All Posts By

askell

ermond2-img_9108

Lokafundur ERMOND verkefnisins

By | Fréttir | No Comments

12.12.2016 / Verkefnið ERMOND hófst í byrjun árs 2014 og lýkur nú um áramótin. Markmið þess er að stuðla að því að endurheimt vistkerfa sé í auknum mæli beitt til þess að draga úr náttúruvá. Verkefnið er styrkt af formennskuáætlun Íslands í Norðurlandaráði, auk tveggja annarra sjóða sem heyra undir Norðurlandaráð. Þátttakendur í verkefninu koma frá öllum Norðurlöndunum og Færeyjum. Verkefninu er stýrt af Landgræðslu ríkisins.

Frá fundinum í Kaupmannahöfn.

Frá fundinum í Kaupmannahöfn.

Lokafundur verkefnisins var haldinn í Kaupmannahöfn dagana 23.-24. nóvember. Þrír starfsmenn Landgræðslunnar sóttu fundinn. Þetta voru þau Anna María Ágústsdóttir, Kristín Svavarsdóttir og Guðmundur Halldórsson. Auk þess sóttu fundinn níu aðrir þátttakendur í verkefninu.

Aðaltilgangur fundarins var að vinna að yfirlitsgrein þar sem meginniðurstöður verkefnisins eru dregnar saman. Fyrir lágu voru fyrstu drög að henni sem tekin voru saman af Önnu Maríu Ágústsdóttur, Anne Tolvanen og Guðmundi Halldórssyni. Að almennum umræðum loknum skiptust fundarmenn í hópa sem unnu að mismunandi þáttum greinarinnar. Þeirri vinnu lauk um hádegi síðari fundardag og þá var staða handrits tekin saman og næstu skref ákveðin.

Að þessu loknu fór Guðmundur yfir stöðu verkefnis og þær afurðir sem fyrirhugaðar eru. Ljóst er að öllum meginmarkmiðum verkefnisins verður náð og hafa tímaáætlanir staðist að mestu. Auk yfirlitsgreinarinnar verða teknar saman greinar með niðurstöðum frá einstökum þáttum verkefnisins og skýrslur til þeirra sjóða sem styrktu verkefnið.

Sjá heimasíðu Ermond

za_1250_img_0072

Landgræðsluverðlaunin veitt í 26. skipti

By | Fréttir | No Comments

1.12.2016 / Í dag voru Landgræðsluverðlaunin 2016 afhent í Sagnagarði í Gunnarsholti. Þetta var í 26. sinn sem Landgræðsla ríkisins veitir þessi verðlaun. Landgræðsluverðlaunin eru veitt árlega einstaklingum og félagasamtökum sem hafa unnið að landgræðslu og landbótum. Með veitingu landgræðsluverðlaunanna vill Landgræðslan vekja athygli á mikilvægu starfi margra áhugamanna að landgræðslumálum. Verðlaunahafar að þessu sinni voru annars vegar hjónin Ingimundur Sigfússon og Valgerður Valsdóttir og hins vegar Landgræðslufélag Hrunamanna. Verðlaunagripirnir, Fjöregg Landgræðslunnar, eru unnir af Eik-listiðju, Miðhúsum á Fljótsdalshéraði. Sigríður Auður Arnardóttir, ráðuneytisstjóri í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu afhenti verðlaunin fyrir hönd umhverfis- og auðlindaráðherra. Í ræðu sinni sagði Sigríður Auður meðal annars: “Landgræðsluverðlaunin eru bæði viðurkenning fyrir frábært starf í þágu landgræðslu og einnig hvatning til að halda áfram á sömu braut. Verðlaunin hafa líka hvetjandi áhrif á okkur öll og þau vekja athygli á viðfangsefninu landgræðslu og mikilvægi hennar í landinu.” Á myndinni hér fyrir ofan má sjá verðlaunahafana ásamt Sigríði Auði Arnardóttur, ráðuneytisstjóra, og Árna Bragasyni, landgræðslustjóra. Sjá fleiri myndir á Facebook-síðu Landgræðslunnar.

Bjarni Maronsson héraðsráðunautur les kynningu á verkum Ingimundar og Valgerðar.

