt er að umsækjandi hafi reynslu af mati á landgæðum og þekki til beitarmála.
• Góð kunnátta í íslensku og ensku.

Um er að ræða 100% stöðu sem hentar bæði konum og körlum.
Laun eru skv. kjarasamningi ríkisins og viðkomandi stéttarfélags.
Nánari upplýsingar um starfið veita Sigurbjörg B. Ólafsdóttir starfsmannastjóri (sigurbjorg@land.is) og Árni Bragason landgræðslustjóri (arni.bragason@land.is) í síma 488 3000.

Sjá auglýsinguna í heild á Starfatorgi en þar er jafnframt hægt að fylla út umsóknareyðublað. Ferilskrá og afrit af prófskírteini skal fylgja. Einnig má senda umsókn til Landgræðslu ríkisins, Gunnarsholti, 851 Hella.

Æskilegt er að umsækjandi geti hafið störf sem fyrst. Öllum umsóknum verður svarað þegar ráðning liggur fyrir.
Umsóknarfrestur er til og með 27. apríl 2017.

………………………………………………………………………………………………………………………………………..

Héraðsfulltrúi á Suðurlandi

Landgræðsla ríkisins óskar eftir að ráða héraðsfulltrúa með aðalstarfssvæði á Suðurlandi með starfsstöð í Gunnarsholti. Héraðsfulltrúi þarf að hafa sveigjanleika og vera tilbúinn til að taka þátt í þróun starfsins og breytingum sem kunna að verða á starfinu og vinnustaðnum.

Starfs- og ábyrgðarsvið
• Öflun upplýsinga, ráðgjöf og eftirlit með verkefnum í Bændur græða landið, Landbótasjóði og öðrum landgræðsluverkefnum.
• Áætlanagerð og umsjón landgræðsluverkefna á starfssvæðinu.
• Vöktun á ástandi gróðurs og jarðvegs og fylgjast með að lögum um landgræðslu sé framfylgt.
• Aðstoð við gerð beitar- og uppgræðsluáætlana fyrir einstakar bújarðir og stærri svæði.
• Skráning landgræðsluaðgerða og eftirlit með árangri þeirra.
• Fræðsla og ráðgjöf til sveitarstjórna, landnotenda, skóla og almennings.
• Önnur verkefni.

Menntun og hæfni
• Krafist er BSc-prófs í náttúruvísindum, t.d. landnýtingu, búvísindum eða umhverfisfræðum.
• Skipulagshæfni, sveigjanleiki og hæfni í mannlegum samskiptum.
• Almenn þekking eða reynsla af landbúnaði.
• Góð kunnátta í notkun tölvu og upplýsingatækni og góð íslensku- og enskukunnátta, skilyrði.
• Þekking og reynsla af landgræðslustarfi, kostur.
• Þekking og reynsla af notkun landupplýsingakerfa, kostur.

Um er að ræða 100% stöðu, starfinu geta fylgt talsverð ferðalög, megin starfssvæðið er Suðurland. Starfið hentar bæði konum og körlum. Æskilegt er að starfsmaður geti hafið störf 1. júní 2017.
Umsóknarfrestur er til og með 27. apríl 2017.

Sjá auglýsinguna í heild á Starfatorgi en þar er jafnframt hægt að fylla út umsóknareyðublað.