All Posts By

askell

ab_img_5605

Landgræðslustjóri í viðtali við RÚV: Mörg hundruð þúsund hektarar lands sem hreinlega hrópa á aðgerðir

By | Fréttir | No Comments

22.02.17 / Árni Bragason, landgræðslustjóri segir stór svæði hrópa á aðgerðir. Það sé vel hægt að gera fjórfalt betur en nú er gert og ýmis vannýtt tækifæri, til dæmis í allri seyrunni sem skolað er út í sjó. Þá bendi nýlegar rannsóknir til þess að uppgræðsla skili meiri ávinningi en gengið hefur verið út frá. Uppgræðslan er þó eilíf barátta, á einum stað er landið grætt og annars staðar fýkur það með tilheyrandi kolefnislosun. Þetta kemur fram í frétt í RÚV í gær.

Heilmikil geta
Í nýlegri skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um loftslagsmál á Íslandi kemur fram að með því að fjórfalda aðgerðahraða í skógrækt og landgræðslu og ráðast í endurheimt votlendis megi minnka heildarlosun gróðurhúsalofttegunda hér á landi verulega.

arni_bragason_landgrstj_jan_2017_vefur_„Það vantar heilmikið upp á að við gerum eins og menn hafa lagt á ráðin um, fjármagnið hefur ráðið því en getan hjá Landgræðslunni og Skógræktinni er heilmikil,“ Segir Árni Bragason, landgræðslustjóri í viðtalinu við RÚV. Hann telur að það sé vel hægt að fjórfalda aðgerðahraða. „En það auðvitað krefst þess að menn skipuleggi sig og það komi fleiri að en þessar stofnanir. Ef við horfum til þess sem Landgræðslan er að gera þá eru mörg hundruð þúsund hektarar lands sem hreinlega hrópa á aðgerðir. Í flokki þar sem aðgerða er þörf eru tæplega 800.000 hektarar. Þetta er land sem hægt væri að fara í á næstu árum, við höfum kortlagt þessi svæði, vitum hvað þarf að gera.“

Hvar viljum við rækta korn?
Sum svæðanna sem hægt væri að græða eru í eigu ríkisins og þarf ekki að semja um.  „Við erum með tilbúið land til að taka við meiri aðgerðum, það er auðvitað fjármagnið sem hefur takmarkað.“ Í öðrum tilvikum þyrfti að ganga frá samningum varðandi eignarhald. Þá segir Árni mikilvægt að fram fari umræða um hvað skuli gera við landið áður en ráðist er í aðgerðir. Þetta sé skipulagsmál og íbúar sveitarfélaga þurfi að koma að stefnumótuninni.

„Í aðalskipulögum sveitarfélaga eru skilgreind landgræðslusvæði eða landbúnaðarsvæði og þau þarf kannski að skoða, hvað ætlum við okkur með þetta. Við verðum að átta okkur á því að við viljum rækta mat, við viljum rækta korn með hækkandi hitastigi, það er hægt að rækta meira á Íslandi vegna hækkandi hita. Við þurfum að meta hvar er hentugt land til akuryrkju og hvað verður framtíðarland til akuryrkju á Íslandi, það er ekkert alls staðar sem við viljum sjá skóg. Þetta eru skipulagsmál sem við þurfum að skoða.“

Tækifæri í seyru og samvinnu
En hvaða aðgerð telur hann best til þess fallna að binda gróðurhúsalofttegundir? Árni segist horfa til samstarfsverkefna Skógræktar og Landgræðslu, þess að taka landgræðslusvæði og rækta á þeim birkiskóg. Hekluskógar eru gott dæmi um slíkt samstarf. Stofnanirnar hafa hug á frekara samstarfi af þessum toga og hafa sent ráðuneytinu minnisblað. „Við óskum eftir því að það verði sett veruleg vinna í að gera slíkar áætlanir.“

Árni bendir líka á vannýtt tækifæri. Sóun á áburði er honum ofarlega í huga, miklu magni af seyru er sóað á ári hverju. Henni er dælt út í sjó eða hún urðuð. „Það fer svipað af áburðarefnum í gegnum holræsakerfi Reykjavíkur út í Faxaflóa eins og allur sá áburður sem við erum að flytja til landsins á hverju ári.“ Síðastliðin ár hafa fimm sveitarfélög tekið þátt í þróunarverkefni sem lýtur að því að nýta seyruna til að græða upp land og Árni vonar að fleiri bætist í hópinn.