Bjarni Maronsson héraðsfulltrúi les kynningu á verkum Ingimundar og Valgerðar.

Ingimundur Sigfússon og Valgerður Valsdóttir
Hjónin Ingimundur Sigfússon og Valgerður Valsdóttir og fjölskylda þeirra, hafa um langt árabil stundað stórfellda uppgræðslu á jörðum sínum, Sigríðarstöðum í Vestur-Húnavatnssýslu og Þingeyrum í Austur-Húnavatnssýslu. Þessar jarðir liggja að sjó og á þeim eru stærstu sjávarsandar í Húnavatnssýslum. Sigríðarstaðir fóru í eyði vegna ágangs sands árið 1942 og árið 1958 var girt þar landgræðslugirðing og mestur hluti jarðarinnar gerður að landgræðslusvæði. Á yngri árum vann Ingimundur við að rækta stórt tún á örfoka og sandi orpnu landi á Sigríðarstöðum og þar hafa þau hjón staðið fyrir melgresis-, lúpínu og túnvingulssáningum og stundað trjárækt.

Á Þingeyrum hafa þau á sama hátt grætt upp stór landsvæði og unnið að skógrækt og munu uppgræðslusvæði á þessum tveimur jörðum vera vel á annað þúsund hektarar, misjafnlega langt á veg komin.

Nú í haust áttu þau frumkvæði að endurheimt votlendis á um 30 hekturum í landi Þingeyra. Þeim er mjög umhugað um fjölbreytt fuglalíf og er endurheimt votlendis m.a. liður í að bæta búsvæði fugla. Á Þingeyrum hafa þau einnig lagt áherslu á að jörðin væri nytjuð til búskapar með sjálfbærum hætti og staðið fyrir merkum rannsóknum á sögu og menningu þessa forna höfuðbóls.

Sigþrúður Jónsdóttir héraðsráðunautur les kynningu á verkum Landgræðslufélags Hrunamanna.

Sigþrúður Jónsdóttir héraðsfulltrúi les kynningu á verkum Landgræðslufélags Hrunamanna.

Landgræðslufélag Hrunamanna
Starfssvæði Landgræðslufélags Hrunamanna er Hrunamannaafréttur. Félagið var stofnað í upphafi árs 2008. Segja má að félagið hafi sprottið af áhuga manna á landbótum á afréttinum sem hafði staðið yfir um árabil. Þar komu við sögu sveitarfélagið, Kiwanisklúbburinn og sauðfjárbændur. Saga landgræðslu Hrunamanna er því mun eldri en landgræðslufélagið sjálft, en Landgræðslufélag Hrunamanna sameinaði þessa krafta.

Árið 1970 girti Landgræðslan af svæði fremst á afréttinum, rétt ofan Gullfoss og hefur síðan verið unnið þar að landgræðslu. Mikið rof var á þessu svæði, landið víða örfoka og stakar gróðurtorfur voru að blása upp.

Fyrstu áratugina var sáð og borið á innan girðingar með flugvél Landgræðslunnar í samstarfi við sveitarfélagið en upp úr 1990 var farið að vinna með dráttarvélum og handsá.

Svæðið hefur tekið miklum stakkaskiptum þó enn sé nokkuð í að land sé fullgróið. Ýmsar að ferðir hafa verið reyndar innan landgræðslugirðingarinnar auk sáningar grasfræja og áburðargjafar, s.s. sáning birkifræja, gróðurseting smárahnausa, víðisprota, lúpínu og heyþakning. Síðast en ekki síst var þar gerð tilraun með nýtingu seyru til landgræðslu með góðum árangri.

Árið 1992 hófu sauðfjárbændur uppgræðslu í Stóraveri en þar voru opin rofabörð og moldir sem tekist hefur að loka að mestu og er þar nú gróið land. Árið 2004 var farið að græða upp land við Svínárnes sem er innar á afréttinum.

Undanfarin ár hefur Landgræðslufélag Hrunamanna unnið að landgræðslu á nokkrum stöðum á afréttinum. Auk svæðis innan landgræðslugirðingarinnar er nú unnið í Stóraveri, í Svínárnesi, Merarskeiði og á Harðavelli, á Stóramel og í Skyggnishólum og við Blákvísl og Búðará. Græddar hafa verið upp moldir, rofjaðrar, sand- og melasvæði og rofabörðum lokað.

Við uppgræðsluna er lögð áhersla á að stöðva rof, hindra frekari gróður- og jarðvegseyðingu og koma af stað gróðurframvindu sem leiðir til myndunar sjálfbærra gróðurlenda. Valdar eru aðferðir sem ekki hafa óæskileg áhrif á vistkerfi né sérstæðar náttúru- og mannvistarminjar og reynt er að fella uppgræðslur að landslagi og þeim gróðri sem fyrir er.

Landgræðslufélag Hrunamanna heldur landgræðsludag í júní ár hvert. Þar mætir hópur manna, bæði fullorðnir og börn og leggja landinu lið. Bændur mæta á dráttarvélum með áburðardreifara, tínast hver í sína áttina til að bera á en aðrir taka til við handdreifingu áburðar og fræs eða tæta úr heyrúllum. Allt er þetta gert samkvæmt samþykktri landbótaáætlun fyrir Hrunamannaafrétt vegna gæðastýringar í sauðfjárrækt, en landgræðslufélagið tók að sér ábyrgð á framkvæmdum í því verkefni.

dscf7145

Auglýst eftir umsóknum um styrki úr Landbótasjóði

By | Fréttir | No Comments

1.12.16 / Landgræðsla ríkisins auglýsir hér með eftir umsóknum um styrki úr Landbótasjóði Landgræðslunnar, en sjóðurinn úthlutar árlega styrkjum til margvíslegra landbótaverkefna til bænda, sveitarfélaga, félagasamtaka og annarra umráðahafa lands. Umsóknarfrestur er til 13. janúar nk.

Við ákvörðun um styrkveitingar er m.a. lögð áhersla á:

• Stöðvun hraðfara jarðvegsrofs og gróðureyðingar
• Endurheimt gróðurs og jarðvegs
• Að landnýting verði sjálfbær

Við mat á umsóknum er ennfremur tekið tillit til þess hvort gerð hafi verið landgræðslu- og landnýtingaráætlun til a.m.k. 3ja ára fyrir það svæði sem ætlunin er að vinna á.
Styrkur til einstakra verkefna getur að hámarki numið 2/3 af áætluðum kostnaði þess að mati Landgræðslunnar. Landgræðslan veitir ráðgjöf við framkvæmd þeirra verkefna sem sjóðurinn styrkir og hefur jafnframt eftirlit með framvindu þeirra og metur árangur.

Smelltu hér til að nálgast umsóknareyðublað en  hér til að sjá úthlutunarreglur sjóðsins. Einnig er hægt að nálgast þessi gögn og fá nánari upplýsingar á héraðssetrum Landgræðslunnar og á skrifstofu Landgræðslunnar í Gunnarsholti. Umsóknir skal senda á netfangið land@land.is eða til Landgræðslu ríkisins, Gunnarsholti, 851 Hella.

za_heimasida_img_5078

Samstarfsverkefni Norðurlanda um forgangsröðun í vistheimt

By | Fréttir | No Comments

23.11.2016 / Mikilvægi vistheimtar (endurheimtar vistkerfa) hefur farið vaxandi á undanförnum áratugum um allan heim vegna aukins álags á vistkerfi og hnignunar þeirra. Þá hafa alþjóðlegir samningar í umhverfismálum einnig kallað eftir aðgerðum í vistheimt, s.s. aðgerðaráætlun í tengslum við samning Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni (CBD) sem stefnir að því að 15% raskaðra vistkerfa verði endurheimt fyrir 2020 (Aichi target 15). Þetta hefur kallað á vinnu við stefnumörkun og að leita leiða til að ná þeim markmiðum sem sett hafa verið fram. Vegna takmarkaðs fjármagns til stjórnunar náttúruauðlinda og í náttúruvernd (þ.m.t. vistheimt) er einnig mikilvægt að forgangsraða þannig að fé sé nýtt sem best í þágu náttúrunnar. Landgræðsla ríkisins tók þátt í norrænu og eistlensku samstarfsverkefni undir forystu Svía um forgangsröðun og áætlanir í vistheimt sem lauk nýlega með útgáfu ritsins Restoration priorities and strategies; Restoration to protect biodiversity and enhance Green infrastructure: Nordic examples of priorities and needs for strategic solutions (TemaNord 2016: 534).