Myndi kosta ríkið um milljarð árlega
Árni telur að alls myndi það kosta ríkið um milljarð á ári að fjórfalda aðgerðahraða í landgræðslu og skógrækt. Í skýrslu Hagfræðistofnunar er áætlað að það kosti um 2500 krónur að binda tonn af koltvísýringi með skógrækt og 2700 krónur að binda tonn af koltvísýringi með því að græða upp land. Árni segir að draga megi úr kostnaði með því að taka fyrir stór svæði í einu. Landgræðslan er í samstarfi við 550 bændur um allt land og þeir hafa komið með mótframlag. „Ef við settum meira fjármagn inn í gegnum þau sambönd eða samstarf þá gætum við líka náð árangri.“

En það er ekki nóg að framkvæma, það þarf líka að sýna fram á árangur. Í Speglinum í síðustu viku greindi verkefnisstjóri votlendisverkefnis Landgræðslunnar frá því að ríkið hefði einungis varið fjármagni til framkvæmda ekki til rannsókna á áhrifum þeirra, eins og til hafi staðið. Nú er starfsfólk Landgræðslunnar að vinna grunnrannsókn á loftslagsáhrifum landgræðslu og er niðurstaðna að vænta síðar á þessu ári. Þetta er flókin rannsóknarvinna. Sexhundruð ólíkir uppgræðslureitir hafa verið rannsakaðir. Árni segir stofnunina ekki hafa fengið sérstakt fjármagn til rannsóknanna. „Við höfum hreinlega forgangsraðað til þess að fá þetta því við teljum þetta algera forsendu fyrir því að við getum verið trúverðug í þeim aðgerðum sem við erum að stunda.“
Hann segir að það krefjist áframhaldandi rannsókna og vöktunar, eigi þessar aðgerðir að verða hluti af loftslagsbókhaldi Íslands.

„Við vitum nógu mikið til þess að við þorum að fullyrða að þær tölur sem við erum að birta, þær eru svona frekar varfærnar. Við erum að vona að það sé heldur meira sem binst en þær tölur sem við höfum verið að nota. Við höfum viljað fara varlega í þessu því við viljum geta staðið við það sem við segjum og viljum standast þá skoðun sem mun verða.“

Skógur geti komið í stað olíu
Enn er óljóst hversu mikið við getum reitt okkur á endurheimt votlendis, landgræðslu og skógrækt þegar kemur að því að standa við skuldbindingar okkar gagnvart Parísarsamkomulaginu. Líklega verður sett á það eitthvert þak. Árni telur að þessar aðgerðir séu vel þess virði jafnvel þó þær myndu ekkert telja í bókhaldinu. „Ef við horfum bara til þess að það að bæta land, þá erum við að skapa verðmæti til framtíðar því góður jarðvegur er forsenda þess að við getum ræktað og haft góð akurlendi. Skógur er verðmæti sem við erum að byggja upp því allt sem hægt er að vinna úr olíu er hægt að vinna úr skógi. Það er fjöldi landa að vinna að slíkum málum. Spennandi verkefni í Svíþjóð og Finnlandi. Í Svíþjóð eru þúsund manns að vinna í þróunarvinnu á því að sjá hvaða leiðir hægt er að fara með timbur yfir í alls konar efnavörur, fiskifóður og ýmislegt fleira.“