Markmið verkefnisins var að deila reynslu þátttökuþjóðanna af forgangsröðun og vistheimt. Það var ekki ætlunin að taka saman heildaryfirlit um forgangsröðun í löndunum heldur frekar að sýna með dæmum mögulegar leiðir, ræða þær út frá fræðum um forgangsröðun við nýtingu lands og að leggja grunn að áframhaldandi vinnu um forgangsröðun í vistheimt á Norðurlöndunum. Ólíkar leiðir hafa verið farnar í löndunum en helsta niðurstaðan var að engir staðlar eru til um forgangsröðun í vistheimt og jafnframt hefur mjög takmörkuð vinna farið fram um hvernig best sé að forgangsraða.

Vegna slæms ástands vistkerfa á Íslandi eru mörg vistheimtarverkefni sem æskilegt væri að fara í. Það er því mikilvægt hér á landi sem annars staðar að forgangsraða verkefnum og sú vinna sem fram fór í samstarfsverkefninu ætti að nýtast Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, Landgræðslunni og öðrum aðilum sem koma að vistheimt við þá vinnu.
Ritið er á ensku og hægt að sækja það hér. 

Þessi vinna byggðist á verkefni sem sami hópur vann undir stjórn Norðmanna, um hvernig Norðurlöndin gætu skipulagt vinnu til að bregðast við markmiðum sem tengjast vistheimt í aðgerðaráætlun samnings SÞ um líffræðilega fjölbreytni til 2020, sérstaklega markmiðið um endurheimt 15% raskaðra vistkerfa (Aichi markmið 15). Þeirri vinnu lauk með útgáfu ritsins The Nordic Aichi restoration project; How can the Nordic countries implement the CBD-target on restoration of 15% of degraded ecosystems within 2020?  (TemaNord 2015: 515) og má sækja það hér.

nota-lóa-lúpína

Afar fróðleg grein um mófugla í Icelandic Agricultural Sciences

By | Fréttir | No Comments

23.11.2016 / Ný grein var að koma út í hefti 29/2016 af vísindaritinu Icelandic Agricultural Sciences og hægt er að nálgast hana hér. Greinin nefnist Avian abundance and communities in areas revegetated with exotic versus native plant species og er eftir Brynju Davíðsdóttur, Tómas Grétar Gunnarsson, Guðmund Halldórsson og Bjarna Diðrik Sigurðsson.

Höfundar rannsökuðu áhrif mismunandi landgræðsluaðgerða á þéttleika og tegundasamsetningu fugla og á fjölda smádýra. Á 26 stöðum á landinu voru borin saman; a) óuppgrædd svæði, b) endurheimt mólendi og c) land sem hafði verið grætt upp með alaskalúpínu. Mikill munur var á fjölda fugla milli gróðurlenda. Á óuppgræddu landi var að meðaltali 31 fugl á ferkílómetra, 337 á endurheimtu mólendi og 627 á landi sem hafði verið grætt upp með lúpínu. Þar sem fuglar voru fleiri var einnig meira af smádýrum sem eru mikilvæg fæða fuglanna.

Í endurheimtu mólendi var mest um vaðfugla, tegundum sem er að hnigna á heimsvísu, en í lúpínu var meira um algengari tegundir. Heiðlóa og lóuþræll voru algengustu tegundirnar í endurheimtu mólendi, en hrossagaukur og þúfutittlingur í lúpínu. Þéttleiki sumra fuglategunda virtist vera háður framvindustigi landgræðslusvæða. Þessi rannsókn sýnir að landgræðsla eykur líffræðilega fjölbreytni dýrategunda, en mismunandi landgræðsluaðgerðir leiða til mismunandi þróunar vistkerfanna.

GSTIMG_2303

Guðmundur Stefánsson látinn

By | Uncategorized | No Comments

21.11.2016 / Vinnufélagi okkar og vinur Guðmundur Stefánsson sviðsstjóri varð bráðkvaddur aðfaranótt laugardags. Guðmundur var fæddur 10. apríl 1952 og var því 64 ára er hann lést.