Heildarávinningurinn óljós
Árni hefur ágæta mynd af ávinningnum en heildarávinningurinn af landgræðsluaðgerðum er óljós. Þegar land blæs upp losnar kolefni en það er ekki haldið utan um það hversu mikið losnar, einungis hversu mikið er grætt upp. Landgræðsla er barátta, það getur tekið hundruð ára að byggja upp frjósaman jarðveg. Það sama er uppi á teningnum þegar kemur að endurheimt votlendis. Ekki liggur fyrir hversu mikið er framræst hér á landi en tölur Rannsóknarmiðstöðvar Landbúnaðarins benda til þess að mun meira sé framræst en endurheimt. Það er þó ákveðinn munur á framræslu og uppblæstri. Skurðir eru mannanna verk en uppblástur lands telst náttúrulegt ferli þrátt fyrir að menn geti vissulega stuðlað að honum.

dsc_4693

Veruleg tækifæri til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda

By | Fréttir | No Comments

13.2.2017 / Hagfræðistofnun Háskóla Íslands (HHÍ) hefur skilað umhverfis- og auðlindaráðuneytinu greiningarskýrslu um möguleika Íslands til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka bindingu kolefnis úr andrúmslofti. HHÍ kynnti helstu niðurstöður hennar á fundi í dag. Þetta kemur fram á vef umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.

Ráðuneytið bað HHÍ að gera slíka skýrslu til að byggja undir stefnumótum í loftslagsmálum. Samskonar skýrsla var gerð árið 2009, sem var lögð til grundvallar aðgerðaáætlun til draga úr losun og samþykkt var í ríkisstjórn 2010. Sú áætlun miðaði að því að Ísland gæti staðið við skuldbindingar til 2020 skv. ákvæðum Kýótó-bókunarinnar.

Í skýrslu HHÍ kemur fram að spáð er aukningu í losun um 53-99% til 2030 miðað við 1990. Ef kolefnisbinding með skógrækt og landgræðslu er tekin með er aukningin heldur minni, eða 33-79%. Aukning losunar er mest í stóriðju. Skýrsla HHÍ segir líka að margvíslegir möguleikar séu til að draga úr losun. Greindar voru 30 mótvægisaðgerðir með tilliti til kostnaðar og áb

Í skýrslunni segir að aukning losunar sé mest í stóriðju.

Í skýrslunni segir að aukning losunar sé mest í stóriðju.

ata. Sumir kostir eru dýrir, aðrir kosta tiltölulega lítið og sumir skila jafnvel fjárhagslegum nettóábata. Skýrslan greinir tæknilega möguleika á að draga úr losun og auka kolefnisbindingu, en tekur fram margt hafi áhrif á hvort samdráttur í losun verði í raun, s.s. stjórnvaldsákvarðanir, olíuverð og fleiri þættir. Að óbreyttu stefni í að Ísland standi ekki við skuldbindingar sínar gagnvart Parísarsamningnum til 2030, en slíkt sé hins vega mögulegt ef gripið verði til frekari mótvægisaðgerða.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir að gerð verði aðgerðaáætlun í loftslagsmálum í samræmi við Parísarsamkomulagið og að áætlunin feli meðal annars í sér græna hvata, skógrækt, landgræðslu og orkuskipti í samgöngum. Björt Ólafsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra stefnir að því að kynna skýrslu sína um loftslagsmál fyrir Alþingi í febrúarmánuði. Skýrslan mun m.a. taka mið af niðurstöðum HHÍ, sem kynntar voru í dag.

Sjá skýrsluna hér.

 

audna-hopur

Vísindasamfélagið sameinast um stofnun Auðnu

By | Fréttir | No Comments

6.2.2017 / Allir háskólar landsins ásamt opinberum rannsóknastofnunum og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, stóðu þann 27. janúar að stofnun „Auðnu“ – undirbúningsfélags um stofnun sameiginlegrar tækniyfirfærsluskrifstofu– eða tækniveitu – fyrir Ísland. Stefnt er að stofnun tækniveitunnar í byrjun árs 2018. Erlendar og innlendar úttektir á nýsköpunarumhverfinu hérlendis hafa bent á skort á tækniyfirfærslu (technology transfer) úr háskólum og rannsóknastofnunum sem veikan hlekk í nýsköpunarkeðjunni. Tækniveitunni er ætlað að vera brú á milli rannsókna og nýsköpunar sem  kemur verðmætum ávöxtum vísinda og þekkingar áleiðis til samfélagsins. Tækniveitan mun leggja faglegt mat á uppfinningar vísindamanna, sinna hugverkavernd og hugverkastjórnun og fylgja verkefnum  eftir í hendur fjárfesta, frumkvöðla og atvinnulífsins innanlands sem erlendis. Sameiginleg tækniveita fyrir Ísland getur gegnt mikilvægu hlutverki í að virkja betur vísindin, styrkja nýsköpun, efla atvinnulíf og þar með samkeppnishæfni þjóðarinnar.