Guðmundur var menntaður landbúnaðarhagfræðingur frá Landbúnaðarháskólanum í Ási. Að námi loknu starfaði hann hjá Bændasamtökunum en varð síðan framkvæmdastjóri Ístess hf. og síðan fóðurverksmiðjunnar Laxár. Guðmundur var bæjarfulltrúi á Akureyri 1994-97 og sat m.a. í bæjarráði. Hann var varaþingmaður Framsóknarflokksins í Norðurlandskjördæmi eystra 1991-1995. Guðmundur var ráðinn hagfræðingur Bændasamtakanna 1997. Hann varð framkvæmdastjóri Lánasjóðs landbúnaðarins 1999 til 2005 og útibússtjóri Kaupþings á Selfossi. Guðmundur kom til starfa sem sviðsstjóri hjá Landgræðslunni árið 2007 og stýrði Landverndarsviði stofnunarinnar.

Guðmundur var góður vinnufélagi sem gustaði af hvort sem var í starfinu eða í viðburðum starfsmannafélagsins. Víðtæk reynsla Guðmundar af fjölbreyttum stjórnunarstörfum komu sér oft vel og alltaf var stutt í glettnina og til hans var gott að leita ef eitthvað bjátaði á.

Guðmundur skilur eftir sig stórt skarð í starfsmannahópnum.

Starfsmenn Landgræðslunnar votta eiginkonu Guðmundar, Hafdísi Jónsdóttur, sonum þeirra, Þórarni Ægi og Stefáni Hrannari og fjölskyldum þeirra samúð og þakka fyrir að hafa fengið að hafa Guðmund að félaga.

922626

Hugað að skógrækt í landgræðslu

By | Fréttir | No Comments

14.11.2016 / Land­græðsla rík­is­ins og Skóg­rækt­in eru að skoða nokk­ur göm­ul land­græðslu­svæði í Þing­eyj­ar­sýslu með það í huga að hefja þar skóg­rækt. Þröst­ur Ey­steins­son skóg­rækt­ar­stjóri seg­ir að mögu­leik­ar kunni að vera í nokkr­um göml­um skóg­rækt­arg­irðing­um, til dæm­is í Bárðar­dal, á Hólas­andi og í Keldu­hverfi. Einnig kunni að vera svæði á Vest­fjörðum. „Við ætl­um að skoða þetta aðeins bet­ur og velja svæðin vel. Við vilj­um taka þau svæði þar sem von er á mest­um og best­um ár­angri í skóg­rækt,“ seg­ir Þröst­ur í um­fjöll­un um áform þessi í Morg­un­blaðinu í dag.

Í frétt Helga Bjarnasonar blaðamanns í Morgunblaðinu segir enn fremur að nýir landgræðslu- og skógræktarstjórar hafa verið að taka upp nánara samstarf stofnana þeirra á ákveðnum sviðum. Má nefna Þorláksskóga í þessu sambandi.

Meðfylgjandi mynd tók Helgi Bjarnason.

Frétt á mbl.is

 

minningarsjodurDSC_2643

Minningarsjóður Hjálmars R. Bárðarsonar og Else S. Bárðarson

By | Fréttir | No Comments

14.11.2016 / Minningarsjóður Hjálmars R. Bárðarsonar og Else S. Bárðarson auglýsir rannsóknastyrki í landgræðslu og skógrækt, með sérstakri áherslu á vistfræði lúpínu og landgræðsluskógrækt með lúpínu. Til úthlutunar verða 4,2 milljónir króna. Umsóknum skal skilað eigi síðar en 10. janúar 2017.

Hjálmar R. Bárðarson, f.v. siglingamálastjóri, ánafnaði Landgræðslusjóði 30% af eigum sínum, en hann lést 7. apríl 2009. Óskaði hann eftir því að fénu yrði varið til landgræðsluskógræktar, „þar sem áður var lítt gróið bersvæði, ef til vill þar sem gróðursett lúpína hefur gert landsvæði vænlegt til skógræktar“, eins og segir í erfðaskránni.

Ákveðið var að verja hluta arfsins til stofnunar sjóðs, sem starfa mun í 10 ár, með það markmið að styrkja rannsóknir í landgræðslu og skógrækt, með sérstakri áherslu á vistfræði lúpínu og landgræðsluskógrækt með lúpínu. Landgræðsla ríkisins, sem erfði Hjálmar til jafns við Landgræðslusjóð, lagði sjóðnum einnig til fé. Er sjóðnum ætlað að heiðra minningu Hjálmars og konu hans Else Sörensen Bárðarson, sem andaðist 28. maí 2008.

Styrkþegar geta verið einstaklingar, félagasamtök, fyrirtæki og opinberir aðilar.

Sjá nánar hér.

IMG_2209

Lífmassaframleiðsla úr einærri lúpínu

By | Fréttir | No Comments

10.11.2016 / Landgræðslan tekur þátt í nýju sam-evrópsku þróunarverkefni um lífmassa-framleiðslu og aðra úrvinnslu einærrar lúpínu (Lupinus mutabilis Sweet), en það hófst formlega í byrjun október. Evrópusambandið hefur veitt fimm milljón evra styrk til verkefnisins, sem hefur fengið nafnið LIBBIO. Að verkefninu koma fjórtán aðilar í átta löndum. Nýsköpunarmiðstöð Íslands stýrir verkefninu.

libbio_logoEvrópusambandið hefur sett sér það markmið að draga úr vægi jarðolíu í hagkerfinu og vera betur sjálfu sér nægt um lífafurðir. Með LIBBIO-verkefninu vill Evrópusambandið auka lífmassaframleiðslu af rýru landi og styrkja þar með lífhagkerfið án þess að nota verðmætt ræktarland.  Á Íslandi er mikið af mjög rýru landi sem gæti hentað til ræktunar þessarar tegundar.

Lupinus mutabilis er frá Suður-Ameríku og hefur verið notuð til ræktunar fóðurs og matar í Andesfjöllunum um aldir. Nýlegar athuganir sýna að hún vex vel á meginlandi Evrópu og talið líklegt að einhver yrki hennar geti vaxið vel á Íslandi. Þessi tegund er einær ólíkt alaskalúpinu sem er fjölær. Suður-Ameríska lúpínan virðist ekki vera ágeng á meginlandi Evrópu og eru því litlar líkur á að hún verði það á Íslandi, en það verður kannað sérstaklega.

Í Libbio-verkefninu verður skoðað hvernig vinna má olíu, prótein og fóður úr henni, eða nota til orkuframleiðslu. Á Íslandi verður áhersla lögð á að kanna möguleika hennar til vaxtar á rýru landi með það fyrir augum að nýta hana til uppgræðslu og/eða fóðurframleiðslu. Verkefnið er styrkt af samstarfsneti evrópska lífmassaiðnaðarins, innan H2020 rannsóknaráætlunar Evrópusambandsins samkvæmt verkefnissamningi nr. 720726.

logo-bridge2020 Embl-H2020-droite-18-10-2013 lagad_BBI

Smelltu hér til að komast inn á vef verkefnisins

Kornakur-Gunnarsholt-IMG_7607

Aukinn lofthiti mun hafa gríðarleg áhrif á uppgræðslu landsins

By | Fréttir | No Comments

4.11.16 / „Eitt af því sem mig langar að gera sem landgræðslustjóri er að auka vitund fólks á fæðuöryggi og á því að við verðum að fara að búa okkur undir þær hraðfara breytingar sem eru í vændum vegna breytinga á veðurfari og hlýnunar loftslagsins. Landbúnaður er þannig grein að það tekur einn til tvo áratugi að breyta kerfinu og því nauðsynlegt að fara að huga að þessum málum strax“, sagði Árni Bragason, landgræðslustjóri, í samtali sem Bændablaðið átti við hann. Árni sagði í viðtalinu að Landgræðslan þurfi að búa sig undir loftslagsbreytingar og aukna akuryrkju í framtíðinni. Hér birtist hluti af viðtalinu við Árna.