Á meðfylgjandi mynd frá stofnfundi Auðnu má sjá fulltrúa margra þeirra stofnana sem koma að undirbúningsfélaginu; Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík, Landspítala háskólasjúkrahúss, Háskólans á Akureyri, Landbúnaðarháskóla Íslands, Háskólans á Bifröst Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, Matís, Hafrannsóknastofnunar, Landgræðslu ríkisins, Vísindagarða HÍ og atvinnuvega-og nýsköpunarráðuneytisins. Á myndina vantar fulltrúa Listaháskóla Íslands og Háskólans á Hólum.  Framkvæmdastjóri Auðnu er Einar Mäntylä.

img_5587

Lífrænn úrgangur til landgræðslu – Tækifæri

By | Fréttir | No Comments

1.2.2017 / Nýlega kom út skýrslan Lífrænn úrgangur til landgræðslu – Tækifæri. Lífrænn úrgangur hefur verið notaður til uppgræðslu víða um land þar sem það hefur þótt henta m.t.t. kostnaðar og umhverfislegra þátta. En almennt má segja að lífrænn úrgangur hafi ekki verið notaður á markvissan hátt nema af bændum sem nota húsdýraáburð á tún og önnur ræktarlönd.
Lífrænn úrgangur er ekki besti áburður sem völ er á hvað varðar styrk næringarefna eða kostnaðar við nýtingu, en er mikilvægur efniviður sem ætti að nýta miklu meira til uppgræðslu og landbóta en gert er. Í skýrslunni er lögð áhersla á þau tækifæri sem felast í nýtingu lífræns úrgangs bæði sem efnivið til landgræðslu en einnig sem umhverfisvæna aðgerð til að minnka mengun og sóun verðmæta.  Í nefndinni voru Anne Bau (formaður), Garðar Þorfinnsson, Magnús H. Jóhannsson og Sigþrúður Jónsdóttir.

Smella hér til að sjá skýrsluna.

gunnarsholt_yfirlitsmynd_a_1025-frodleikur

Asparskógurinn í Gunnarsholti

By | Fróðleikur | No Comments

Í þessari ritgerð Sæmundar Sveinssonar  og Ólafar Sæmundardóttur er gerð grein fyrir sögu skógræktar í Gunnarsholti, höfuðstöðvum Landgræðslu ríkisins. Sú saga hefst er birkifræi er sáð vorið 1939 í fyrsta landgræðsluskóginn á Íslandi. Hann hefur verið nefndur Gunnlaugsskógur eftir fyrsta sandgræðslustjóranum Gunnlaugi Kristmundssyni. Skógurinn hefur breiðst út eftir því sem hefting uppblásturs hefur miðað í nágrenninu. Greint er frá upphafi skjólbeltagerðar í Gunnarholti frá 1959 og annarri skógrækt á staðnum. Meginefni ritgerðarinnar fjallar um Asparreitinn í Gunnarsholti, tilurð hans og þýðingu fyrir umhverfisrannsóknir á Íslandi. Þar var fyrst plantað vorið 1990 um 145.000 aspargræðlingum öllum af sama klóninum. Margir aðilar komu að fyrsta rannsóknaverkefninu sem er stærsta alþjóðlega rannsóknaverkefnið í skógrækt hér á landi. Síðan fylgdu a.m.k. ein 10 önnur rannsóknaverkefni í kjölfarið og á milli 20 og 30 ritrýndar greinar hafa verið gefnar út um rannsóknirnar í Asparreitnum. Margar þeirra fjalla um rannsóknir á bindingu kolefnis í jarðvegi og gróðri. Smella hér til að sjá ritgerðina.