Árni segist sjá fyrir sér að Landgræðslan sinni áfram sínu hlutverki við að græða landið en að hún leggi einnig sitt af mörkum til að styðja við auka akuryrkju í landinu og sé jafnvel leiðandi á því sviði.

heimasida-zaIMG_9169„Allar spár og loftslagsmódel benda til að lofthiti hækki um að minnsta kosti tvær gráður hér á landi næstu áratugina og þar af leiðandi verður hægt að auka kornrækt gríðarlega í framtíðinni. Víða þar sem áður voru sandar eru tún í dag og þar verða kornakrar í framtíðinni.

Ég vil að möguleikinn á kornrækt verði tekinn inn í myndina þegar við skipuleggjum landgræðslu í framtíðinni og tryggjum að akuryrkja sé eitt af markmiðum uppgræðslunnar. Ég vil líka ýta undir að menn fari að ræða þessi mál innan greinarinnar og skoða þetta sem valkost.

Hækki lofthitinn, eins og spár gera ráð fyrir, verða til aðstæður sem gera okkur kleift að nota allt aðrar plöntur til uppgræðslu en notaðar eru í dag. Fyrir vikið ætti uppgræðslan að verða okkur auðveldari en við verðum líka að vera tilbúin að takast á við verkefnið á nýjan hátt. Þegar ég segi aðrar plöntur á ég ekki við erlendar plöntur heldur önnur afbrigði og tegundir gróðurs og ég sé líka fyrir mér uppgræðslu með það að markmiði að auka akuryrkjuland.

Hlýnuninni mun einnig fylgja nýir plöntusjúkdómar og plágur sem við þurfum að fást við og því er líka nauðsynlegt að vera undirbúin undir það og önnur vandamál koma til með að fylgja auknum hlýindum.

Umræða af þessu tagi er komin vel á veg víða á Norðurlöndunum og ekki seinna vænna að við förum að tala um þessi mál af alvöru hér á landi.“

Árni segir að þrátt fyrir nauðsyn þess að að taka upp umræðu um framtíð landgræðslunnar í landinu séu brýnustu verkefni stofnunarinnar í dag svipuð því og þau hafa verið. „Endurheimta landgæði og hafa tiltækt það efni sem þarf til uppgræðslu eins og fræ.“

Landgræðslan og bændur
Að sögn Árna er langstærstur hluti bænda í landinu að gera mjög góða hluti þegar kemur að landbótum og uppgræðslu lands. „Ég tel að 90% bænda séu að gera góða hluti og með þeim vil ég vinna en ég hef lítinn áhuga á að ganga á eftir eða sýna þeim 10% sem hafa ekki áhuga á landbótum einhvers konar meðvirkni. Ég hef áhuga á samvinnu við þennan stóra meirihluta, því með þeim komum við til með að ná árangri en ekki með því að eyða öllum tímanum í að púkka undir einhverja fáeina skussa.“

Áhugi á erfðaauðlindum hefur aukist gríðarlega
Frá árinu 2010 starfaði Árni sem forstjóri Norrænu erfðaauðlindastofnunarinnar, Nordgen í Svíþjóð. NordGen er 36 ára gömul stofnun og hún heldur utan um erfðaauðlindir í landbúnaði á Norðurlöndum. NordGen er upphaflega genabankinn fyrir landbúnaðarplöntur en seinna var genabanki fyrir húsdýr settur undir sama hatt ásamt ráðgjöf í erfðamálum skógræktar. Eitt af því sem NordGen er ábyrgt fyrir er daglegur rekstur á frægeymslunni á Svalbarða, Svalbard Global Seed Vault.

„Áhugi á erfðaauðlindum hefur aukist gríðarlega undanfarið og á árunum frá 2012 til 2015 tvöfaldaðist eftirspurn eftir erfðaefni úr bankanum. Fræ- og kynbótafyrirtækin og einstaklingar eru einfaldlega farin að undirbúa sig undir framtíðina og þær loftslagsbreytingar sem eru í vændum. Almenningur í Evrópu er orðinn meðvitaðri um gildi líffræðilegrar fjölbreytni og farinn að prófa sig áfram með ræktun á ýmsum tegundum. Vakning af þessu tagi hefur ekki enn náð fótfestu hér á landi en hún á eftir að aukast,“ segir Árni í viðtalinu sem Vilmundur Hansen átti við hann.

Smelltu hér til að sjá viðtalið í heild á heimasíðu Bbl.