husavikimg_0523

Héraðsfulltrúi óskast til starfa

By | Fréttir | No Comments

4.1.2017 / Landgræðsla ríkisins óskar eftir að ráða héraðsfulltrúa með aðalstarfssvæði í Eyjafjarðar- og Þingeyjarsýslum með aðsetur á Húsavík. Hann þarf að hafa sveigjanleika og vera tilbúinn til að taka þátt í þróun starfsins og breytingum sem kunna að verða á starfinu og vinnustaðnum. Landgræðsla ríkisins er þekkingar- og þjónustustofnun. Markmið hennar eru verndun gróðurs og jarðvegs og bætt landgæði. Stofnunin starfar samkvæmt lögum um landgræðslu nr. 17/1965 og lögum um varnir gegn landbroti nr. 91/2002.

Starfs- og ábyrgðarsvið
• Öflun upplýsinga, ráðgjöf og eftirlit með verkefnum í Bændur græða landið, Landbótasjóði og öðrum landgræðsluverkefnum.
• Áætlanagerð og umsjón landgræðsluverkefna á starfssvæðinu.
• Vöktun á ástandi gróðurs og jarðvegs og fylgjast með að lögum um landgræðslu sé framfylgt.
• Aðstoð við gerð beitar- og uppgræðsluáætlana fyrir einstakar bújarðir og stærri svæði.
• Skráning landgræðsluaðgerða og eftirlit með árangri þeirra.
• Fræðsla og ráðgjöf til sveitarstjórna, landnotenda, skóla og almennings.
• Önnur verkefni

Menntun og hæfni
• Krafist er BSc-prófs í náttúruvísindum, t.d. landnýtingu, beitarfræðum eða umhverfisfræðum
• Almenn þekking eða reynsla af landbúnaði
• Skipulagshæfni, sveigjanleiki og góð samstarfshæfni
• Góð kunnátta í notkun tölvu og upplýsingatækni og góð íslenskukunnátta, skilyrði
• Þekking og reynsla af landgræðslustarfi, kostur
• Þekking og reynsla af notkun landupplýsingakerfa, kostur

Um er að ræða 100% stöðu, starfinu geta fylgt talsverð ferðalög, megin starfssvæðið er Norðurland. Stafið hentar bæði konum og körlum. Æskilegt er að starfsmaður geti hafið störf 1. apríl 2017.

Laun er skv. kjarasamningi ríkisins og FÍN félags náttúrufræðina. Nánari upplýsingar um starfið veita Árni Bragason arni.bragason@land.is, Daði Lange Friðriksson dadi@land.is og Sigurbjörg B. Ólafsdóttir sigurbjorg@land.is.

Umsókn skal fylla út og senda rafrænt. Smella hér. Ferilskrá og afrit af prófskírteini skal fylgja. Einnig má senda umsókn til Landgræðslu ríkisins, Gunnarsholti, 851 Hella.
Öllum umsóknum verður svarað þegar ráðning liggur fyrir.

Umsóknarfrestur er til og með 31. janúar 2017.

loftmynd_gunnarsholt_

Starf sviðsstjóra Landverndarsviðs

By | Fréttir | No Comments

4.1.2017 / Landgræðsla ríkisins óskar eftir að ráða sviðsstjóra Landverndarsviðs. Starfsstöð sviðsstjóra er í Gunnarsholti. Landgræðsla ríkisins er þekkingar- og þjónustustofnun. Markmið hennar eru verndun gróðurs og jarðvegs og bætt landgæði. Stofnunin starfar samkvæmt lögum um landgræðslu nr. 17/1965 og lögum um varnir gegn landbroti nr. 91/2002. Stofnunin hefur höfuðstöðvar í Gunnarsholti en er auk þess með starfsstöðvar á Egilsstöðum, Húsavík, Sauðárkróki, Hvanneyri og í Reykjavík.

Meginhlutverk Landverndarsviðs, sem er annað af meginsviðum stofnunarinnar, er jarðvegs- og gróðurvernd og uppbygging vistkerfa m.a. með því að stuðla að sjálfbærri nýtingu þeirra. Starfræksla héraðssetra, gerð og eftirfylgni landgræðslu- og héraðsáætlana, landgræðsluframkvæmdir, eftirlit með landnýtingu, umsjón með vörnum gegn landbroti og umsjón með styrkveitingum og árangri landbótaverkefna. Starfsmenn Landverndarsviðs eru 23 sem starfa víða um land.

Starfs- og ábyrgðarsvið sviðsstjóra
• Yfirmaður Landverndarsviðs.
• Situr í yfirstjórn stofnunarinnar.
• Ber ábyrð á gerð fjárhagsáætlunar Landverndarsviðs í samvinnu við fjármálastjóra og sér til þess að henni sé framfylgt.
• Er ábyrgur fyrir viðamiklum verkefnum og þáttum í starfi stofnunarinnar s.s. bændur græða landið, Landbótasjóði, gæðastýringu í sauðfjár- og hrossarækt, fræframleiðslu o.fl.
• Vinnur að umsögnum stofnunarinnar vegna þingmála, skipulagsmála og mats á umhverfisáhrifum.

Menntun og hæfni
• Háskólamenntun sem nýtist í starfi.
• Skipulagshæfni, sveigjanleiki og góð samstarfshæfni.
• Reynsla af stjórnun.
• Góð kunnátta í íslensku og ensku.
• Gott landlæsi og sýn á að vinna með náttúrunni.
• Þekking og reynsla af landgræðslustarfi.

Um er að ræða 100% stöðu sem hentar bæði konum og körlum.

Starfsmaðurinn þarf að hafa sveigjanleika og vera tilbúinn til að taka þátt í þróun starfsemi Landgræðslunnar. Endurskoðun landgræðslulaga er í undirbúningi. Starfinu fylgja talsverð ferðalög. Laun eru skv. kjarasamningi ríkisins og viðkomandi stéttarfélags.

Nánari upplýsingar um starfið veita Sigurbjörg B. Ólafsdóttir starfsmannastjóri (sigurbjorg@land.is) og Árni Bragason landgræðslustjóri (arni.bragason@land.is).

Umsókn skal fylla út og senda rafrænt. Smella hér. Ferilskrá og afrit af prófskírteini skal fylgja. Einnig má senda umsókn til Landgræðslu ríkisins, Gunnarsholti, 851 Hella.
Æskilegt er að umsækjandi geti hafið störf sem fyrst. Öllum umsóknum verður svarað þegar ráðning liggur fyrir.
Umsóknarfrestur er til og með 25. janúar 2017.

geitasandur_ferd_m_reyni_7

Höfðingleg gjöf til Landgræðslunnar

By | Fréttir | No Comments

2.1.2017 / Á liðnu ári lést Ragnar Haraldsson, sjómaður. Í erfðaskrá sinni ánafnaði hann Landgræðslu ríkisins umtalsverðri fjárhæð eða um 15 milljónum króna. Ragnar útskrifaðist frá Bændaskólanum á Hvanneyri en var sjómaður lengst af og starfaði hjá Eimskipafélaginu til sjötugs. Ragnar var einhleypur og barnlaus. Fram kom í útfararræðu að Ragnar hafi verið hörkuduglegur sjómaður, sterkur og ósérhlífinn. Undir lok ævi sinnar bjó hann á Hrafnistu í Reykjavík.

ragnarRagnar Haraldsson fæddist og ólst upp á Þorvaldsstöðum í Skeggjastaðahreppi í Norður-Múlasýslu árið 1926. Hann var sonur hjónanna Haraldar Guðmundssonar og Þórunnar Bjargar Þórarinsdóttur. Ragnar var sjöundi af fjórtán börnum.

Í erfðaskrá kemur fram að Ragnar skipti eigum sínum jafnt á milli á milli Slysavarnarskóla sjómanna, Barnaspítalasjóðs Hringsins og Landgræðslu ríkisins. Greinilega vakti fyrir honum öryggi sjómanna, velferð barna og lands.

„Ég vil fyrir hönd Landgræðslu ríkisins þakka þann góða hug sem fylgdi gjöfinni til stofnunarinnar. Verkefni Landgræðslunnar eru mörg og mikilvæg og við munum nota þennan arf í verk sem sannarlega skila sér til komandi kynslóða. Ljóst er að það var vilji Ragnars,“  sagði Árni Bragason, landgræðslustjóri.

Meðfylgjandi mynd var tekin þegar Haraldur, bróðir Ragnars, kom í Gunnarsholt laust fyrir áramót ásamt lögmönnunum Kristjáni Stefánssyni og Jóni Bjarna Kristjánssyni, til að greina frá arfinum. F.v. Jón Bjarni Kristjánsson, Haraldur Haraldsson og Kristján Stefánsson.

Meðfylgjandi mynd var tekin þegar Haraldur, bróðir Ragnars, kom í Gunnarsholt laust fyrir áramót ásamt lögmönnunum Kristjáni Stefánssyni og Jóni Bjarna Kristjánssyni, til að greina frá arfinum. F.v. Jón Bjarni Kristjánsson, Haraldur Haraldsson og Kristján Stefánsson.

20150529_145639

Auglýst eftir umsóknum um styrki vegna landbrots

By | Fréttir | No Comments

15.12.2016 / Landgræðsla ríkisins hefur það hlutverk skv. lögum um varnir gegn landbroti að draga úr eða koma í veg fyrir landbrot og annað tjón á landi, landkostum eða mannvirkjum með Vörnum gegn landbroti af völdum fallvatna. Landgræðslan auglýsir nú eftir umsóknum um styrki til varna gegn landbroti.

Aðgerðir til að hefta landbrot af völdum vatnsfalla eru fólgnar í gerð bakkavarna og í sumum tilfellum byggingu varnargarða. Með bakkavörnum er átt við að grjót- og/eða malarfylling er sett við árbakkann til þess að stöðva landbrot. Bakkavarnir hafa oft á tíðum minni áhrif á rennsli áa og eru minna áberandi í umhverfinu en varnargarðar. Varnargarðar geta á hinn bóginn verið nauðsynlegir þar sem ár bera undir sig framburð og flæmast út fyrir farvegi sína.

Aðkallandi verkefni eru við vatnsföll víða um land auk þess sem sinnt er viðhaldi eldri varnargarða. Ekki er unnt að sinna nema hluta þeirra beiðna sem berast árlega um aðgerðir. Við forgangsröðun verkefna er lögð áhersla á varnaraðgerðir þar sem ræktuðu landi, byggingum eða öðrum mannvirkjum stafar hætta af ágangi vatna. Einnig verður við forgangsröðun umsókna höfð hliðsjón af verðmæti þess lands eða mannvirkja sem landbrotið ógnar.

Umsóknarfrestur er 31. janúar n.k.
Smelltu hér til komast á síðu með umsóknareyðublaði
Smelltu hér til að komast á síðu Varna gegn landbroti

img_3257

Hrossarækt: Fjörutíu bú stóðust úttekt vegna vistvænnar landnýtingar

By | Fréttir | No Comments

14.12.16 / Einn af mörgum þáttum í starfi Landgræðslu ríkisins er eftirlit með landnýtingu hrossabænda. Kerfisbundið eftirlit er þó einungis á þeim hrossabúum, sem eru virk í landnýtingarþætti gæðastýringar í hrossarækt.

Árið 2016 hlutu 40 jarðir, þar sem stunduð er hrossarækt, viðurkenningar vegna vistvænnar landnýtingar. Skipting búa eftir sýslum er eftirfarandi: Skagafjarðarsýsla 11, Rangárvallasýsla 6, Eyjafjarðarsýsla 5, Árnessýsla 4, Austur-Húnavatnssýsla 4, Vestur-Húnavatnssýsla 4, Mýrasýsla 2, Borgarfjarðarsýsla 3 og Snæfellsnessýsla 1.

Á síðu gæðastýringar í hrossarækt er hægt að sjá nöfn þeirra búa sem stóðust úttekt vegna landnýtingar 2016. Smellið hér til að komast á síðuna.